Sigurður Ingi Jóhannsson
Sigurður Ingi Jóhannsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samgöngusáttmálinn tryggir fjölbreytta ferðamáta.

Sigurður Ingi og fleiri

Þegar samgöngusáttmáli ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var undirritaður árið 2019 hafði ríkt frost í uppbyggingu innviða á höfuðborgarsvæðinu og í raun frost í samskiptum höfuðborgarsvæðisins og ríkisins er vörðuðu samgöngur. Samgöngusáttmálinn markaði því tímamót.

Í samgöngusáttmálanum felst sameiginleg sýn á hvernig umferðarvandi höfuðborgarsvæðisins verður best leystur til lengri tíma. Það er ljóst að til að mæta þörfum íbúa höfuðborgarsvæðisins sem eru helmingur landsmanna verður sá vandi ekki leystur einvörðungu með því að styrkja stofnvegakerfið. Hann verður heldur ekki leystur með því að horfa einvörðungu á almenningssamgöngur. Niðurstaða samgöngusáttmálans er blönduð leið þar sem annars vegar eru lagðir miklir fjármunir í umfangsmiklar stofnvegaframkvæmdir til að bæta flæði umferðar um höfuðborgarsvæðið og hins vegar uppbygging hágæðaalmenningssamgangna. Auk þess er lögð mikil áhersla á uppbyggingu göngu- og hjólastíga.

Öflugra stofnvegakerfi

Framkvæmdir við stofnvegi eru tæpur helmingur af kostnaði við samgöngusáttmálann. Af þeim 10 stóru stofnvegaframkvæmdum sem eru á sviði sáttmálans er þremur lokið. Nú þegar hefur verið lokið framkvæmdum við kafla Vesturlandsvegar frá Skarhólabraut að Hafravatnsvegi, kafla Reykjanesbrautar frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi og kafla Suðurlandsvegar frá Bæjarhálsi að Vesturlandsvegi. Á næstu mánuðum hefjast framkvæmdir við langþráða tengingu Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut og undirbúningur við gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar er á lokametrunum. Þessar framkvæmdir eru meðal þeirra mikilvægustu í samgöngusáttmálanum og munu greiða verulega fyrir umferð íbúa svæðisins.

Hágæða almenningssamgöngur

Íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgar hratt og nemur fjölgunin tugum þúsunda á síðustu tíu árum.. Það er ljóst að til að tryggja betra flæði umferðar og þar með aukin lífsgæði fólks á svæðinu er nauðsynlegt að byggja upp hágæðaalmenningssamgöngur eins og við þekkjum frá þeim löndum og borgum sem við berum okkur helst saman við. Góðar almenningssamgöngur eru ekki einungis mikilvægt loftslagsmál og brýnt til að draga úr svifryksmengun heldur létta þær verulega á kostnaði fjölskyldna þegar auðveldara verður að fækka bílum á heimili. Aukin áhersla á almenningssamgöngur er nefnilega ekki, eins og sumir halda fram, árás á fjölskyldubílinn. Betri almenningssamgöngur eru nauðsynlegar til þess að gera umferðina skilvirkari og betri. Nú þegar nýta höfuðborgarbúar um það bil 12 milljónir ferða í Strætó og er auðvelt að ímynda sér hversu mikið vandinn myndi aukast við að 30-35 þúsund manns bættust við á hverjum degi á götunum í fjölskyldubílum. Að sama skapi er augljóst að betri almenningssamgöngur draga úr umferðarþunga og þeim töfum sem eru vegna umferðarhnúta í dag.

Aukin áhersla á virka ferðamáta

Eftir því sem tíminn líður nýta stöðugt fleiri sér aðra samgöngumáta en bíl og almenningssamgöngur í daglegu lífi. Með bættum hjólastígum hafa möguleikarnir til að hjóla til og frá vinnu aukist verulega, bæði á hefðbundnum reiðhjólum en einnig á rafhjólum og rafhlaupahjólum. Þróunin hefur verið hröð síðustu árin frá því að skrifað var undir samgöngusáttmálann og því hefur krafan um aukna áherslu á uppbyggingu hjólastíga aukist í takti við aukna notkun.Bættar samgöngur þýða aukin lífsgæði

Samgöngusáttmálinn er risastórt verkefni. Hann er í stöðugri þróun eins og eðlilegt er með svo umfangsmiklar framkvæmdir. Um sáttmálann og þá framtíðarsýn sem hann boðar er breið sátt enda felast í honum gríðarlegar umbætur. Bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu þýða aukin lífsgæði fyrir íbúa svæðisins. Þær stytta umferðartímann, minnka mengunina og búa til betri tengingar fyrir fólk og fyrirtæki á svæðinu. Mikilvægt er að íbúar höfuðborgarsvæðisins geti valið sér ferðamáta, hvort sem það er fjölskyldubíllinn, almenningssamgöngur eða gangandi og hjólandi. Um þessa fjölbreytni snýst samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar. Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs og oddviti Framsóknar í Reykjavík, Orri Vignir Hlöðversson, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar í Kópavogi, Valdimar Víðisson, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar í Hafnarfirði, Brynja Dan, oddviti Framsóknar í Garðabæ, Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar í Mosfellsbæ.