Tvær aðferðir koma til greina við viðgerð á bilaða sæstrengnum til Vestmannaeyja, Vestmannaeyjastreng 3 (VM3). Annars vegar að skipta um bilaða hluta strengsins, eins og gert var þegar hann bilaði 2017, og hins vegar að skipta um lengri kafla, 3…

Tvær aðferðir koma til greina við viðgerð á bilaða sæstrengnum til Vestmannaeyja, Vestmannaeyjastreng 3 (VM3). Annars vegar að skipta um bilaða hluta strengsins, eins og gert var þegar hann bilaði 2017, og hins vegar að skipta um lengri kafla, 3 kílómetra, og tengja við jarðstrengina uppi á landi á sama stað og VM3 og setja nýja tengingu út í sjó.

Unnið er að áætlun um viðgerð á VM3 sem bilaði í lok janúar. Þær aðferðir sem eru til skoðunar hafa mismunandi kosti og galla, samkvæmt upplýsingum Steinunnar Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Landsnets, sem verið er að fara yfir og meta.

Haft hefur verið samband við verktaka sem sérhæfa sig í viðgerðum sæstrengja og er beðið eftir tilboði eða tilboðum. Efni í hefðbundna viðgerð er til úti í Eyjum en verði valið að fleyta nýjum streng að hluta þarf að kaupa nýjar tengimúffur og kaupa nýjan þriggja kílómetra streng.

Líklegt er að viðgerðartími verði í júní eða júlí því þá eru mestar líkur á að hægt verði að vinna að viðgerð í góðu veðri og lítilli öldu. Veðuraðstæður ráða miklu um hvort hægt er að vinna að viðgerð.

Steinunn segir að stefnt sé að því að í næstu viku verði búið að afla nægra gagna til þess að hægt sé að ákveða aðferð og semja við verktaka til að sjá um viðgerðina.

Vel gengur í Eyjum

Bæjarráð Vestmannaeyja fjallaði um málið á fundi í síðustu viku. Kom fram í máli Írisar Róbertsdóttur bæjarstjóra að vel hefði gengið hjá Landsneti og HS-veitum að leysa úr stöðunni sem upp kom þegar aðalsæstrengurinn til Vestmannaeyja bilaði. Loðnuvertíðin hefði gengið vel og afhending forgangsraforku gengið snuðrulaust fyrir sig það sem af er vertíð.

Eins og áður hefur komið fram hefur tekist að tryggja varatengingu með elsta rafstrengnum og samsetningu leiðara úr tveimur biluðum strengjum. Hafa þessar tengingar haldið.helgi@mbl.is