Fagnað Gestir á herrakvöldi Lionsklúbbsins Njarðar skemmta sér jafnan vel enda er þeim ekki beint í kot vísað.
Fagnað Gestir á herrakvöldi Lionsklúbbsins Njarðar skemmta sér jafnan vel enda er þeim ekki beint í kot vísað.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Kvöldið er opið fyrir herramenn á öllum aldri. Við gerum okkur vonir um að það verði í salnum eitthvað á þriðja hundruð manns,“ segir Daníel Þórarinsson, formaður herrakvöldsnefndar Lionsklúbbsins Njarðar

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Kvöldið er opið fyrir herramenn á öllum aldri. Við gerum okkur vonir um að það verði í salnum eitthvað á þriðja hundruð manns,“ segir Daníel Þórarinsson, formaður herrakvöldsnefndar Lionsklúbbsins Njarðar.

Eitt glæsilegasta herrakvöld landsins er einmitt herrakvöld Lionsklúbbsins Njarðar sem hefur verið haldið árlega í rúm 60 ár. Það verður haldið um aðra helgi, föstudaginn 24. mars í Gullteigi á Grand Hóteli. Kvöldið verður mjög glæsilegt, gestir spariklæddir, frábær matur og dagskrá að sögn Daníels.

Guðrún Árný treður upp

„Þetta er hápunktur starfsins hjá klúbbnum,“ segir hann stoltur. Í Lionsklúbbnum Nirði eru rúmlega 50 félagar og segir Daníel að síðustu ár hafi yngri menn bæst í hóp félagsmanna. Herrakvöldið er þó opið öllum herrum eins og áður segir. „Undirtektir hafa verið afar góðar í ár enda verður þarna bæði glæsileiki og gaman, mikil ánægja og það er alltaf mikið hlegið.“

Á herrakvöldinu gera gestir vel við sig í mat og drykk auk þess sem boðið er upp á skemmtiatriði. Veislustjóri og uppboðshaldari á vinsælu listaverkauppboði verður hinn hnyttni Bragi Valdimar Skúlason, Ari Eldjárn skemmtir gestum með uppistandi og Guðrún Árný syngur og leikur á píanó.

Styrkja Grensásdeildina

Heiðursgestur í ár verður Gylfi Þór Þorsteinsson sem getið hefur sér gott orð sem stjórnandi farsóttarhúsa Rauða krossins á tímum kórónuveirunnar og var nú síðast í aðgerðastjórn vegna móttöku flóttamanna frá Úkraínu.

Daníel getur þess að nánari upplýsingar megi finna á Facebook með því að slá upp „Herrakvöld Lionsklúbbsins Njarðar“ eða hafa samband á lkl.njordur@gmail.com. Miðaverð er 19.900 krónur og segir Daníel að hringborðin í Gullteigi hafi hentað vel fyrir vinahópa sem vilja koma saman við þetta tilefni.

Listaverkauppboðið sem Bragi Valdimar stýrir varð fljótlega að föstum lið í starfi klúbbsins eftir stofnun hans og fer nú fram í 57. sinn að sögn Daníels. Afrakstur listaverkauppboðsins hefur reynst grundvöllur fjölþættra verkefna og nemur samtals um 220 milljónum króna það sem af er þessari öld, reiknað til núvirðis. Á þessum langa tíma hefur Njörður starfað náið með helsta myndlistarfólki landsins og í ár bætist einn fremsti listamaður Íslands, Sigurður Guðmundsson, í hópinn með skúlptúrverk. Hagnaði af listaverkauppboðinu verður varið til að styrkja Grensásdeild Landspítala á 50 ára afmæli deildarinnar nú í vor.

Ánægjulegt að geta hjálpað

Auk listaverkauppboðs er gestum boðið að taka þátt í happdrætti og hagnaður af því verður nýttur til að styrkja Alzheimer- og Parkinsonsamtökin. „Herrakvöldið er orðið þekkt í listamannaheiminum enda elsta uppboð listaverka á landinu. Við erum afskaplega stoltir af því. Okkur finnst við heppnir að geta gert eitthvað fyrir annað fólk. Við erum þess umkomnir og þá er sjálfsagt að gera það,“ segir Daníel.

Listaverkauppboð

Trufflan í aðalhlutverki

Aðalgripurinn á listaverkauppboðinu þetta árið er eftir Sigurð Guðmundsson. Skúlptúrinn eftir Sigurð er úr seríunni „like it is“. Þar líkir hann eftir fínustu belgísku súkkulaði trufflum með eitthvað um 2.000 faldri stækkun. „Það er rétt sem Forrest Gump hafði eftir móður sinni. Lífið er eins og konfektkassi, þú veist aldrei hvað þú færð. Hérna veistu þó að þú færð aprikósu,“ segir Daníel.

Aðrir listamenn sem eiga verk á uppboðinu eru í stafrófsröð: Bjarni Þór Bjarnason, Gunnella, Hallgrímur Helgason, Kristinn Már Pálmason, Ólöf Björg Björnsdóttir, Pétur Gautur, Ragnar Páll, Sossa, Steinunn Þórarinsdóttir, Tolli, Úlfar Örn Valdemarsson, Þorri Hringsson, Þorvaldur Jónsson, Þórdís Daníelsdóttir, Þórunn Bára Björnsdóttir, Þrándur Þórarinsson og Æja.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon