Eskifjörður Fundað verður í bæjarstjórn Fjarðabyggðar í dag.
Eskifjörður Fundað verður í bæjarstjórn Fjarðabyggðar í dag. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Kristján Jónsson kris@mbl.is Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur samþykkt að gerð verði úttekt á stjórnsýslu sveitarfélagsins. Sjálfstæðisflokkurinn, sem er í minnihluta í bæjarstjórninni, lagði tillöguna fram í bæjarráði. Verður hún að óbreyttu tekin til umræðu á bæjarstjórnarfundi í dag.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur samþykkt að gerð verði úttekt á stjórnsýslu sveitarfélagsins. Sjálfstæðisflokkurinn, sem er í minnihluta í bæjarstjórninni, lagði tillöguna fram í bæjarráði. Verður hún að óbreyttu tekin til umræðu á bæjarstjórnarfundi í dag.

Ragnar Sigurðsson, oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn, segir að tvær meginástæður séu fyrir tillögunni. „Annars vegar er það reksturinn. Hann gengur illa eins og hjá fleiri sveitarfélögum en sigið hefur á ógæfuhliðina frá 2018. Hann er orðinn það ósjálfbær að við við þurfum að núllstilla okkur og leita leiða til að snúa þróuninni við. Hins vegar hefur verið mikil starfsmannavelta á bæjarskrifstofunni sjálfri og þar hefur örlað á óánægju. Þess vegna leggjum við áherslu á starfsumhverfið í úttektinni sem eitt af markmiðum hennar. Þetta eru lykilþættirnir,“ sagði Ragnar þegar Morgunblaðið hafði samband við hann í gær.

Verður væntanlega samþykkt

Bæjarstjóra verður falið að leita tilboða frá óháðum aðilum sem annast munu úttektina.

„Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkir að framkvæmd verði stöðugreining á stjórnsýslu sveitarfélagsins. Fenginn verði óháður aðili til að framkvæma greininguna í samvinnu og samráði við bæjarráð. Í verkefninu verður sérstaklega horft til þess hvernig auka megi skilvirkni og árangur í rekstri og stjórnsýslu sveitarfélagsins. Þar verði sérstaklega horft til starfsumhverfis á bæjarskrifstofu sveitarfélagsins með það fyrir augum að skapa öflugt starfsumhverfi, auka starfsánægju og draga úr starfsmannaveltu,“ segir meðal annars í fundargerðinni.

Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, forseti bæjarstjórnar, segir að kalla megi þetta stöðuúttekt á stjórnsýslunni. Hún situr ekki í bæjarráði en segist eiga von á því að tillagan verði samþykkt í bæjarstjórninni. Þótt henni hafi verið breytt lítillega í bæjarráði hafi verið samhljómur hjá fulltrúum í bæjarráði þvert á flokka.

Nýr bæjarstjóri í apríl

Bæjarstjóraskipti eru fram undan í hinu sameinaða sveitarfélagi en Jón Björn Hákonarson óskaði eftir því að láta af störfum í síðasta mánuði. Jóna Árný Þórðardóttir var ráðin í framhaldinu og tekur við starfinu 1. apríl, a.m.k. að einhverju leyti. Jóna var um tíma fjármálastjóri Fjarðabyggðar en hefur undanfarið ár verið framkvæmdastjóri Austurbrúar. Ráðningarsamningurinn verður væntanlega borinn undir bæjarstjórnina í dag.