Tilfinningarík stund Erik Nielsen, stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Bilbao, og Freyr Sigurjónsson að tónleikum loknum. Nielsen segist munu sakna Freys.
Tilfinningarík stund Erik Nielsen, stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Bilbao, og Freyr Sigurjónsson að tónleikum loknum. Nielsen segist munu sakna Freys. — Ljósmyndir/Atli Rúnar Halldórsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sinfóníuhljómsveit Bilbao lauk flutningi á magnaðri sinfóníu nr. 9 eftir Austurríkismanninn Anton Bruckner (1824-1896) með löngum, hreinum einleikstóni þverflautunnar. Svo kom dramatísk þögn áður en liðsmenn sveitarinnar byrjuðu að stappa niður fótum

Atli Rúnar Halldórsson

skrifar frá Spáni

Sinfóníuhljómsveit Bilbao lauk flutningi á magnaðri sinfóníu nr. 9 eftir Austurríkismanninn Anton Bruckner (1824-1896) með löngum, hreinum einleikstóni þverflautunnar. Svo kom dramatísk þögn áður en liðsmenn sveitarinnar byrjuðu að stappa niður fótum. Áheyrendur í sal tóku við sér líka. Gæsahúðaraugnablik.

Freyr Sigurjónsson, fyrsti þverflautuleikari, hafði flautað í síðasta sinn með sveitinni sinni í konserthúsinu í Bilbao eftir að hafa starfað þar í liðlega 40 ár. Endir tónleikanna var á sinn hátt táknrænn. Hann átti lokatóninn.

Fyrra verkið á þessum tónleikum 10. mars 2023 var á sinn hátt táknrænt líka fyrir staðinn og stundina, konsert fyrir píanó og hljómsveit eftir Spánverjann Gabríel Erkoreka, f. 1969. Hann er fyrrverandi nemandi Freys í flautuleik, lærði líka á píanó en sneri sér síðar að tónsmíðum. Erkoreka samdi verkið sérstaklega í tilefni af 100 ára afmæli Sinfóníuhljómsveitar Bilbao 8. mars 2022.

Kveðjustundin á sviðinu var tilfinningarík og tár glitruðu á hvarmi tónlistarfólksins sem faðmaði Frey að skilnaði. Sömuleiðis var við sama tækifæri kvaddur fagottleikarinn Malcom Wright, Englendingur sem hóf störf í hljómsveitinni um sama leyti og Freyr árið 1982.

Áhrifanna gætir í tónmenntakerfi Spánar

Freyr Sigurjónsson skilur eftir sig fleiri og dýpri spor í tónlistarlífi Spánar en margan grunar. Hann hefur ekki aðeins leikið með Sinfóníuhljómsveit Bilbao frá því hann útskrifaðist frá Royal Northern College of Music í Manchester 1982 heldur kenndi hann og þjálfaði fjölda flautuleikara og kennara í flautuleik sem starfandi eru um allan Spán. Þá var hann um áratugaskeið prófessor í tónlistarháskólanum í Bilbao og vann þar meðal annars að því í hálft annað ár að skipuleggja átta ára nám í þverflautuleik, frá grunnnámi til útskriftar á háskólastigi.

Kennsluskipulagið var í upphafi hugsað fyrir Bilbao en var tekið upp líka í tónlistarháskólanum í Madrid. Í framhaldinu létu stjórnvöld Spánar lögfesta skipulagið fyrir allt tónmenntakerfi landsins!

Flautuleikari í fullu fjöri

Erik Nielsen, stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Bilbao, leynir því ekki að Freyr skilji eftir sig skarð í sveitinni, reyndar bæði stórt og vandfyllt. Nielsen er Bandaríkjamaður frá Iowa en af danskri Nielsen-ætt kominn. Amma hans flutti ung frá Jótlandi vestur um haf og það skýrir nafn stjórnandans. Erik á viskastykki frá ömmunni með ísaumuðum orðunum „mange tak“. Dönskukunnátta hans nær ekki öllu lengra en vænt þykir honum um norrænar rætur sínar og fögrum orðum fer hann um Eldborgarsal Hörpu.

Erik hleður fráfarandi fyrsta þverflautuleikara hóli og framlagi hans: „Ég hef þekkt Frey frá árinu 2015 og notið þess mjög að vinna með honum. Hann veiktist alvarlega af krabbameini í hálsi árið 2018 og ég sagði þá: „Ef þú nærð heilsu á nýjan leik, og getur haldið áfram að starfa með okkur, heiti ég því að setja á efnisskrá hljómsveitarinnar flautukonsertinn sem Jón Ásgeirsson tónskáld samdi fyrir þig á sínum tíma.“ Freyr sigraðist á sjúkdómnum og ég stóð við loforðið.

Freyr er einstakur samstarfsmaður, mjög fær hljóðfæraleikari, kröfuharður og leiðtogi í sér, bæði á sviði tónlistar og mannlegra samskipta. Þannig fólk er verðmætt og þannig tónlistarmenn viljum við hafa í hljómsveitinni.

Ég mun sakna hans sárlega og vildi alls ekki missa hann frá okkur. Hann hefur verið í hljómsveitinni áratugum saman og spilar enn eins og hann væri 25 ára! Hann hefur mikla orku, rétt hugarfar, bros á vör og leikur stórkostlega á þverflautuna. Íþróttamenn gefa eftir með aldrinum og það er eðlilegt. Margir tónlistarmenn gefa líka eftir með aldrinum, sem er líka eðlilegt. Freyr gefur hins vegar ekkert eftir.

Ég vona að Íslendingar og aðrir fái að njóta flautuleiks Freys í enn meira mæli hér eftir en hingað til. Ég hef lofað honum því að koma í Listasafn Sigurjóns Ólafssonar í Reykjavík og heilsa upp á hann þar á heimavelli. Í augnablikinu er mér hins vegar efst í huga hve erfitt það er að sætta sig við að hann hætti í hljómsveitinni.“

Dreymir um að hljóðrita aftur flautukonsertinn

Freyr er sonur Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara (1908-1982) og Birgittu Spur. Móðir hans og fjölskyldan annast listasafnið sem kennt er við Sigurjón á Laugarnestanga í Reykjavík. Freyr hyggst hefja eftirlaunaskeiðið með því að dvelja á Íslandi sumarlangt og er með ýmislegt á prjónum þar og víðar.

„Ég er í góðu formi og mig langar til að spila meira, vonandi á Íslandi. Sömuleiðis hef ég hef fengið áskorun um að spila á Englandi og fyrirspurnir annars staðar frá. Annars dreymir mig um að taka aftur upp flautukonsertinn sem Jón Ásgeirsson samdi handa mér árið 2001 og beið í 19 ár eftir að heyra mig flytja í Reykjavík. Þá veiktist ég og Sinfóníuhljómsveit Íslands ákvað að láta annan flautuleikara hlaupa í skarðið frekar en að fresta flutningnum. Erik Nielsen og hljómsveitin í Bilbao heiðruðu mig hins vegar með því að taka konsertinn upp ókeypis og við fluttum hann síðar á sviði hér úti. Í upptökunni var ég í hörkulyfjameðferð vegna krabbameins og ekki til stórræða. Mig langar að taka upp konsertinn aftur, frískur og hress.

Fyrst á dagskrá hjá mér núna er samt að njóta lífsins í rólegheitum. Baráttan við krabbameinið tók sinn toll, ég finn það núna. Svo held ég auðvitað áfram að smíða líkön af gömlum herskipum, sem er helsta áhugamálið ásamt auðvitað tónlistinni.

Ég verð á Íslandi í þrjá mánuði í sumar og hlakka til að geta verið með fjölskyldu og vinum, rennt fyrir fisk á Arnarvatnsheiði og gert fleira sem tími gefst til í fyrsta sinn í langan tíma. Það er nefnilega liðin nær hálf öld frá því ég hef verið svo lengi samfellt á Íslandi. Tíminn líður ekki áfram, hann hreinlega hleypur og það hratt.“

Höf.: Atli Rúnar Halldórsson