Nægilegt land til að stórauka kornrækt er til hér á landi. Sviðsmynd fyrir þróun kornræktar til ársins 2027 sýnir 25 þúsund tonna uppskeru sem er ríflega tvöföldun á þeim 10.700 tonnum sem áætlað er að ræktunin hafi skilað á síðasta ári og sviðsmynd fyrir árið 2033 sýnir 48.500 tonna uppskeru

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Nægilegt land til að stórauka kornrækt er til hér á landi. Sviðsmynd fyrir þróun kornræktar til ársins 2027 sýnir 25 þúsund tonna uppskeru sem er ríflega tvöföldun á þeim 10.700 tonnum sem áætlað er að ræktunin hafi skilað á síðasta ári og sviðsmynd fyrir árið 2033 sýnir 48.500 tonna uppskeru. Í þessum sviðsmyndum er gert ráð fyrir að aðstæður kalli á að aukningin verði að miklu leyti á Suðurlandi og þar verði 30 þúsund tonna uppskera árið 2033 af þeim 48.500 tonnum sem gert er ráð fyrir að verði í heildina. Einnig er gert ráð fyrir mikilli hlutfallslegri aukningu á Vesturlandi.

Þetta er meðal þeirra atriða sem koma fram í aðgerðaáætlun í 30 liðum um að efla kornrækt sem þrír sérfræðingar hjá Landbúnaðarháskóla Íslands hafa unnið fyrir matvælaráðuneytið. Sérfræðingarnir eru Helgi Eyleifur Þorvaldsson, Egill Gautason og Hrannar Smári Hilmarsson. Sérstaklega er fjallað um að koma á fót kornsamlagi sem tæki við korni frá bændum og seldi áfram til kaupenda en það er talin forsenda þess að uppbygging kornræktar geti hafist að nýju eftir langt stöðnunartímabil. Lagt er til að slíku kornsamlagi með þurrkun verði fyrst komið upp í Flóahreppi á Suðurlandi og heitt vatn notað til þurrkunar. Nær allir stórir kornkaupendur á Íslandi skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að kaupa korn af slíku fyrirtæki. Einnig er gerð tillaga um að ríkið greiði árlega 500 milljónir króna í kornræktarsjóð sem styðji ræktunina og fjárfestingu í þurrkstöðvum, geymslum og tækjabúnaði.

Kynbætur eru hafðar fremstar í forgangsröðun skýrsluhöfunda. Án innlendra kynbóta er talið ólíklegt að nægur árangur náist í gæðum og uppskeru á byggi, höfrum og sérstaklega hveiti. Kostnaður er áætlaður 120 milljónir króna á ári. Vakin er athygli á því að Landbúnaðarháskóla Íslands stendur til boða það sem sagt er einstakt tækifæri til að taka þátt í byltingarkenndu samstarfi við sænska fyrirtækið Lantmännen um kynbótastarf sem mikilvægt sé að fjármagna.

Framleiðslu- og fjárfestingarstuðningur er næstefst í forgangi og því fylgir að stofna kornsamlög og eftir atvikun byggja þurrkstöðvar. Talið er að núverandi þurrkstöðvar, sem flestar eru reknar af einstaka bændum, séu of litlar til að geta talist hagkvæmar. Sömuleiðis hafi kornið að mestu leyti verið flutt með dráttarvélum sem sé dýrt. Þreskivélar, dráttarvélar og þurrkarar hafi ekki verið nýttar nægilega vel til flutninga. Þess vegna sé mikilvægt að styðja bændur til að fjárfesta í hagkvæmum þurrkstöðvum, geymslum og kornflutningavögnum. Leggja höfundarnir mikla áherslu á að gætt sé stærðarhagkvæmni og fjárfest í stórri og stækkanlegri kornmóttöku sem geti annað 6 til 10 þúsund tonnum á ári.

Þriðja í forgangsröð þeirra er að gerðar verði aðgengilegar og ítarlegar leiðbeiningar um kornrækt við íslenskar aðstæður. Sömuleiðis að efla skjólbeltarækt. Sérstakur kafli er um uppskerutryggingar sem bændur hafa mikið kallað eftir. Þær myndu gera kornrækt öruggari fyrir bændur. Nefnt er að rætt verði við tryggingafélögin en jafnframt að gefa Bjargráðasjóði kost á að koma til sögunnar og bæta tjón sem ekki verður hægt að tryggja. Síðast í forgangsröðinni eru varnir gegn ágangi fugla. Álftir og gæsir valda miklu tjóni í kornrækt en talið er að áreiðanleg gögn skorti til þess að hægt sé að veita tímabundnar og skilyrtar undanþágur til að veiða fugla á kornökrum.

Pólitískur vilji fylgir

Margar skýrslur hafa verið skrifaðar um að efla kornrækt en lítið orðið úr aðgerðum. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sagði á kynningarfundi í gær að aðgerðaáætlun þessi bæri þó af vegna þess hversu ítarleg hún er. Tillögurnar séu mikilvægt innlegg í umræðuna og þær verði skoðaðar í ráðuneytingu, meðal annars við vinnu við fjármálaáætlun. Hún segist finna að raunverulegur pólitískur vilji sé nú til þess að fylgja þessu máli eftir og ítrekar sinn vilja til þess að efla kornrækt í landinu.

Eitt af markmiðum vinnunnar var að skilgreina þörfina fyrir lágmarksbirgðir af kornvöru í landinu. Lagt er til að gerðar verði kröfur um sex mánaða veltulager neyðarbirgða af sojamjöli, maís, fóðurhveiti og hveiti til manneldis og þriggja mánaða lager af ýmsum aukaefnum til fóðurgerðar, auk varalagers af sáðvöru.

Höf.: Helgi Bjarnason