Petrína Sigurðardóttir (Peta) var fædd í Vestmannaeyjum 8. febrúar 1955.

Hún varð bráðkvödd á heimili sínu í Espergærde í Danmörku 24. febrúar 2023.

Foreldrar hennar voru Sigurður Þorberg Auðunsson vélstjóri, f. 1921, d. 2007, og Guðmunda Björgvinsdóttir húsmóðir, f. 1927, d. 2015.

Systur Petrínu eru Björghildur, f. 1945, Jóna f. 1946, Auður, f. 1948, d. 1985, og María, f. 1950.

Eiginmaður hennar er Guðni Friðrik Gunnarsson, f. í Reykjavík 8. apríl 1953. Þau giftu sig í Þorlákshöfn 24. maí 1997.

Dætur hennar og stjúpbörn eru:

1. Lilja Björk, f. í Reykjavík 15. október 1974. Eiginmaður hennar er Kristinn Hörður Guðmundsson, f. 1972, og börn þeirra Þorsteinn Hanning, f. 1998, Jasmín Kamilla, f. 2000 og Óliver Skorri, f. 2003.

2. Elín Rut, f. í Vestmannaeyjum 14. apríl 1979. Eiginmaður hennar er Jonas Lønborg, f. 1980 og dætur þeirra Luna Ellý, f. 2016 og Ayo Esther, f. 2019.

3. Sandra Dögg, f. í Vestmannaeyjum 25. febrúar 1989. Sambýlismaður hennar er Tómas Þór Jónsson, f. 1989 og börn þeirra eru Benjamín Nói, f. 2017 og Sofía Ósk, f. 2021.

4. Haraldur, f. í Reykjavík 29. maí 1975.

5. Guðný Stella, f. í Reykjavík 11. nóvember 1979. Eiginmaður hennar er Helgi Guðmundsson, f. 1978 og synir þeirra eru Skarphéðinn Gunnar, f. 2010, Hafþór Kristberg, f. 2014 og Jónatan Örn, f. 2023.

6. Ágúst Ingi, f. í Reykjavík 22. október 1992. Sambýliskona hans er Hrund Jóhannesdóttir, f. 1992. Þau eiga von á barni í byrjun apríl.

Petrína vann lengst af við fiskvinnslustörf hjá Vinnslustöð Vestmannaeyja, síðan (frá 1996) sem skólaliði við Barnaskóla Vestmannaeyja og Selásskóla í Reykjavík. Síðustu starfsárin (frá 2016) vann hún hjá Hótel Vestmannaeyjum.

Við starfslok 2020 fluttist hún ásamt eiginmanni til Espergærde í Danmörku þar sem hún lést.

Útför hennar fer fram frá Esajaskirkju í Kaupmannahöfn í dag, 16. mars 2023, klukkan 13.

Árið var 1993. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að flytja til Eyja í kjölfar mikilla breytinga í mínu lífi. Þetta var í maíbyrjun og ég fluttur heim til pabba og mömmu.

Nokkrum dögum síðar var ég kominn til vinnu hjá VSV, var settur í saltfiskinn og þar var við vinnu Petrína Sigurðardóttir (Peta), sem síðar varð lífsförunautur minn í nær 30 ár. Þekktumst lítillega.

Peta stundaði um tíma frjálsar íþróttir með Íþróttafélaginu Þór. Einnig var hún mjög virk í foreldrastarfi ÍBV, þegar stelpurnar voru í boltanum.

Það tók langan tíma að ná athygli hennar, en tókst loks.

Um Þjóðhátíð náði ég loksins athygli hennar og var fluttur til hennar og þriggja dætra hennar í september. Foldahraun 42 3B.

Stelpurnar hafa sagt mér, að þær hafi ekkert verið yfir sig hrifnar að fá „kall“ inn á heimilið, enda áttu þær samband sem var mjög sérstakt, nánast eins og fjórar systur byggju þar í blíðu og stríðu.

Vinnudagur Petu var oft langur og eldri stelpurnar tóku virkan þátt í öllu á heimilinu. Peta var „kletturinn“ í lífi stelpnanna og einnig mín, alla okkar sambúð.

Mikið rask var á okkur næstu árum, flutningar eftir flutninga. 1996 fluttu þær tvær eldri til Reykjavíkur og 1997 keyptum við okkur íbúð á Faxastíg 35 í Eyjum.

Þegar von var á fyrsta barnabarni Petu minnar árið 2000, ákváðum við að flytja til Reykjavíkur. Peta fór að vinna í Selásskóla og fékk að njóta þess að vera amma. Jasmín naut góðs af, hve ömmu þótti yndislegt að stússast með hana.

Nokkru síðar flutti Lilja og fjölskylda til Danmerkur, síðan Elín og svo Sandra og Tómas. Peta studdi þessar ákvarðanir þeirra, en ég fann alltaf hvað henni þótti vont að hafa þær svona langt í burtu.

2016 fluttum við aftur til Eyja, Peta mín var ekki alveg sátt við þetta. Við keyptum íbúð í Foldahrauni 42 og vorum því búin að fara hring saman í lífinu.

1. nóvember 2011 var stór dagur í mínu lífi, þegar ég fékk að ættleiða stelpurnar, að þeirra ósk. Í árslok 2019 og byrjun 2020 ákváðum við að flytja til Danmerkur og komum við til Espergærde 14. ágúst 2020. Ég orðinn heldri borgari og hún farin á eftirlaun. Amma Peta var í essinu sínu, barnabörnin hér orðin fimm og tvö bónus í Gautaborg.

Þrátt fyrir Covid var allt gjörbreytt og við gátum einbeitt okkur að börnunum okkar.

Ein lítil dama bættist við 2021 og hún og önnur barnabörn voru fljót að sjá „gullið í ömmu“. Breytt veðurfar hafði mikil áhrif á slitinn líkama Petu minnar, yndislegt var í hitanum og var hún, eins og við, farin að hlakka til sumarsins.

En þá kom kallið, hún var hrifin frá okkur og „kletturinn“ okkar horfinn í sumarlandið.

Eftir sitjum við og minnumst yndislegrar eiginkonu, mömmu, tengdamömmu og ömmu.

Ég veit að Peta mín naut lífsins í botn þessi tvö og hálft ár hér í Espergærde. Í sumarlandinu hittir hún fyrir okkar fólk, Sigga, Mundu, Stellu og Gunnar foreldra okkar. Einnig Auði systur sína og Óskar móðurbróður.

Takk elsku Peta mín fyrir allt, og megi algóður Guð styrkja okkur í sorginni.

Þinn eiginmaður,

Guðni Friðrik.

Elsku mamma.

Orð geta ekki lýst þeim mikla missir og söknuði sem við finnum fyrir í þessu lífi án þín. Á einu augnabliki breyttist lífið að eilífu, og við líka. Núna byrjar annar kafli og okkur vantar ekkert meira en þig hér hjá okkur til að komast í gegnum þann kafla.

Þú lifðir fyrir fjölskylduna. Allt sem þú gerðir, gerðir þú fyrir okkur. Þú gafst okkur svo mikið og það allra verðmætasta er að þú gafst okkur hver aðra. Samband okkar mæðgna var einstakt, fjögur hjörtu sem slógu sem eitt. Það leið ekki dagur þar sem við töluðum ekki saman. Það var fyrirfinnanlegt ef eitthvað var að gerast og eina okkar vantaði. Það er mjög fyrirfinnanlegt núna að eina okkar vantar. Hjörtun þín munu halda áfram að slá, þótt þau slái ekki eins og áður, og bera minninguna þína.

Í hjarta mínu er lítið ljós,

sem logar svo skært og rótt.

Í gegnum torleiði tíma og rúms

það tindrar þar hverja nótt.

Það ljósið kveiktir þú, móðir mín,

af mildi, sem hljóðlát var.

Það hefur lifað í öll þessi ár,

þótt annað slokknaði þar.

Og þó þú sért horfin héðan burt

og hönd þín sé dauðakyrr,

í ljósi þessu er líf þitt geymt,

— það logar þar eins og fyrr.

Í skini þess sífellt sé ég þig

þá sömu og þú forðum varst,

er eins og ljósið hvern lífsins kross

með ljúfu geði þú barst.

Af fátækt þinni þú gafst það glöð,

— þess geislar vermdu mig strax

og fátækt minni það litla ljós

mun lýsa til hinsta dags.

(Jóhannes úr Kötlum)

Takk fyrir allt mamma mín, ég elska þig og sakna þín.

Þín,

Sandra Dögg.

Elsku mamma.

Það eru ekki til nægileg orð til að lýsa öllu því sem þú gerðir fyrir okkur systurnar. Við verðum þér ævinlega þakklátar fyrir allt sem þú gafst okkur. Allt sem þú gafst af þér.

Þú gafst okkur líf, og gafst okkur hamingjusama æsku.

Þrátt fyrir að við hefðum aldrei haft mikið milli handanna léstu okkur ekki finna fyrir því. Við áttum alltaf hver aðra.

Á stundum var mikið streð, þú áttir svo miklu meira skilið en lífið gaf þér. En þú varst ánægð með þitt, fjölskyldan var þér allt, alveg fram að það síðasta.

Þú varst aldrei hamingjusamari en í faðmi fjölskyldunnar, með manninum þínum og með barnabörnunum sem nú eru orðin 11.

Síðustu 2 og hálft ár hafa verið yndisleg, við vorum heppnar að fá ykkur Guðna til okkar og upplifa árstíðirnar saman. Þú áttir að fá að vera hjá okkur lengur og njóta loksins lífsins sem eldri borgari, eiginkona, mamma og amma.

Guð þig leiði sérhvert sinn

sólarvegi alla.

Verndarengill varstu minn

vissir mína galla.

Hvar sem ég um foldu fer

finn ég návist þína.

Aldrei skal úr minni mér

mamma, ég þér týna.

(Jón Sigfinnsson)

Ástin læðist á tánum þegar hún kemur, en skellir hurðum þegar hún fer.

Takk mamma. Ég elska þig.

Elín Rut.

Svo margt að segja, en svo fá orð.

Elsku mamma mín.

Takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér, ég mun sakna þín á hverjum degi.

Snert hörpu mína, himinborna dís,

svo hlusti englar guðs í Paradís.

Við götu mína fann ég fjalarstúf

og festi á hann streng og rauðan skúf.

Úr furutré, sem fann ég út við sjó,

ég fugla skar og líka úr smiðjumó.

Í huganum til himins oft ég svíf

og hlýt að geta sungið í þá líf.

Þeir geta sumir synt á læk og tjörn,

og sumir verða alltaf lítil börn.

En sólin gyllir sund og bláan fjörð

og sameinar með töfrum loft og jörð.

Ég heyri í fjarska villtan vængjaþyt

Um varpann leikur draumsins perluglit.

Snert hörpu mína, himinborna dís,

og hlustið, englar guðs í Paradís.

(Davíð Stefánsson)

Lilja Björk.

Við vorum heppin að fá Petu inn í líf okkar og erum óendanlega þakklát fyrir að hún og pabbi fundu hvort annað. Það var ekki auðvelt fyrir hana að fá þrjú aukabörn, þar af tvo unglinga og eitt ungt barn en hún tók okkur öllum opnum örmum. Við vorum satt best að segja ekki öll auðveld viðureignar fyrstu árin en hún sýndi okkur bara þolinmæði og væntumþykju. Með tímanum þróaðist á milli okkar djúp vinátta.

Peta var mjög góð í að hlusta og það var alltaf hægt að treysta á hana þegar ræða þurfti erfiða hluti. Hún hafði góða nærveru og var einstaklega barngóð. Við höfum átt óteljandi góðar stundir saman í þremur löndum.

Þau hjónin gerðu svolítið sem er óvenjulegt hjá fólki á efri árum. Þau seldu hús og húsgögn í Vestmannaeyjum og fluttu til Danmerkur og hófu nýtt líf. Þetta krefst mikils hugrekkis. Þau gátu notið nokkurra ára þar sem þau bjuggu í sama bæ og börn og barnabörn. Það er gleðjandi að hún fékk að upplifa þennan nána tíma með fjölskyldunni.

Hvíl í friði elsku Peta

Guðný, Ágúst og Haraldur, makar og barnabörn.

Elsku Petrína mín.

Það var skrítið hvað ég svaf einkennilega aðfaranótt 25. febrúar síðastliðins. Svo einkennilega að ég bylti mér mikið og svefninn var slitróttur. Ég endaði á því að grípa símann minn til að lesa svolítið fyrst svefninn vildi ekki koma. Þegar ég opnaði símann sá ég að mín biðu skilaboð frá Guðna og opnaði þau. Þar sá ég og fékk fréttirnar um að þú værir farin frá okkur. Ég þurfti að marglesa skilaboðin því ég trúði ekki eigin augum. Það bara gat ekki verið rétt sem ég var að lesa.

Við kynntumst í Selásskóla haustið 2007. Ég var nýútskrifaður kennari og þú tókst alveg sérstaklega vel á móti mér þegar ég hóf þar vinnu. Þú varst hlý, hjálpsöm og alltaf nærri. Þú hjálpaðir mér mikið með börnin sem ég kenndi. Þegar líða fór á þróaðist með okkur góður vinskapur og við spjölluðum oft þegar við hittumst. Stundum áttum við sama kaffitíma og þá sagðir þú mér sögur af dætrum þínum og lífinu þeirra úti. Það var alltaf gaman að hlusta á þig og í þau skipti sem þú fórst út til að hitta þær hlakkaðir þú alltaf mjög mikið til að fara. Þegar heim var komið sagðir þú mér svo ferðasöguna og ég hugsaði stundum, „mikið væri nú gaman að hitta fólkið hennar Petrínu“.

En við unnum ekki bara saman á daginn heldur fórum við á tímabili líka saman í ræktina. Við vöknuðum eldsnemma til að mæta í Metabolic Árbæ þrisvar sinnum í viku. Þú með elsku Guðna þínum og ég með dóttur minni henni Aðalbjörgu Brynju. Þar hlupum við um, sveifluðum ketilbjöllum og köðlum, rifum í lóð og sippuðum. Hlupum í gegnum stiga, slömmuðum sandbjöllum, stukkum og lyftum þungu. Mikið var það gaman og frábært að æfa með þér.

Ég man að stundum varstu með verki í höndunum og fingurnir urðu svolítið stífir. Kuldinn fór illa í fingurna og þegar þú áttir afmæli og fórst út til Danmerkur til að halda upp á það laumaði ég litlum pakka á Guðna. Í pakkanum voru vettlingar sem ég prjónaði svo þér yrði hlýtt á höndunum.

Síðan kom að því að ég hætti í Selásskóla og fór að kenna eldri börnum í öðrum skóla. Þrátt fyrir það héldum við vinskapinn en því miður varð lengra og lengra á milli samtala. Þú heimsóttir mig þó og ég heimsótti þig. Seinna fluttu þið til Eyja og við hjálpuðum ykkur við flutningana. Við komum einu sinni til ykkar þangað. Aðalbjörg mín fékk svo að lúlla hjá ykkur eina verslunarmannahelgi með kærastanum sínum og hún minnist reglulega á það hversu gott var að vera hjá ykkur. Ég átti svo alveg eftir að heimsækja ykkur til Danmerkur og það var á to do-listanum. En því miður er það svo að þetta verður eitt af þeim atriðum sem ekki nást.

Elsku eftirlifendur, hugur minn er hjá ykkur.

Ljós Petrínu lifir og minning um góða konu mun aldrei gleymast.

Sofía Jóhannsdóttir.

Nú er komið að kveðjustund, elsku Peta okkar, því miður allt of snemma. Þú byrjaðir að vinna hjá okkur Magga á Hótel Vestmannaeyjum í maí 2016. Þvílíkur fengur fyrir okkur að fá þig til starfa. Samviskusöm og aldrei kvartaðir þú þótt vinnudagurinn hafi stundum verið langur. Þú sást um þvottinn og gerðir það með stakri prýði. Gott var að koma til þín í þvottahúsið í spjall og var þá oft mikið hlegið því þú varst húmoristi.

Sagðir þú okkur frá dætrum þínum og fjölskyldum þeirra í Danmörku sem þú saknaðir mikið. Barnabörnin áttu hug þinn allan og mörg snöppin sáum við og samglöddumst þegar fjölgaði í hópnum.

Samband ykkar Guðna var ástríkt. Þið fluttuð til Danmerkur 2020. Við skildum við ykkur á sama tíma og okkur fannst erfitt að missa yndislegan starfsfélaga og vinkonu.

Fyrir jólin 2021 fórum við starfsfólkið til Danmerkur og áttum með ykkur yndislega daga.

Þið heimsóttuð Eyjarnar síðastliðið haust og gistuð hjá okkur á hótelinu. Þú varst hress og kát. Það var trú okkar að við ættum eftir að hittast aftur fljótlega. En því miður var þetta síðasta faðmlagið okkar. Takk fyrir samfylgdina, elsku Peta.

Elsku Guðni og fjölskylda, missir ykkar er mikill. Megi Guð vera með ykkur og styrkja í sorginni.

Adda og Magnús

(Maggi)