Heitur Hinn 19 ára gamli Hákon Arnar Haraldsson frá Akranesi hefur verið í stóru hlutverki hjá danska liðinu København í vetur.
Heitur Hinn 19 ára gamli Hákon Arnar Haraldsson frá Akranesi hefur verið í stóru hlutverki hjá danska liðinu København í vetur. — AFP/Bo Amstrup
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flestir af landsliðsmönnum Íslands í fótbolta sem Arnar Þór Viðarsson valdi í hóp sinn í gær eru í ágætu leikformi og hafa spilað mikið með sínum félagsliðum undanfarnar vikur og mánuði. Tveir af þeim sem hafa leikið mest með landsliðinu síðustu eitt til tvö árin eru þó ekki í góðri leikæfingu

EM 2024

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Flestir af landsliðsmönnum Íslands í fótbolta sem Arnar Þór Viðarsson valdi í hóp sinn í gær eru í ágætu leikformi og hafa spilað mikið með sínum félagsliðum undanfarnar vikur og mánuði.

Tveir af þeim sem hafa leikið mest með landsliðinu síðustu eitt til tvö árin eru þó ekki í góðri leikæfingu. Þórir Jóhann Helgason hefur mjög lítið komið við sögu með Lecce í ítölsku A-deildinni síðan í október og Ísak Bergmann Jóhannesson hefur þurft að verma varamannabekkinn hjá København í Danmörku síðustu mánuðina.

Þá hefur miðjumaðurinn Aron Elís Þrándarson lítið verið í byrjunarliði danska liðsins OB og markvörðurinn Elías Rafn Ólafsson hefur ekki spilað deildarleik með Midtjylland síðan í haust.

Þeir sem spila í Svíþjóð og Noregi hafa aðeins leikið bikarleiki og æfingaleiki það sem af er þessu ári. Arnór Sigurðsson, Arnór Ingvi Traustason, Andri Lucas Guðjohnsen, Davíð Kristján Ólafsson og Patrik Sigurður Gunnarsson eru í þeirri stöðu, og þá er tímabilið nýhafið hjá Guðlaugi Victori Pálssyni í Bandaríkjunum.

Birkir Bjarnason er ekki í hópnum og missir af leik í undankeppni eða lokakeppni EM í fyrsta sinn í tólf ár en hann hefur lítið spilað með Adana Demirspor í Tyrklandi að undanförnu og Arnar Þór sagði í gær að vegna stöðu hans hjá félaginu hefðu þeir verið sammála um að Birkir yrði ekki með í þessum leikjum.

Arnar hefur greinilega ekki náð sáttum við Albert Guðmundsson þó þeir hafi ræðst við á dögunum og sagði í tilkynningu frá KSÍ að það væru vonbrigði að hann væri ekki tilbúinn til að koma inn í hópinn á forsendum liðsins. Albert hefur ekki leikið með landsliðinu frá því í júní 2022 af þessum sökum.

Sveinn Aron Guðjohnsen er ekki í hópnum en hann hefur spilað mikið með liðinu undanfarin misseri. Hann er þó til taks ef forföll verða, eins og þeir Hjörtur Hermannsson, Guðmundur Þórarinsson, Dagur Dan Þórhallsson og Nökkvi Þeyr Þórisson.

Hópurinn sem Arnar valdi í gær er þannig skipaður og svona er staðan hjá hverjum og einum leikmanni í hópnum um þessar mundir.

Markverðir:

Rúnar Alex Rúnarsson, Alanyaspor, Tyrklandi.

20 landsleikir. Hefur varið mark Alanyaspor í öllum 22 leikjum liðsins í tyrknesku úrvalsdeildinni síðan hann kom þangað í ágúst.

Elías Rafn Ólafsson, Midtjylland, Danmörku.

4 landsleikir. Hefur setið á varamannabekk Midtjylland síðan í september.

Patrik Sigurður Gunnarsson, Viking, Danmörku.

3 landsleikir. Lék fyrsta mótsleik ársins um síðustu helgi og varði mark Íslands gegn Eistlandi í janúar.

Varnarmenn:

Aron Einar Gunnarsson, Al-Arabi, Katar.

100 landsleikir, 2 mörk. Hefur spilað alla 16 deildarleiki Al-Arabi á tímabilinu og skorað eitt mark.

Hörður Björgvin Magnússon, Panathinaikos, Grikklandi.

44 landsleikir, 2 mörk. Fastamaður í vörn Panathinaikos í vetur og hefur spilað 15 deildarleiki og skorað eitt mark en missti úr sjö leiki í janúar og febrúar vegna meiðsla.

Sverrir Ingi Ingason, PAOK, Grikklandi.

40 landsleikir, 3 mörk. Fastamaður í vörn PAOK, hefur spilað 24 deildarleiki af 26 í vetur og skorað 2 mörk og verið fyrirliði í mörgum leikjanna.

Guðlaugur Victor Pálsson, DC United, Bandaríkjunum.

32 landsleikir, 1 mark. Hefur spilað tvo af þremur leikjum DC á nýbyrjuðu tímabili í MLS-deildinni. Var fyrirliði þegar Ísland mætti Eistlandi í janúar.

Alfons Sampsted, Twente, Hollandi.

14 landsleikir. Kom til Twente frá Bodø/Glimt um áramót og hefur spilað níu af 11 leikjum liðsins frá þeim tíma.

Davíð Kristján Ólafsson, Kalmar, Svíþjóð.

13 landsleikir. Lék alla fjóra bikarleiki Kalmar í febrúar og mars og báða landsleiki Íslands í janúar.

Daníel Leó Grétarsson, Slask Wrocław, Póllandi.

12 landsleikir. Fastamaður í vörn Slask í vetur og hefur spilað 21 af 24 leikjum í pólsku deildinni og skorað eitt mark.

Miðjumenn:

Jóhann Berg Guðmundsson, Burnley, Englandi.

82 landsleikir og 8 mörk. Hefur spilað 28 af 36 leikjum Burnley í B-deildinni í vetur og skorað 2 mörk. Missti af fyrstu fimm umferðunum vegna meiðsla.

Arnór Ingvi Traustason, Norrköping, Svíþjóð.

45 landsleikir og 5 mörk. Lék alla fjóra bikarleiki Norrköping í febrúar og mars og skoraði tvö mörk. Spilaði með landsliðinu gegn Eistlandi í janúar.

Ísak B. Jóhannesson, København, Danmörku.

17 landsleikir og 3 mörk. Hefur ekki verið í byrjunarliði København síðan í október en hefur spilað 16 af 21 deildarleik liðsins og skorað eitt mark.

Aron Elís Þrándarson, OB, Danmörku.

17 landsleikir og eitt mark. Hefur ekki verið í byrjunarliði OB síðan í september en hefur spilað 17 af 21 deildarleik liðsins og skorað eitt mark.

Þórir Jóhann Helgason, Lecce, Ítalíu.

16 landsleikir og 2 mörk. Hefur aðeins spilað í 10 mínútur í tveimur leikjum í A-deildinni síðan í október. Með í 8 leikjum af 26 í deildinni á tímabilinu, einu sinni í byrjunarliðinu.

Stefán Teitur Þórðarson, Silkeborg, Danmörku.

15 landsleikir og eitt mark. Fastamaður á miðju liðsins, hefur spilað 20 leiki af 21 á tímabilinu og skorað eitt mark.

Hákon Arnar Haraldsson, København, Danmörku.

7 landsleikir. Fastamaður í danska liðinu, hefur spilað 20 leiki af 21 á tímabilinu og skorað 3 mörk, tvö þeirra í síðustu tveimur leikjum. Skoraði gegn Dortmund í Meistaradeildinni í vetur.

Sóknarmenn:

Alfreð Finnbogason, Lyngby, Danmörku.

63 landsleikir og 15 mörk. Hefur leikið alla fjóra leiki Lyngby eftir áramót og skorað tvö mörk og alls spilað níu leiki frá því hann kom til liðsins í september.

Arnór Sigurðsson, Norrköping, Svíþjóð.

25 landsleikir og 2 mörk. Lék alla fjóra bikarleiki Norrköping í febrúar og mars og skoraði þrjú mörk.

Jón Dagur Þorsteinsson, OH Leuven, Belgíu.

24 landsleikir og 4 mörk. Hefur spilað 26 af 29 leikjum Leuven í A-deildinni og skorað 8 mörk, þrjú þeirra í síðustu þremur leikjum.

Mikael Anderson, AGF, Danmörku.

18 landsleikir og 2 mörk. Hefur leikið 15 af 21 deildarleik AGF í vetur og skorað 2 mörk. Missti nokkra úr vegna meiðsla.

Andri Lucas Guðjohnsen, Norrköping, Svíþjóð.

13 landsleikir og 3 mörk. Lék alla fjóra bikarleiki Norrköping í febrúar og mars. Lék gegn Eistlandi í janúar og skoraði mark Íslands.

Mikael Egill Ellertsson, Venezia, Ítalíu.

10 landsleikir. Spilaði 11 leiki með Spezia í A-deildinni fyrir áramót og hefur leikið sjö síðustu leiki Venezia í B-deildinni eftir hann kom til liðsins í lok janúar.

Sævar Atli Magnússon, Lyngby, Danmörku.

2 landsleikir. Hefur spilað 18 af 21 leik Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni í vetur og skorað þrjú mörk, tvö þeirra í síðasta leik. Lék sína fyrstu landsleiki í janúar.

Höf.: Víðir Sigurðsson