Netverslun Verslanir á EES-svæði senda ekki allar vörur til Íslands.
Netverslun Verslanir á EES-svæði senda ekki allar vörur til Íslands. — Ljósmynd/Colourbox
Að svo stöddu eru ekki áformaðar aðgerðir til að sjá til þess að erlendar verslanir á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) sendi vörur sínar til Íslands. Þetta kemur fram í svari Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og við­skiptaráðherra, við fyrirspurn…

Að svo stöddu eru ekki áformaðar aðgerðir til að sjá til þess að erlendar verslanir á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) sendi vörur sínar til Íslands.

Þetta kemur fram í svari Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og við­skiptaráðherra, við fyrirspurn Indriða Inga Stefánssonar, varaþingmanns Pírata, á Alþingi.

Indriði spurði hvort ráðherra teldi mögulegt að beita sér fyrir auknu aðgengi íslenskra neytenda að evrópskum netverslunum á EES-svæðinu, í ljósi þeirra aðgangshindrana sem þar sé oft að finna, svo sem að verslanir sendi ekki vörur sínar til Íslands.

Í svarinu segir, að lög um ráðstafanir gegn óréttmætri takmörkun á netumferð o.fl. hafi tekið gildi í desember 2020. Með lögunum hafi ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og Evrópusambandsins, um ráðstafanir gegn óréttmætum landfræðilegum takmörkunum á netumferð og annarri mismunun byggðri á þjóðerni viðskiptavinar, búsetu hans eða því hvar hann hefur staðfestu á innri ­markaðnum, verið veitt lagagildi. Markmið laganna sé að koma í veg fyrir óréttmætar takmarkanir á netumferð og aðra mismunun sem byggist á þjóðerni, búsetu eða staðfestu viðskiptavinar og að efla netviðskipti yfir landamæri innan EES.

Í svarinu er jafnframt bent á, að reglugerðin skyldi seljanda ekki til að senda vörur yfir landamæri til annars EES-ríkis. Það sé undir hverjum og einum seljanda komið að ákveða til hvaða ríkja hann sendir vörur sínar. Er vakin athygli á að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi gefið út leiðbeiningar um efni reglugerðarinnar sem finna megi á vefsvæði framkvæmdastjórnarinnar.