Haukar elta áfram topplið Keflavíkur og Vals eftir sigur á Grindavík á útivelli í gærkvöld í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, 82:75. Keira Robinson skoraði 22 stig fyrir Hauka, tók 12 fráköst og átti 9 stoðsendingar og var því hársbreidd frá þrefaldri tvennu

Haukar elta áfram topplið Keflavíkur og Vals eftir sigur á Grindavík á útivelli í gærkvöld í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, 82:75.

Keira Robinson skoraði 22 stig fyrir Hauka, tók 12 fráköst og átti 9 stoðsendingar og var því hársbreidd frá þrefaldri tvennu. Sólrún Inga Gísladóttir skoraði 21 stig. Hulda Björk Ólafsdóttir skoraði 18 stig fyrir Grindavík.

Fjölnir vann mjög öruggan sigur á Breiðabliki í Grafarvogi, 90:72. Þar með er endanlega ljóst að Blikar enda í sjöunda sætinu og Fjölnir verður nær örugglega í því sjötta.

Heiður Karlsdóttir skoraði 16 stig fyrir Fjölni og tók 12 fráköst. Brittany Dinkins og Urté Slavickaite skoruðu 15 stig hvor og Dinkins tók 10 fráköst. Simone Sill skoraði 14.

Rósa Björk Pétursdóttir skoraði 24 stig fyrir Breiðablik og tók 13 fráköst og Birgit Ósk Snorradóttir var með 13 stig og 12 fráköst.

Njarðvík sendi ÍR endanlega niður í 1. deild með öruggum sigri í Ljónagryfjunni, 79:43. Njarðvík mun enda í fjórða sætinu.

Erna Hákonardóttir skoraði 15 stig fyrir Njarðvík, Aliyah Colliere og Lavinia Joao Gomes 12 hvor en Sólrún Sæmundsdóttir skoraði 15 fyrir ÍR.

Toppslagur Keflavíkur og Vals var enn í gangi þegar blaðið fór í prentun í gærkvöld. Sjá mbl.is/sport.