Jónas Oddur Jónasson fæddist 1. mars 1974. Hann lést 13. febrúar 2023.

Útför fór fram frá 8. mars 2023.

Elsku Jónas minn, elsku bróðir. Mikið er sárt og erfitt að kveðja þig. Ég var alltaf viðbúin að þetta gæti farið svona en svo um leið hélt maður í vonina um að þú myndir ná bata og losna úr viðjum þessa hræðilega sjúkdóms. Guð veit að þú reyndir og þráðir ekkert heitar. Núna hefurðu loksins fengið frið. Ég hugga mig við það sem og allar þær góðu minningar sem við náðum að skapa saman þrátt fyrir allt.

Síðastliðið ár áttum við margar dýrmætar stundir saman bæði á Íslandi og í París. Þú varst viðstaddur brúðkaup okkar Walids síðastliðið sumar og svo hjálpaðir þú okkur að standsetja íbúðina okkar í Argenteuil. Mér þykir svo vænt um að geta hugsað til baka til þess tíma sem var einstaklega góður og innilegur. Það var svo bjart og létt yfir þér, en þannig vil ég muna þig. Þú varst manninum mínum yndislegur og tókst honum opnum örmum, fordómalaus eins og þú varst með þínu stóra hjarta. Þú kallaðir hann bróður og öll fjölskyldan hans Walids, þrátt fyrir stutt kynni, var harmi slegin að heyra að þú værir fallinn frá. En þannig varstu, Jónas minn. Þú hafðir hjarta úr gulli og fólk laðaðist þér. Þú varst virkilega fyndinn, sýndir fólki mikinn áhuga og gast talað við alla. Enda varstu alla tíð afar vinsæll og áttir fjölda vina og kunningja úr öllum áttum. Þú varst afskaplega duglegur við að rækta sambandið við fólkið þitt, bæði vini og fjölskyldu. Börnin mín eru vottur um það. Þau dýrkuðu „onkel“ Jónas og að segja þeim frá andláti þínu er með því erfiðara sem ég hef þurft að gera. Það er þungbært að hugsa til þess að þú munir aldrei ná að hitta ófædda dóttur okkar Walids sem þú hlakkaðir mikið til að kæmi í heiminn. Hún mun fá að kynnast þér í gegnum okkur sem eftir lifum og stóðum þér næst.

Ég mun sakna þéttu faðmlaganna, hlátursins og að geta leitað til þín bæði þegar vel og illa gengur. Þú varst ávallt til staðar fyrir mig og mína ef þú hafðir tök á og heilsu til. Takk fyrir allt, elsku Jónas minn. Þú verður alltaf í hjarta mér, ég elska þig.

Þín systir,

Herborg Drífa.