Keflavík Flugfélögum og skipafélögum er nú kleift að flokka hreint endurvinnsluefni sem fellur til um borð.
Keflavík Flugfélögum og skipafélögum er nú kleift að flokka hreint endurvinnsluefni sem fellur til um borð. — Morgunblaðið/Eggert
Hörður Vilberg hordur@mbl.is Icelandair hefur hafið flokkun á sorpi um borð í flugvélum sínum í millilandaflugi. Félagið hefur, í samstarfi við yfirvöld og stofnanir á Íslandi, um árabil hvatt til þess að reglugerðum verði breytt.

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Icelandair hefur hafið flokkun á sorpi um borð í flugvélum sínum í millilandaflugi. Félagið hefur, í samstarfi við yfirvöld og stofnanir á Íslandi, um árabil hvatt til þess að reglugerðum verði breytt.

Í samvinnu við Umhverfisstofnun og Matvælastofnun er nú búið að útfæra nýjar leiðbeiningar sem gera flugfélögum og skipafélögum kleift að flokka hreint endurvinnsluefni, þ.e. plast, pappír og áldósir sem fellur til við ferðalög milli landa. Áætlað er að magnið sem fer í endurvinnsluhringrás í stað sorpbrennslu sé um 100 tonn árið 2023 og er því til mikils að vinna, segir Heiða Njóla Guðbrandsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair.

Hún segir að í stefnu Icelandair sé lögð rík áhersla á sjálfbærni og ein af lykiláherslum félagsins á því sviði felist í að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið. „Félagið hefur sett sér metnaðarfull markmið og er flokkun um borð einungis eitt af þeim fjölmörgu verkefnum sem unnið er að,“ segir hún.

Áhugi hjá starfsfólki

Það er ekki einfalt að flokka sorp í flugvélum enda plássið um borð takmarkað en viljinn til breytinga var ríkur hjá öllum þeim sem að borðinu komu. Heiða Njóla segir starfsfólk Icelandair mjög ánægt með að hafa loksins náð þessum áfanga.

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga frá starfsfólki okkar og viðskiptavinum. Við höfum um langt skeið unnið að því að fá reglugerðum breytt til þess að taka þetta mikilvæga skref í takt við áherslur okkar í umhverfismálum.“

Ávinningurinn er ekki metinn í krónum og aurum heldur er markmiðið að stækka hringrásarhagkerfið.

Í raun átti Icelandair frumkvæðið að þessari breytingu og um töluverð tímamót er að ræða. Fyrirtækið hyggst ekki láta þar staðar numið.

„Það er ánægjulegt að segja frá því að við erum nú komin í samráðshóp á vegum alþjóðasamtaka flugfélaga um hvernig hægt er að einfalda alþjóðlegt regluverk til þess að hægt sé að auka endurvinnslu enn frekar um borð í flugvélum,“ segir Heiða Njála.

Það er þó ekki alltaf einfalt því til að mynda er ekki leyfilegt að endurvinna sorp sem hefur komist í snertingu við dýraafurðir svo eitthvað sé nefnt.

Höf.: Hörður Vilberg