Útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra hefur verið samþykkt. Greidd voru atkvæði um frumvarpið á Alþingi í gærkvöldi. Alls greiddu 38 atkvæði með frumvarpinu, en 15 greiddu atkvæði gegn því. Um var að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga nr

Útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra hefur verið samþykkt. Greidd voru atkvæði um frumvarpið á Alþingi í gærkvöldi.

Alls greiddu 38 atkvæði með frumvarpinu, en 15 greiddu atkvæði gegn því. Um var að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga nr. 8 frá árinu /2016.

Frumvarpið umdeilda hefur verið mikið rætt á þingi síðan það var lagt fyrir á síðasta ári. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði á þingi í gær að það væru tímamót að málinu væri að ljúka.

Hann hefur áður sagt það vonbrigði að málið hafi tafist og að frumvarpið sé viðbragð við því ástandi sem er uppi um þessar mundir þegar kemur að flóttafólki og innflytjendamálum.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sagði málið aftur á móti innsigla þá afstöðu sína að ríkisstjórnin væri fjandsamleg flóttafólki.

Neikvæðar umsagnir frá mannréttindasamtökum

Þingmenn úr stjórnarandstöðu lögðu fram fjölmargar breytingartillögur á frumvarpinu en meirihluti þingmanna felldi þó flestar tillögurnar jafnóðum.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gagnrýnt útlendingafrumvarpið harðlega og vakið athygli á neikvæðum umsögnum um það frá mannréttindasamtökum á borð við Amnesty International, Rauða krossinn og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands.