Síðastliðna helgi gerði ég mikil kostakaup og kom heim með glænýjan flatskjá. Eftir að hafa fengið senda mynd af nýja stofustássinu skrifaði vinkona mín mér um hæl: „Vá, þetta er stórt!” Og bætti síðan við að hún ætti ekki við stærðina á sjónvarpinu heldur væri þetta stór lífsviðburður

Ragnheiður Birgisdóttir

Síðastliðna helgi gerði ég mikil kostakaup og kom heim með glænýjan flatskjá. Eftir að hafa fengið senda mynd af nýja stofustássinu skrifaði vinkona mín mér um hæl: „Vá, þetta er stórt!” Og bætti síðan við að hún ætti ekki við stærðina á sjónvarpinu heldur væri þetta stór lífsviðburður. Það að kaupa sjónvarp þykir líklega ekki sérlega markvert á flestum íslenskum heimilum, kannski aðeins skemmtilegra en að kaupa nýja ryksugu en ekki lífsviðburður af stærri gerðinni.

Það er það hins vegar í mínu lífi því ég ólst upp á sjónvarpslausu heimili. Þetta vita flestir sem þekkja mig enda þreytist ég ekki á að rekja þær raunir sem því fylgdu; að koma heim af leikskólanum og spyrja foreldrana hvað í ósköpunum þetta „starvos“ væri eða skammast sín niður í tær þegar allir í bekknum skildu orðið „spider“ í enskutíma nema ég sem hafði aldrei heyrt minnst á Spider-man, hann þekkti ég bara sem Kóngulóarmanninn úr teiknimyndasögunum í Morgunblaðinu. Kann ég þó foreldrum mínum miklar þakkir fyrir bóklestur æskunnar sem kom í staðinn fyrir sjónvarpsgláp og hefur svo sannarlega sett mark sitt á líf mitt. En núna ætla ég að gera tilraun með hinn ógurlega tímaþjóf á heimilinu og krossa bara fingur.

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir