Anna Einarsdóttir fæddist á Litla-Búrfelli í Svínavatnshreppi, A-Hún., 28. júní 1943. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 28. febrúar 2023.

Foreldrar hennar voru Guðrún Jónsdóttir ljósmóðir, f. 1.12. 1915, d. 12.11. 1946 og Louis Einar Pétursson, húsvörður í Ræsi hf., f. 1.12. 1902, d. 2.11. 1960.

Bræður Önnu eru Jón Bragi, f. 23.7. 1936, Ragnar, f. 27.8. 1946, og Pétur, f. 27.8. 1946. Fósturmóðir frá 1960 Guðrún Elliðadóttir, f. 2.11. 1910, d. 17.10. 1993, og fóstursystir Birna Kjartansdóttir, f. 13.6. 1949.

Anna giftist 11. október 1964 Birgi Ágústssyni framkvæmdastjóra, f. 4.10. 1934, d. 21.11. 1991. Foreldrar hans voru Björg Evertsdóttir, f. 7.1. 1893, d. 14.7. 1986, og Benjamín Ágúst Jensson, f. 17.8. 1902, d. 5.8. 1986.

Anna og Birgir eignuðust þrjú börn. Þau eru: a) Einar Örn, f. 27.12. 1963, rafeindavirki, giftur Svandísi Ingólfsdóttur sérfræðingi, f. 22.5. 1967, synir þeirra eru Birgir Örn, f. 17.12. 1991, og Andri Már, f. 11.4. 1994. b) Ingólfur Örn fulltrúi, f. 31.10. 1966. c) Guðrún Björg lögmaður, f. 11.6. 1969, sonur hennar og Sigurðar Rúnarssonar, f. 3.1. 1968, er Högni, f. 7.10. 1994. Sonur Högna og Söndru Lífar Sigurðardóttur er Ísak Máni, f. 6.10. 2021.

Anna gekk í Laugarnesskóla og í Kvennaskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan árið 1960. Þá hóf hún störf í Skíðaskálanum í Hveradölum uns hún fór til Austurríkis árið 1963 sem au pair. Hún vann hjá Pósti og síma á talsambandi við útlönd frá 1972. Sumarið 1977 vann hún sem kokkur á fjallahóteli í Austurríki þar sem hún hafði verið au pair.

Árið 1984 hóf hún störf sem fulltrúi í sendiráði Bandaríkjanna þar sem hún starfaði til 2012. Hún tók þátt í leiðtogafundinum í Höfða og hitti þá Ronald Reagan. Hún tók þátt í heimsóknum margra leiðtoga í störfum sínum hjá sendiráðinu og hitti m.a. forsetahjónin Bill og Hillary Clinton, Colin Powell, Condoleezza Rice og Madeleine Albright, svo einhverjir séu nefndir. Anna gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Félag íslenskra símamanna, Sjálfstæðisflokkinn og var ein af stofnfélögum Málfreyjufélags ÝR.

Útför Önnu verður gerð frá Kópavogskirkju í dag, 16. mars 2023, kl. 13.

Við andlát elskulegrar mömmu minnar er mér efst í huga innilegt þakklæti fyrir allt sem hún gerði fyrir mig og gleði yfir að hafa átt jafn skemmtilega, greinda og góða konu fyrir mömmu. Mamma var einstök og ég á henni allt að þakka. Hún hjálpaði mér með námið með einum eða öðrum hætti frá því í sex ára bekk þar til ég kláraði framhaldsnám í lögfræði. Ég naut þeirra forréttinda að búa með henni þar til ég var tæplega 42 ára gömul og bar aldrei skugga á sambúð okkar. Þegar ég átti von á syni mínum opnaði hún heimili sitt fyrir honum og var honum alltaf eins og hin besta móðir og amma. Hann syrgir nú mikið eins og við gerum öll í fjölskyldunni.

Mamma vann frækileg afrek í bandaríska sendiráðinu þar sem hún kom á 28 ára starfsferli að öllum helstu viðburðum þess eins og leiðtogafundinum í Höfða. Hún þreifst á að vera í jafn krefjandi umhverfi og var í sendiráðinu, þar sem nýir yfirmenn komu á þriggja ára fresti og nýjar áskoranir komu stöðugt upp.

Jafnframt var mamma vinamörg og með eindæmum gestrisin, hún vissi fátt skemmtilegra en að halda veislur og matarboð af minnsta tilefni. Alls staðar þar sem hún kom talaði hún við fólk og kynntist því aragrúa af fólki sem margir hverjir urðu vinir hennar fyrir lífstíð. Mamma elskaði að ferðast og hikaði ekki við að fara ein á fjarlægjar slóðir eins og til Kína, Egyptalands og Suður-Afríku. Þegar ég bjó í Miami kom hún oft í heimsókn og hennar var alltaf beðið með mikilli tilhlökkun því allt var svo miklu betra með mömmu sér við hlið. Það er því erfitt að hugsa sér tilveruna án hennar, en bjartar og fallegar minningar um einstaka mömmu verða að koma í staðinn.

Með kærri þökk fyrir allt, elsku mamma. Guð blessi minningu þína.

Guðrún.

Í dag kveðjum við móður okkar, Önnu Einarsdóttur, og eftir sitja fallegar minningar um góða og hugrakka konu sem réðst aldrei á garðinn þar sem hann var lægstur, engin áskorun var of stór.

Mamma var minn klettur í lífinu, sem ég gat alltaf leitað til sama hvað á bjátaði á, og á ég eftir að sakna þess mikið að geta ekki kíkt til hennar og leitað ráða.

Mamma fékk ekki mikla forgjöf í lífinu en var ótrúlega dugleg og hugrökk og óhrædd við að prófa nýja hluti í lífinu, hvort sem það var að skipta um starfsvettvang, fara með alla fjölskylduna til Austurríkis og starfa þar sumarlangt sem kokkur á hóteli, taka þátt í félagstörfum eða ferðast til fjarlægra landa.

Mamma var óvenju lífsglöð og félagslynd kona sem var alla tíð í miklum samskiptum við sína fjölskyldu, skólafélaga og vini og veit ég að hennar verður alls staðar sárt saknað.

Mamma vann lengi á Talsambandi við útlönd hjá Pósti og síma en 1984 hóf hún störf hjá sendiráði Bandaríkjanna þar sem hún starfaði í 28 ár eða til 2012 þegar hún fór á eftirlaun. Mamma naut sín mjög í starfi í sendiráðinu og hitti m.a. Ronald Reagan, Bill Clinton og fjóra utanríkisráðherra.

Mamma var alla tíð góður kokkur, las mikið af erlendum blöðum þar sem hún fékk hugmyndir að nýjungum í matargerð og var óhrædd að prófa nýja hluti þrátt fyrir misjafnar undirtektir eiginmannsins og barnanna.

Við eigum margar góðar minningar af mömmu og ein sem kemur sérstaklega upp í hugann nú er sextugsafmælisferðin hennar þar sem hún leigði hús á suðurströnd Frakklands og bauð okkur börnunum og ömmustrákunum með í afmælisferð en þarna var hún enn við góða heilsu.

Önnur ferð sem ég veit að hún naut mjög var hennar síðasta utanlandsferð þar sem hún fór með Guðrúnu, Högna, Söndru og Ísak til Florida fyrir ári síðan en Ísak var langömmustrákurinn hennar sem hún elskaði mjög mikið og var afskaplega stolt af.

Síðustu árin hafa verið henni svolítið erfið vegna veikinda en aldrei nokkurn tíma heyrðist hún kvarta og var ævinlega þakklát fyrir það sem hún hafði.

Ég vil þakka starfsfólki Landspítala fyrir góða umönnun í þau skipti sem hún þurfti að leggjast þar inn.

Einar Örn Birgisson.

Ég var svo heppinn að svona ljúf, elskuleg og grjóthörð kona ól mig upp. Það var sama hvað bjátaði á – ég gat alltaf stólað á þig. Þú varst meira en kletturinn minn, þú varst sólin mín, alltaf svo björt og hlý. Eitt sinn sagðirðu við mig þegar ég hringdi í þig grátandi að ég ætti bara að hugsa um vandann á morgun, ekki í dag. Svo þegar að morgni kæmi þá ætti ég bara að hugsa um vandann næsta morgun. Ég vildi að ég hefði getað sagt þér hversu mikið þetta hjálpaði mér á erfiðum tímum.

En nú ertu farin, elsku amma mín, og ég á erfitt með að sætta mig við það. Þú varst bara mamma mín. Ég veit þú mundir eflaust skammast í mér fyrir að syrgja þig. Þú mundir vilja að ég væri ekki að hugsa um þetta í dag eða á morgun og ég ætti bara að vera glaður. Það er samt svo erfitt, elsku amma. En þú þarft ekki að hafa áhyggjur af mér því hann Ísak Máni, elsku gullmolinn okkar, sýnir mér að lífið heldur áfram þrátt fyrir sorgina.

Takk fyrir allt, elsku amma. Ég elska þig.

Þinn

Högni.

Tryggðin há er höfuðdyggð,

helst ef margar þrautir reynir,

hún er á því bjargi byggð,

sem buga ekki stormar neinir.

(Sigurður Breiðfjörð)

Við fráfall minnar kæru vinkonu allt frá skólaárunum í Kvennaskólanum koma upp í hugann ótal minningar og fjölmargar ferðir. Meðal þeirra eru tvær ferðir sem við fórum með húsmæðraorlofskonum. Sú fyrri fjögurra daga ferð til Færeyja, til fjölmargra staða eyjanna. Sú seinni þar sem flogið var til München og ekið um Suður-Þýskaland, Austurríki, Sviss og Lichtenstein.

Fyrir líklega tíu árum fórum við um Suðurland. Við komum við á Hala í Suðursveit, þar sem Anna hafði verið í sveit eitt sumar á unglingsárum og hittum húsfreyjuna Ingibjörgu, sem bar fram góðar veitingar og nutum þess að rifja upp gamla góða tíma. Ingibjörg er nýlátin og blessuð sé minning hennar.

Við gistum á Edduhóteli í Nesjum þrjár nætur og fórum við til dæmis einn daginn á Höfn í Hornafirði og næsta dag austur í Lón. En úr Lóni átti hún ættir að rekja. Þetta var okkur góð og ógleymanleg ferð.

Ekki gleymi ég ótal matarboðum Önnu, en hún var listakokkur.

Síðast en ekki síst þakka ég einlæga vináttu hennar öll árin. Ég sakna hennar sárt.

Trúðu á tvennt í heimi.

Tign sem æðsta ber.

Guð í alheims geimi.

Guð í sjálfum þér.

(Steingr. Thorsteinsson)

Innilegustu samúðarkveðjur sendi ég börnum hennar, Einari, Ingólfi og Guðrúnu Björgu og fjölskyldum þeirra. Guð blessi ykkur í sárum söknuði.

Sigurlaug

Sveinbjörnsdóttir.

Hún Anna, vinkona mín til 70 ára, er farin í sína síðustu ferð. Við kynntumst í Laugarnesskóla þegar við vorum sjö ára og vorum alla tíð í sama bekk, fyrst hjá Dagmar og síðan hjá Skeggja til tólf ára aldurs. Þetta var frábær bekkur.

Anna missti móður sína úr Akureyrarveikinni þegar hún var aðeins þriggja ára og var þá móðir hennar nýbúin að eignast tvíbura sem settir voru í fóstur.

Einar, faðir hennar, flutti þá suður með Önnu og Braga, bróður hennar, og fékk vinnu sem húsvörður í Ræsi og þar fylgdi íbúð með starfinu. Sumarið eftir að við útskrifuðumst úr Laugarnesskólanum, hittumst við af tilviljun á Laugaveginum. Hún hafði þá verið kölluð heim úr sveitinni, vegna þess að faðir hennar hafði fengið heilablóðfall. Hann missti því bæði vinnuna og heimilið og Anna stóð þá eftir umkomulaus. En með góðri hjálp frá foreldrum vinkvenna hennar og stuðningi frá móðursystrum sínum tókst henni að stunda námið í Kvennaskólanum en á sumrin var hún alltaf í sveit.

Þetta sumar urðum við góðar vinkonur og hófum svo saman nám um haustið í Kvennaskólanum. Við náðum vel saman á unglingsárunum og brölluðum margt.

Þegar Kvennaskólanum lauk fékk hún starf í Skíðaskálanum í Hveradölum, þar sem hún var til heimilis, lærði margt og kynntist mörgum. En ferðaþráin blundaði alltaf í henni. Hún sótti um vinnu á fjallahóteli í Austurríki. Hún var þar í hálft ár. Þegar hún kom heimi, var hún langt gengin með elsta son sinn, Einar, og tók síðan saman við föður hans, Birgi Ágústsson, og kom sér upp sínu heimili. Eftir að hún kom heim höfðum við mikið samband þar sem báðar vorum við með ung börn. Við vorum um margt ólíkar, hún opin og dró að sér fólk, en ég meira inn í mig, en einhvern veginn hélst vináttan þrátt fyrir það. Meðal annars munaði engu að ég eignaðist mitt annað barn í sófanum hjá henni, á Kaplaskjólsveginum. Seinna, eftir að Birgir var látinn, fórum við saman til útlanda, aðallega til Bretlands, þar sem við höfðum báðar mikinn áhuga á enskri sögu, menningu og kóngafólki, þar sem við vorum báðar rómantískar og lásum mikið enskar skáldsögur. Við fylgdumst með bresku konungsfjölskyldunni, þar sem við vorum aldar upp við ensku og dönsku blöðin. Við fórum meðal annars saman til London til að skoða krúnudjásnin.

Anna vann hjá Talsambandi við útlönd í nokkur ár. Þar eignaðist hún margar vinkonur. Eftir það vann hún hjá bandaríska sendiráðinu þar sem hún undi hag sínum mjög vel. Hún hélt góðu sambandi við samstarfsfólk af símanum og úr sendiráðinu.

Síðustu dagana fyrir andlátið stóð til að ég keypti íbúð við hliðina á henni og ætluðum við að eyða síðustu dögum okkar saman en þá kom kallið. Ég talaði við hana tveimur tímum áður en hún dó og var þá ekkert rætt annað en hvað hún hlakkaði mikið til. Það varð ekki, en ég treysti því að við hittumst fyrir hinum megin og tökum upp þráðinn.

Með innilegum samúðarkveðjum til Einars, Ingólfs og Guðrúnar.

Með innilegu þakklæti fyrir allt, örlætið, vináttuna og góðan félagsskap.

Þín vinkona,

Elín Lára Ingólfsdóttir.

Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest. Fram undan er mikið merkisár.

Kærar kveðjur.

Þannig skrifaði hún Anna okkar í haust þegar hún efndi til endurfunda 12 ára F, gamla bekkjarins okkar hjá Skeggja í Laugarnesskólanum, þar sem við áttum saman óendanlega dásamleg ár á vori lífsins. Flest fylgdumst við að allan barnaskólann, deildum súru og sætu, lærðum og lærðum og vorum stolt yfir að vera alltaf í besta bekknum, lékum í leikritum, þuldum ljóð og hlustuðum andaktug á framhaldssöguna sem Skeggi las fyrir okkur í „drekkutímanum“, ekki síst um Kalla Blomkvist, sem Skeggi þýddi um leið og hann las. Við fundum að við vorum forréttindabekkur. Þá var gott að vera til.

Á langri lífsins göngu hefur ýmislegt bjátað á hjá okkur flestum, ef ekki öllum, en alltaf höfum við reynt að hittast og spjalla, njóta og rifja upp æskuárin. Oft tók ég þá með gömlu dagbækurnar mínar, frá þessum árum, og las um ævintýrin okkar, leikina, afmælisboðin, morgunsönginn, þar sem bekkirnir röðuðu sér upp á öllum hæðum, dansæfingarnar í leikfimissalnum, litla bókasafnið okkar sem Skeggi kom okkur upp og heilræðin sem hann gaf okkur út í lífið og við tókum mjög alvarlega. Það var einmitt til slíkra endurfunda sem hún Anna okkar var að boða með upphafsorðum þessarar minningargreinar. Við áttum öll von á því að verða áttatíu ára á þessu merkisári, eins og hún orðar það svo fallega. Sjálfri entist henni ekki aldur til þess, en það var henni að þakka að við bekkjarfélagarnir hittumst hjá henni í haust, sögðum frá, rifjuðum upp, hlógum og nutum samverunnar. Það er svo dýrmætt að deila minningunum með samferðamönnunum.

Við öll, í gamla 12 ára F, Skeggjabekk, þökkum Önnu fyrir að hafa haldið utan um hópinn okkar, á þessu hausti lífsins, og gert okkur kleift að eiga þessa síðustu samverustund með henni. Hún er sú sjötta af okkur bekkjarfélögunum sem yfirgefur þessa tilveru. Fari hún í friði.

Við þökkum henni langa og góða samfylgd.

Fyrir hönd bekkjarfélaganna í 12 ára F,

Guðfinna Ragnarsdóttir.