Fjölfarin gatnamót Um Sæbraut/Skeiðarvog/Kleppsmýrarveg er þung umferð alla daga. Gangandi vegfarendum fjölgaði með tilkomu Vogabyggðar.
Fjölfarin gatnamót Um Sæbraut/Skeiðarvog/Kleppsmýrarveg er þung umferð alla daga. Gangandi vegfarendum fjölgaði með tilkomu Vogabyggðar. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Reykjavíkurborg er á lokametrunum með verðfyrirspurn vegna bráðabirðaaðgerða við gatnamót Kleppsmýrarvegar/Skeiðarvogs og Sæbrautar. Þetta er svar borgarinnar við fyrirspurn Morgunblaðsins. Tilkynnt var í febrúar sl

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Reykjavíkurborg er á lokametrunum með verðfyrirspurn vegna bráðabirðaaðgerða við gatnamót Kleppsmýrarvegar/Skeiðarvogs og Sæbrautar. Þetta er svar borgarinnar við fyrirspurn Morgunblaðsins. Tilkynnt var í febrúar sl. að til stæði að bæta umferðaröryggi á þessum gatnamótum í Vogahverfi.

Við gatnamótin hafa orðið nokkur slys og óhöpp á undanförnum árum. Slysasaga gatnamótanna á árunum 2012 til 2021 leiðir í ljós að skráðir voru 115 árekstrar á þessum tíu árum. Þar af voru 11 slys með litlum meiðslum og þrjú alvarleg slys. Nítján einstaklingar hlutu lítil meiðsli og þrír alvarleg meiðsli.

Nýtt hverfi við Elliðaárvoginn, Vogabyggð, hefur byggst upp á allra síðustu árum. Gangandi vegfarendum, sem leið eiga um gatnamótin, hefur því fjölgað mikið. Á það ekki síst við um skólabörn.

Götulýsing endurnýjuð

Bráðabirgðaaðgerðirnar felast í því að breikka stíginn sunnan við Kleppsmýrarveg að Sæbraut og setja gangbrautarlýsingu á öll svokölluð framhjáhlaup (beygjur) gatnamótanna við Sæbraut. Verið er að endurnýja götulýsingu á Kleppsmýrarvegi og Skeiðarvogi og lýkur útskiptingu á lömpum fljótlega.

Í svari Reykjavíkurborgar segir einnig að í sumar verði farið í varanlegri aðgerðir. Settar verði upphækkanir og gangbrautarmerkingar í framhjáhlaupin og felld niður önnur af tveimur vinstri beygjuakreinum frá Kleppsmýrarvegi til suðurs inn á Sæbraut. Þá er á dagskránni að laga miðeyjar Sæbrautar.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum 1. febrúar sl. að ráðast í þessar aðgerðir. Undirbúningur hefur farið fram í samvinnu við Vegagerðina sem er veghaldari á Sæbraut.

Sú leið sem er farin byggist á greiningarvinnu verkfræðistofunnar Eflu á því hvaða aðgerðir gætu bætt umferðaröryggi skólabarna og annarra hjólandi og gangandi vegfarenda sem allra fyrst. Með uppbyggingu Vogabyggðar hafi umferð gangandi og hjólandi vegfarenda sem fara um þessi gatnamót aukist til muna. Mörg börn eigi leið þarna um, til og frá skóla og frístundum. Nú þegar hafi Vegagerðin lækkað hámarkshraða á Sæbraut staðbundið við gatnamótin og gangandi vegfarendum á leið yfir Sæbraut hefur verið gefinn lengri grænn tími á ljósum en áður var.

Núverandi fyrirkomulag, þar sem tekin er vinstri beygja á tveimur akreinum frá Kleppsmýrarvegi á sama tíma og gangandi vegfarendur fara yfir Sæbraut, er mjög óæskilegt með tilliti til umferðaröryggis, sagði í kynningu á samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs. Breytingarnar hafi óhjákvæmilega áhrif á flæði ökutækja frá Kleppsmýrarvegi á annatíma en ávinningur hvað varðar umferðaröryggi sé ótvíræður.

Mörg fyrirtæki á svæðinu

Fjölmörg fyrirtæki eru með starfsemi á svæðinu og gæti fækkun beygjuakreina niður í eina haft neikvæð áhrif á vöruflutninga um gatnamótin. Stórum hluta byggingaefnis til höfuðborgarsvæðisins, t.d. timbri, steypustyrktarjárni og öðru slíku, er skipað upp á Vogabakka. Við bakkann eru tvær byggingavöruverslanir, Byko og Húsasmiðjan, með stórar vörugeymslur. Skammt fyrir ofan eru vöruskemmur Aðfanga (Haga), miklar byggingar. Við Vogabakka eru Samskip einnig með höfuðstöðvar og stórar vörugeymslur. Af öðrum fyrirtækjum á svæðinu má nefna Lífland/Kornax og Jóna Transport.

Flutningabílar frá þessum fyrirtækjum aka upp Kleppsmýrarveg og því er hætt við að raðir myndist við gatnamótin með tilheyrandi töfum, sérstaklega á annatímum.

Þau svör fengust hjá Reykjavikurborg að ekki hafi verið haft samráð við fyrirtækin en hins vegar hafi samgöngustjóri átt fund með Faxaflóahöfnum. „Þetta er umferðaröryggisaðgerð til að bregðast við mjög aðkallandi hættu (fyrir börn á leið til skóla), og val á lausn byggt m.a. á greiningum á töfum og umferðaröryggisáhrifum mismunandi lausna,“ segir í svari borgarinnar til Morgunblaðsins.

Reykjavíkurborg undirbýr að koma fyrir bráðabirgðagöngubrú til að auka öryggi gangandi vegfarenda á leið yfir Sæbraut enn frekar þar til stokkur verður byggður. Gert er ráð fyrir að göngubrúin verði til móts við Snekkjuvog. Framkvæmdir hefjist síðar á árinu ef allt gengur eftir. Breytingarnar sem fyrirhugaðar eru á gatnamótum Sæbrautar við Kleppsmýrarveg nýtist þó áfram eftir að göngubrú kemur, enda verði þar áfram umferð gangandi vegfarenda.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson