Átök Sunna Jónsdóttir reynir að komast í gegnum þétta vörn Selfyssinga í fyrri hálfleiknum í Suðurlandsslagnum í gærkvöld.
Átök Sunna Jónsdóttir reynir að komast í gegnum þétta vörn Selfyssinga í fyrri hálfleiknum í Suðurlandsslagnum í gærkvöld. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valskonur geta orðið bikarmeistarar annað árið í röð en þær leika til úrslita á laugardaginn eftir að hafa unnið öruggan sigur á Haukum í undanúrslitunum í Laugardalshöllinni í gærkvöld, 28:19. Þar freista þær þess að vinna sinn níunda…

Handboltinn

Víðir Sigurðsson

Aron Elvar Finnsson

Valskonur geta orðið bikarmeistarar annað árið í röð en þær leika til úrslita á laugardaginn eftir að hafa unnið öruggan sigur á Haukum í undanúrslitunum í Laugardalshöllinni í gærkvöld, 28:19.

Þar freista þær þess að vinna sinn níunda bikarmeistaratitil í sögunni og þann þriðja á fimm árum eftir að hafa unnið hann einnig árið 2019.

Ekki lá fyrir þegar blaðið fór í prentun hvort það yrði ÍBV eða Selfoss sem yrði andstæðingur Valskvenna í úrslitaleiknum á laugardaginn en hann hefst klukkan 13.30. Staðan í hálfleik í Suðurlandsslagnum var 16:11, Eyjakonum í vil, en allt annað en sigur þeirra kæmi á óvart.

Valskonur náðu undirtökunum gegn Fjölni með góðum kafla seinni hluta fyrri hálfleiks þegar þær komust í 13:7 en staðan var 16:9 í hálfleik. Sigur Hlíðarendaliðsins var aldrei í hættu eftir það og þær komust mest tíu mörkum yfir í síðari hálfleiknum.

Thea Imani Sturludóttir var markahæst í liði Vals í leiknum með sjö mörk og Mariam Eradze kom næst með fjögur. Þá varði Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir sjö skot í markinu. Elín Klara Þorkelsdóttir var langbesti leikmaður Hauka í leiknum en hún skoraði níu mörk.

Forföll skiptu ekki máli

Valur lék án bæði Morgan Marie Þorkelsdóttur og Söru Sifjar Helgadóttur markvarðar en það virtist ekki hafa mikil áhrif.

„Við bara þjöppum okkur saman. Við erum með breiðan og góðan hóp, bæði eldri og reyndari stelpur en líka yngri stelpur sem eru að spila í þriðja flokki og fleira. Það er mikil breidd í okkar hóp og kvennaboltinn í Val blómstrar. Við erum með fimmta, fjórða, þriðja og meistaraflokk í bikarúrslitum svo starfið er frábært og við erum mjög stolt af þessu,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals við Morgunblaðið.

Díana Guðjónsdóttir þjálfari Hauka var mjög ósátt við sitt lið.

„Þær eru búnar að spila þennan varnarleik allt tímabilið og á meðan ég er með leikmenn sem þora ekki að skjóta á markið þá spila þær flata 6-0 vörn og gera það vel. En við verðum náttúrulega að þora að skjóta,“ sagði Díana eftir leikinn.

Höf.: Víðir Sigurðsson