Hróbjartur Jón Gunnlaugsson fæddist í Kópavogi 26. október 1947. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Móbergi 4. mars 2023.

Foreldrar Hróbjarts voru þau Jóhanna Bjarnheiður frá Mið-Grund, V-Eyjafjöllum, fædd 11. mars 1920, látin 20. nóvember 1954, og Gunnlaugur Sigurðsson frá Hruna í Vestmannaeyjum, fæddur 20. maí 1921, látinn 29. nóvember 1963. Systur Hróbjarts voru Margrét Þórey, fædd 19. apríl 1944, Sigríður Vigdís Clark, fædd 22. júní 1950, Pálína Guðbjörg fædd 18. júlí 1951, látin 29. janúar 1984, og Rannveig Hrefna, fædd 5. nóvember 1952.

Hróbjartur eyddi fyrstu árum ævi sinnar í Vestamannaeyjum. Við andlát móður sinnar þegar hann er sjö ára gamall fer hann til móðurforeldra sinna að Mið-Grund undir V-Eyjafjöllum þar sem hann elst upp. Þar gekk einnig móðursystir hans Sigríður Karólína honum í móðurstað ásamt sinni fjölskyldu. Uppeldissystkini Hróbjarts eru Þorgerður Jóna, Kristín Áslaug, Bára, Róbert Bragi, Jóhann Bergmann og Guðbjörg.

Hróbjartur var í sambúð með Særúnu Björnsdóttur, þau slitu samvistir. Börn Særúnar fyrir eru Gunnlaugur, Oddný og Garðar. Hróbjartur og Særún eignuðust saman eina dóttur sem er Guðlaug fædd 10. maí 1996, hún er í sambúð með Gunnari Inga Guðlaugssyni. Dætur þeirra eru Tanja Sjöfn, fædd 5. mars 2016, og Nadía Rós, fædd 5. febrúar 2021. Fyrir á Gunnar Ingi einn son.

Mestalla tíð vann Hróbjartur við sjómennsku. Eftir að í land var komið starfaði hann að mestu við ýmiss konar akstur.

Útför Hróbjarts Jóns fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 16. mars 2023, kl. 13.

Sjómaðurinn er fallinn. Við vorum skólafélagar í háskólanum hjá Sigmundi að Ásólfsskála, hann var í yngri deild en ég í hinni. Þar lagði hann meira upp úr því að standa sína plikt á líkamlegu sviði en liggja yfir lestrarbókum en þetta háði honum ekki í lífsbaráttunni. Hann var alinn upp á Mið-Grund í frændsystkinahópi. Tekinn í fóstur af ömmu og afa, pínulítið dekraður að sögn frændsystkina. Dálítið var hann uppátækjasamur í æsku sem heitir í dag, ADHD, en hét óþægð á þessum tíma, þetta eltist af honum eins og fleirum. Afi átti lækningu á ADHD en það var birkivöndurinn sem geymdur var til fóta í rúmi hans, hann var ekki notaður en aðeins vísað til hans þegar verst lét. Á höfði Hróa var gamalt ör sem kom þegar hann kleif myllustaurinn til að stöðva spaðann. Hann fór snemma á vertíð í Vestmannaeyjum, lengst af hjá Ármanni á Helgunni og fleirum. Hann var einn af þessum betri sjómönnum sem taka starfið alvarlega og læra allt betur en bókin segir. Hrói batt mikla tryggð við fjöllin og dvaldi oft milli vertíða og var oft hjá okkur á Ásólfsskála í lengri og skemri tíma og nutum við hjón hjálpar hans með ýmsum hætti sem við erum mjög þakklát fyrir. Hrói hafði sérstakt auga fyrir hestum, keypti með nokkurra ára millibili ótamda fola sem flestir urðu gæðingar, mestir voru þeir Moldi, Skuggi og Krummi. Við á Ásólfsskála fengum að njóta þessara snillinga meðan eigndinn sinnti skyldum sínum á sjó. Marga eftirminnlilega útreiðartúra áttum við saman, bæði innan og utan sveitar sem seint gleymast. Hrói tjáði skoðanir sínar umbúðalaust við hvern sem var og oft leyndist bak við þær glettni sem ekki allir þoldu, þá var mínum manni skemmt ef menn urðu dálítið vondir.

„Einn vegur öllum greiðir inngang í heimsins rann, margbreyttar list mér leiðir liggi þó út þaðan,“ sagði Hallgrímur. Leiðin að þínum útgangi var stutt, án mikilla þrauta þannig að ég held að megi sjá ljós í söknuði. Með kveðju og samúðaróskum til systra og afkomenda,

Viðar og Jóna.