Guðbjörg segir einkaleyfaumsóknir vera einn af stærstu þröskuldunum sem ung hugverkamiðuð fyrirtæki þurfa að yfirstíga.
Guðbjörg segir einkaleyfaumsóknir vera einn af stærstu þröskuldunum sem ung hugverkamiðuð fyrirtæki þurfa að yfirstíga. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Miklar vonir eru bundnar við starfsemi íslenska tæknisprotans Atmoniu en félagið hefur þróað aðferð til að framleiða ammóníak með mjög umhverfisvænum hætti. Notar Atmonia rafgreiningu þar sem sérstakir efnahvatar verða til þess að nitur úr…

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Miklar vonir eru bundnar við starfsemi íslenska tæknisprotans Atmoniu en félagið hefur þróað aðferð til að framleiða ammóníak með mjög umhverfisvænum hætti. Notar Atmonia rafgreiningu þar sem sérstakir efnahvatar verða til þess að nitur úr andrúmsloftinu binst við vetnið sem rafgreiningin framkallar, en þessi aðferð byggist á rannsóknum Egils Skúlasonar, prófessors við HÍ.

Hefur aðferð Atmoniu þann kost að hún losar engan koltvísýring ef notaður er grænn orkugjafi. Til samanburðar byggist hefðbundin ammóníaksframleiðsla á notkun jarðgass eða kola og býr til 2,2 tonn af koltvísýringi fyrir hvert tonn af ammoníaki.

Tilkynnti Atmonia nýverið um stóran samning við sádíarabíska efnaframleiðandann SABIC, dótturfélag Saudi Aramco en samningurinn veitir SABIC einkarétt á notkun Atmoniu-tækninnar í fjórum löndum við Persaflóa. Er stefnt að því að fyrsta verksmiðjan hefji starfsemi eftir fimm til sex ár.

Markar nýtt skeið í framleiðslu ammóníaks

Guðbjörg Rist Jónsdóttir er framkvæmdastjóri Atmoniu. Hún segir stefnt að því að innan 10 til 15 ára verði Atmonia orðið þekkt nafn á alþjóðlegum ammóníaksmarkaði og framleiðsla með aðferð fyrirtækisins orðin um eða yfir milljón tonn af ammóníaki árlega. „Allur heimurinn er undir og hægt að nýta okkar tækni alls staðar þar sem aðgangur er að raforku og vatni,“ segir Guðbjörg en hún var í hópi frummælenda á Iðnþingi í ár.

Hefur lausn Atmonia líka þann kost fram yfir hefðbundna ammóníaksframleiðslu að tæknin hentar til að framleiða ammóníak á smærri skala, á afskekktum eða fámennum svæðum þar sem ekki væru forsendur fyrir að starfrækja hefðbundna ammóníaksverksmiðju. „Við eygjum ekki hvað síst tækifæri hjá eyríkjum og svokölluðum orkueyjum þar sem verður til raforka sem ekki er hagkvæmt að tengja við stærra dreifikerfi, og eins svæði þar sem reist hafa verið vind- og sólarorkuver, sveiflur eru í orkuframleiðslunni og heppilegt er að nota umframorku í kerfinu til að framleiða ammóníak.“

Bendir Guðbjörg á að það sé þekktur vandi að vind- og sólarorkuver framleiði mismikla orku í takt við birtuskilyrði og vindstyrk. Sums staðar hefur verið reynt að jafna orkuframboðið með því að nýta orkutoppana til að hlaða rafhlöður. „En það hefur reynst æði dýrt og mikil tækifæri fólgin í því að nota orkuna frekar til að framleiða ammóníak,“ útskýrir hún en um 80% af því ammóníaki sem framleitt er á heimsvísu er notað sem hráefni í tilbúinn áburð og ljóst að eftirspurnin eftir ammóníaki fer vaxandi. „Með staðbundinni raforku- og ammóníaksframleiðslu má skapa grundvöll fyrir framleiðslu áburðar á svæðum sem í dag eru ekki vel tengd við flutningaleiðir og grunar okkur að lausnir Atmoniu geti orðið lyftistöng fyrir landbúnað hjá sumum fátækari eyríkjum og á svæðum í Afríku sunnan Sahara.“

Haldið vel utan um hugverkin

Velgengni Atmoniu er lýsandi dæmi um þau verðmæti sem skapa má með hugviti og vísindalegri þekkingu og fellur vel að þema Iðnþings í ár; tækifæri til vaxtar í öflugum iðnaði. Lagði þingið m.a. áherslu á hlutverk hugverkadrifinnar nýsköpunar og hvernig búa má þannig um hnútana að fyrirtæki líkt og Atmonia verði til og blómstri.

Guðbjörg segir það þekkt vandamál að alls kyns rannsóknastarf og uppgötvanir í íslensku vísinda- og háskólastarfi endi ofan í skúffu frekar en að atvinnulífið hagnýti sér þessa þekkingu. „Það verður líka að hafa í huga að það blasir ekki endilega alltaf við hvar uppgötvanirnar geta gert gagn, eða hvernig mætti koma þeim á markað,“ útskýrir hún og bendir á að þeir sem stundi frumrannsóknirnar séu ekki endilega þeir sem koma auga á bestu markaðstækifærin.

Á undanförnum árum hafa verið stigin stór skref til að virkja hugvitið betur og fanga uppgötvanir fræðasamfélagsins. Nefnir Guðbjörg í því sambandi Auðnu Tæknitorg en þar hafa stjórnvöld, háskólarnir og fulltrúar atvinnulífsins snúið bökum saman til að bæði tryggja vernd hugverka, s.s. með einkaleyfisumsóknum, og tengja rétta fólkið og fyrirtækin saman til að breyta uppgötvunum í nýjar vörur. „Standa þarf vel að þessu starfi og þarf m.a. að gæta að því að það getur verið óheppilegt ef háskólarnir fara að missa frá sér prófessorana sína því að þeir fara út í fyrirtækjarekstur í kringum uppfinningar sínar. Farsælla getur verið að tengja vísindafólkið við fólk með reynslu og þekkingu á rekstri og markaðsmálum og búa þannig til keðju milli rannsókna og fyrirtækjanna í landinu.“

Minnir Guðbjörg á að einn stærsti þröskuldurinn á fyrstu stigum sé sá kostnaður og vinna sem fylgir einkaleyfaumsóknum. Þar hafa háskólarnir verið að taka sig á og nýir styrkir í boði gagngert til að koma til móts við þau fjárútlát sem því fylgir að fá einkaleyfi. „Kostnaðurinn getur verið mjög breytilegur eftir því hvar sótt er um einkaleyfi og hversu flókin umsóknin er. Í sumum löndum er ferlið tiltölulega einfalt og getur kostað nokkur hundruð þúsund krónur, en í öðrum löndum hleypur kostnaðurinn á milljónum og kallar á flókna og kostnaðarsama skjalavinnu. Á það t.d. við þegar sótt er um einkaleyfi á Japansmarkaði að öll skjöl þarf að þýða yfir á japönsku,“ útskýrir Guðbjörg. „Einkaleyfi og eigendaréttur þurfa að liggja fyrir áður en hægt er að taka næstu skref, og þetta mættu opinberir sjóðir gjarnan styrkja enn frekar.“

Þessu tengt segir Guðbjörg vert að skoða hvort skerpa þurfi á reglum um endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar og létta sprotum og hugvitsfólki róðurinn í því langa ferli sem oft er frá því að hugmynd kviknar og þar til tekist hefur að sanna virkni þeirra á rannsóknarstofu: „Á það við um lausn Atmoniu að hún byggist upphaflega á tölvuútreikningum sem síðan þurfti að sannreyna með tilraunum sem tókst að gera í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Það getur tekið langan tíma að sanna gildi hugmyndar og þá fyrst er grundvöllur til að stofna fyrirtæki.“

Tækifæri skapaðist

Varð það Atmoniu til happs að kórónuveirufaraldurinn hristi upp í hinu alþjóðlega nýsköpunarsamfélagi og gerði félaginu kleift að taka þátt í bandarískum kynningarviðburði þar sem fyrirtækjum og fólki úr vísindaheiminum gafst kostur á að leiða hesta sína saman:

„Um er að ræða nokkurs konar hraðal og tengslamyndunarverkefni sem haldið hefur verið í Bandaríkjunum ár hvert, og hefur útheimt að þátttakendur séu á staðnum í átta vikur eða þar um bil. Var það of stórt biti fyrir okkur að kyngja að þurfa að flytja til Bandaríkjanna í tvo mánuði, upp á von og óvon, en í kórónuveirufaraldrinum var fyrirkomulaginu breytt og viðburðurinn færður yfir á netið. Þar gátum við kynnt tækni okkar fyrir fjölda fyrirtækja og þeirra á meðal var SABIC.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson