Ísland stendur frammi fyrir miklum vanda verði ekki gripið hratt inn í

Ísland býr að mikilli hreinni orku og hefur borið gæfu til að nýta hana vel og lengi. Snemma var byrjað að nýta jarðhita og virkja fallvötn og á hvort tveggja ríkan þátt í þeirri hagsæld sem hér er. Í seinni tíð hefur orðið mikil tregða í þessum efnum til tjóns fyrir landsmenn. Í ársskýrslu Samtaka iðnaðarins, sem gefin var út í tengslum við nýafstaðið Iðnþing, kemur fram að um þessar mundir verði „þjóðarbúið af miklum útflutningstekjum vegna þess að það er ekki næg raforka til að skapa verðmæti í fjölbreyttum iðnaði. Auk þess er flutnings- og dreifikerfi raforku úr sér gengið að hluta til sem leiðir til óásættanlegrar sóunar verðmæta.“

Í skýrslunni var hvatt til tafarlausra aðgerða og sömu sjónarmið komu fram í máli formanns Samtaka iðnaðarins í Dagmálum í gær, þar sem hann sagði mikilvægt að stíga nú þegar raunveruleg skref til aukinnar orkuöflunar í landinu.

Á ársfundi Landsvirkjunar á dögunum voru umræður á sömu nótum. Þar kom fram í máli stjórnarformannsins að orkan sem fyrirtækið hefði að bjóða væri uppseld og að fyrirtækið hefði þurft að hafna mörgum áhugaverðum kostum í orkusölu. Stjórnarformaðurinn sagði blikur á lofti í orkumálum þjóðarinnar og benti á að virkjun byrjaði að jafnaði ekki að skila tekjum fyrr en 15-20 árum eftir að framkvæmdir við hana hæfust. Þess vegna þyrfti að grípa til aðgerða strax og hvatti hann stjórnmálamenn til að ná þverpólitískri samstöðu, hugsa til framtíðar og hafa hag þjóðarinnar að leiðarljósi.

Ekkert í skilaboðum Samtaka iðnaðarins og Landsvirkjunar er ofmælt og hefur ítrekað verið bent á það hér að í óefni stefni í orkumálum þjóðarinnar, jafn sérkennilega og það kann að hljóma í svo orkuríku landi. Ítrekaðar fréttir um að innlend orka dugi ekki fyrir þeirri framleiðslu sem þegar er í landinu, svo sem í tengslum við loðnuvinnslu, eða að orkuöryggi heimilanna sé ógnað, segir allt sem segja þarf um hve brýnt er að stjórnvöld og Alþingi grípi til þeirra ráða sem duga í þessum efnum. Ísland hefur allar forsendur til að vera áfram til fyrirmyndar í orkumálum en sú staða hverfur hratt ef hver einasta línulagning og allar virkjanaframkvæmdir sitja fastar árum saman í flóknu regluverki og kæruferli. Á því þarf að taka, bæði til að auka tekjur þjóðarbúsins og tryggja orkuöryggi almennings.