Spilatími Tónarnir eru tólf og undir leiðsögn kennara er leikur að læra.
Spilatími Tónarnir eru tólf og undir leiðsögn kennara er leikur að læra. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Harpan mun óma og fram undan er viðburður sem öll fjölskyldan ætti að sækja,“ segir Sigrún Grendal, formaður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum. Félagið kemur að undirbúningi og skipulagningu uppskeruhátíðarinnar Nótunnar…

„Harpan mun óma og fram undan er viðburður sem öll fjölskyldan ætti að sækja,“ segir Sigrún Grendal, formaður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum. Félagið kemur að undirbúningi og skipulagningu uppskeruhátíðarinnar Nótunnar 2023, auk Samtaka tónlistarskólastjóra, sem haldin verður í Hörpu næstkomandi sunnudag, 19. mars. Hátíðin stendur milli kl. 11:00 og 17:15, en þar verða flutt margvísleg tónlistaratriði með ýmsum tilbrigðum. Dagskráin er öllum opin og enginn aðgangseyrir.

Hátt ber á Nótunni nú að þar verða vinnusmiðjur undir stjórn Sigrúnar Sævarsdóttur-Griffiths. Kraftar ungs tónlistarfólks verða sameinaðir og í dagslok verður útkoman kynnt; verkið Óður til tónlistar. Flutningur þess verður á lokatónleikum Nótunnar í Eldborgarsal sem hefjast kl. 16:30.

Allan daginn verða í Hörpu tónlistarhópar, litlir sem stórir, og samspils- og hljómsveitaratriði verða flutt. Dagskrá Nótunnar spannar annars fjölbreytt svið og þar verða flutt verk eftir Mozart, Freddie Mercury, Bach, Eurythmics, Rihönnu, Lully, James Brown, Bartok sem og frumsamin verk. Einleiksatriði verða flutt í Hörpuhorni þar sem konsertar ráða ríkjum og Oliver Kentish, stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna, býður heppnum nemendum að koma fram með hljómsveitinni næsta vetur.

„Nótan er hátíð sem við höfum haldið frá árinu 2010 og það er svo sannarlega gaman að geta hist aftur í Hörpu núna, en í faraldrinum var hátíðin haldin á netinu eitt árið,“ segir Sigrún Grendal. Hún hefur verið formaður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum í um tuttugu ár, en píanóið er hennar hljóðfæri.

„Staða tónlistarkennslu á landinu er um margt góð. Hún þarf þó verðugri sess, og þar fer fremst að sett verði lög um starfsemi tónlistarskóla á Alþingi, um þetta mikilvæga starf. Tónlistin er sameiginleg auðlind okkar allra,“ segir Sigrún Grendal að síðustu.