„Íslenskir nemendur halda í allar áttir: til Evrópu, BNA, Asíu og jafnvel til Suður-Ameríku og snúa heim með fjölbreytta þekkingu í farteskinu,“ segir Benedikt.
„Íslenskir nemendur halda í allar áttir: til Evrópu, BNA, Asíu og jafnvel til Suður-Ameríku og snúa heim með fjölbreytta þekkingu í farteskinu,“ segir Benedikt. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir bankann hafa markað þá stefnu fyrir þremur árum síðan að auka viðskipti við hinn ört vaxandi tækni- og hugverkageira landsins. „Það var yfirhagfræðingurinn okkar, hún Erna Björg Sverrisdóttir,…

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir bankann hafa markað þá stefnu fyrir þremur árum síðan að auka viðskipti við hinn ört vaxandi tækni- og hugverkageira landsins. „Það var yfirhagfræðingurinn okkar, hún Erna Björg Sverrisdóttir, sem veitti því athygli að í opinberum tölum yfir útflutningstekjur landsins hafði liðurinn „annað“ stækkað hratt, og raunar vaxið hraðar en lykilstoðir atvinnulífsins: sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan og orkufrekur iðnaður. Þegar betur var kafað ofan í tölurnar kom í ljós að það sem helst dreif áfram vöxtinn undir liðnum „annað“ var hugverkaiðnaðurinn.“

Benedikt tók til máls á Iðnþingi og ræddi þar m.a. um nýjar vörur sem þróaðar hafa verið með hugverkadrifin fyrirtæki í huga: „Við höfum lagt okkur fram við að vera gagnlegur milliliður og hjálpa fyrirtækjum að finna áhættufé til að hjálpa þeim að vaxa, og bjuggum til nýja lánavöru sem er sniðin að fyrirtækjum sem fá hluta rannsóknar- og þróunarkostnaðar endurgreiddan,“ útskýrir hann.

Lánavaran sem um ræðir hefur það hlutverk að hjálpa til við að brúa bilið þar til endurgreiðsla berst frá hinu opinbera: „Stuðningur stjórnvalda hefur hækkað úr 20% í 35% af rannsóknar- og þróunarkostnaði, upp að vissu þaki, en það getur tekið tíma að sækja um endurgreiðsluna og fá hana afgreidda, en á meðan halda félögin áfram að stofna til kostnaðar. Það lán sem við veitum er með veði í þeirri endurgreiðslu sem er væntanleg og geta félögin þá nýtt svigrúmið strax,“ segir Benedikt og bætir við að vegna eðlis starfsemi sinnar geti ung hugverkadrifin fyrirtæki oft átt erfitt með að sækja sér lánsfé.

Ættu margir lesendur að þekkja svipað lánafyrirkomulag frá námsárum sínum en íslenskir bankar hafa um langt skeið veitt námsmönnum yfirdrátt byggðan á áætluðum námslánum þeirra og er skuld þeirra við bankann greidd upp í lok annar þegar námsárangur liggur fyrir og Menntasjóður námsmanna, áður LÍN, greiðir námslánin út. „Við formgerum afgreiðslu þessara lána með því að fá áritun frá Rannís og skattinum um þá endurgreiðslu sem lántakandinn mun eiga rétt á, og treystum því að regluverkið og umgjörðin utan um endurgreiðslurnar muni halda.“

Hefur bankinn notið góðs af því að sérhæfa sig í þörfum hugverkafyrirtækja með þessum hætti og segir Benedikt að með því að sinna greininni vel hafi bankinn lagt grunninn að langtímaviðskiptasamböndum sem kalla t.d. á að fylgja sprotum í gegnum vöxt þeirra og útrás. „Þessi lán hafa verið fyrsta snertingin við þessi fyrirtæki og iðulega koma þau í meiri viðskipti hjá okkur, s.s. til að fjármagna kröfur og birgðir, og jafnvel leggja drög að skráningu á markað eða yfirtöku.“

Úr 250 milljörðum í 700 milljarða á næstu árum

Benedikt bendir á hve þjóðhagslega mikilvægt það er að byggja upp blómlegan hugverkadrifinn iðnað á Íslandi. Segir hann að í dag myndi þessi iðnaður um 14% af útflutningstekjum þjóðarinnar, samtals um 250 milljarða á ári samkvæmt nýjustu mælingum, en það er bara byrjunin: „Á dögunum var gerð könnun á meðal 18 stórra fyrirtækja í þessum geira og gerðu áætlanir þeirra ráð fyrir að eftir fjögur ár væru útflutningstekjur þeirra orðnar um 700 milljarðar króna samanlagt.“

En atvinnustarfsemi byggð á hugverkum verður ekki til af sjálfu sér, og minnir Benedikt á að til að greinin þrífist vel þurfi hún á vel menntuðu og sérhæfðu vinnuafli að halda. Landið þurfi að hlúa vel að menntun á háskólastigi og bjóða upp á framúrskarandi nám á sviði raungreina. Þegar hann er spurður að hvaða marki þurfi að hafa áhyggjur af nýlegum fréttum um að tveir fremstu háskólar landsins lendi ekki mjög ofarlega í alþjóðlegum samanburðarmælingum segir Benedikt að vegna stærðar háskólanna og þess hvernig verkefni þeirra eru skipulögð falli starfsemi þeirra ekki endilega vel að alþjóðlegum mælingum – en það sé ekki endilega áhyggjuefni:

„Það er einn helsti styrkleiki íslensks atvinnulífs að unga fólkið okkar heldur iðulega út í framhaldsnám eftir að hafa lokið grunnnámi við íslenskan háskóla,“ segir Benedikt og bendir til samanburðar á að það sé frekar sjaldgæft hjá öðrum þjóðum að ungt fólk sæki háskóla utan síns heimalands. „Íslenskir nemendur halda í allar áttir: til Evrópu, Bandaríkjanna, Asíu og jafnvel til Suður-Ameríku og snúa aftur heim með fjölbreytta þekkingu í farteskinu og reynslu af ólíkum menningarheimum. Hjá íslenskum vinnustöðum blandast þetta allt saman og útkoman mjög góð.“

Ætti því, að mati Benedikts, ekki endilega að leggja ofuráherslu á þá þætti sem samanburðarkannanirnar mæla, sem snúa iðulega að kennslu og rannsóknum á efstu stigum háskólastarfsins: „Við eigum auðvitað að hafa metnað í að hér séu starfræktir afar góðir háskólar en sökum smæðar ættum við að einbeita okkur sérstaklega að gæðum grunnnámsins og leggja áfram rækt við þá hefð að Íslendingar sæki sér þekkingu til útlanda.“

Minnir Benedikt líka á að árangur háskólanna byggi á því veganesti sem börn og unglingar fá hjá grunn- og framhaldsskólunum. Eru þar greinileg merki um alvarleg vandamál sem taka þarf föstum tökum og nefnir Benedikt í því sambandi mikið brottfall unglingspilta og laka frammistöðu íslenskra grunnskólanemenda í alþjóðlegum prófum. Telur hann það hafa verið óheillaspor að fella niður samræmd próf við lok grunnskóla en stjórnvöld ákváðu árið 2022 að leggja samræmd próf niður a.m.k. fram til ársins 2024 á meðan unnið er að þróun nýs samræmds námsmats, svokallaðs matsferils. „En við vitum að ef mælikvarða skortir til að gera samanburð þá er hætta á að slakni á hlutunum. Með því að hafa skýrar forsendur til að bera saman árangur á milli skóla er um leið verið að knýja sveitarfélögin til að gera betur í þessum málaflokki,“ segir Benedikt. „Þá er ekki ósennilegt að það henti mörgum piltum sérstaklega vel að þreyta samræmd próf frekar en að gangast undir n.k. símat: prófin veita þeim skýr markmið og sterkan hvata til að standa sig.“

Fari sænsku leiðina frekar en þá dönsku

Þegar þróunin undanfarna tvo áratugi er skoðuð má sjá að margar jákvæðar breytingar hafa verið gerðar á starfsumhverfi íslenskra sprotafyrirtækja og bæði skatta- og styrkjakerfið uppfært með það fyrir augum að skapa sterkari hvata til nýsköpunar, rannsókna og þróunar.

Benedikt segir landslagið allt annað í dag en þegar hann hóf störf í fjármálageiranum árið 1998. Í dag starfi í landinu fjölmargir sjóðir sem eru vel fjármagnaðir, búa að mikilli þekkingu og eru reiðubúnir að fjárfesta í sprotum af fjölbreyttum toga. Tekist hefur að safna upp töluverðri þekkingu, koma á bættum tengslum við erlenda fjárfesta og markaði, og er árangurinn eftir því.

Er þó ekki þar með sagt að ekki megi gera betur og segir Benedikt að meðal þess sem nú verði að gæta sérstaklega að, sé að Ísland missi ekki frá sér þau fyrirtæki sem hér hefur tekist að byggja upp. „Ég átti nýverið gott samtal við Íslending sem hefur náð langt í bandaríska tækniheiminum og benti hann mér á að við þyrftum að gæta okkar á því að þróast eins og Svíþjóð frekar en Danmörk. Þar átti hann við að Danirnir hafa lent í því að missa frumkvöðlana sína og fyrirtækin þeirra úr landi þegar þau hafa náð á vissu stigi. Svíþjóð hefur aftur á móti tekist að halda í þetta fólk og þau nýju fyrirtæki sem þar hafa orðið til og spila þar margir þættir inn í, þar á meðal skattaumhverfið.“

Þessu tengt minnir Benedikt á að vöxtur hugverkadrifinnar starfsemi muni efla þjóðarbúið með ýmsum hætti: „Hefur t.d. verið á það bent að miðað við stöðu ríkisfjármála á Íslandi og gjaldeyrisforða þjóðarinnar þá ætti lánshæfi Íslands að vera a.m.k. einu þrepi og jafnvel tveimur þrepum hærra. Meðal þess sem heldur matinu niðri er það viðhorf matsfyrirtækjanna að hagkerfi þessa fámenna lands sé of einsleitt – stoðirnar of fáar,“ segir hann. „Þetta sjáum við núna breytast, og þessa sögu þarf að segja umheiminum, og minna um leið á það að við eigum gjaldmiðil sem er studdur af endurnýjanlegri orku sem við fáum úr fallvötnum okkar og jarðvarma, og fiskinum sem við veiðum með sjálfbærum hætti. Ef tekið er tillit til þessara þátta er eðlilegt að Ísland njóti sama lánshæfis og önnur norræn ríki.“

Getum tekið þátt í uppbyggingu Grænlands

Benedikt segir Ísland geta leikið mikilvægt hlutverk í þeirri uppbyggingu og verðmætasköpun sem er að eiga sér stað á norðurslóðum. Sér hann m.a. fyrir sér að kauphöllin á Íslandi geti í framtíðinni orðið að nokkurs konar norðurslóða-kauphöll og þannig stutt við þann iðnað sem er að taka á sig mynd í Grænlandi.

Hefur Morgunblaðið t.d. fjallað ítarlega um vöxt grænlenska námageirans og telja vísindamenn að þar megi finna gríðarlegt magn dýrmætra málma í jörðu. Gantast Benedikt með að Donald Trump hafi ef til vill vitað sínu viti þegar hann færði það í tal á sínum tíma að Bandaríkin ættu hreinlega að reyna að kaupa Grænland:

„Íslendingar eru ekki sérfræðingar í námastarfsemi en við erum nokkuð fróð á sviði ferðaþjónustu og getum t.d. tekið beinan þátt í uppbyggingu þeirrar greinar í Grænlandi. Þá getum við nýtt íslenskar hafnir til að þjónusta Grænland, og íslenska bankakerfið getur sinnt þessu svæði en í dag eru aðeins tveir bankar starfandi á Grænlandi og báðir frekar smáir.“