Gunnar Hans Pálsson fæddist í Reykjavík 17. desember 1935. Hann lést á Landakotsspítala í Reykjavík 2. mars 2023.

Foreldrar hans voru Páll Þorsteinsson verkamaður frá Hofi í Öræfum, f. 7.4. 1901, d. 4.9. 1981, og Guðrún Hansdóttir húsmóðir frá Þúfu í Landsveit, f. 21.7. 1895, d. 15.10. 1980. Systir Gunnars er Sigrún Steinþóra Pálsdóttir, f. 6.10. 1938. Systir Gunnars sammæðra var Bryndís Valdimarsdóttir, f. 11.2. 1924, d. 16.11. 1929.

Eiginkona Gunnars er Sesselja Guðrún Kristinsdóttir ritari, f. 10.2. 1935. Foreldrar hennar voru Kristinn Ágúst Eiríksson járnsmiður, f. 19.8. 1908, d. 6.11. 1972 og Helga Ólöf Sveinsdóttir húsmóðir, f. 31.10. 1910, d. 17.3. 1977. Gunnar og Sesselja giftust 5. september 1959. Þau eiga tvö börn: 1) Guðrún Gunnarsdóttir matvælafræðingur, f. 19.3. 1957. Maki Þór Sigurjónsson byggingarverkfræðingur, f. 2.11. 1955. Börn þeirra eru: a) Hrund Þórsdóttir, fjölmiðlakona og upplýsingafulltrúi, f. 11.6. 1981. Maki Óskar Páll Elfarsson, vörustjóri og ljósmyndari, og eiga þau tvö börn, Sunnu Karen sjö ára og Sölva Berg fjögurra ára. b) Freyr Þórsson véliðnfræðingur, f. 21.7. 1986. Maki Eva Hlín Hermannsdóttir líffræðingur og eiga þau þrjá syni, Ísak Hrafn tólf ára, Bjarka Fannar átta ára og Arnar Jökul þriggja ára. c) Sunna Þórsdóttir, f. 23.3. 1990, d. 20.2. 2004. 2) Steinþór Örn Gunnarsson húsasmíðameistari, f. 19.2. 1973. Maki Sonja Björk Dagsdóttir grunnskólakennari, f. 9.12. 1974. Börn þeirra eru: a) Birnir Mar Steinþórsson, f. 17.5. 2011 og b) Dagmar Steinþórsdóttir, f. 13.1. 2013.

Gunnar ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur og gekk í Miðbæjarskólann, Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og Menntaskólann í Reykjavík. Hann lauk síðan meistaraprófi í byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands og Den Polytekniske Læreanstalt í Kaupmannahöfn (DTU í dag), með sérnám í hljóðvist og lögnum.

Gunnar stofnaði verkfræðistofuna Önn 1973 og rak hana til dánardags, lengst af ásamt félaga sínum og skólabróður, Úlfari Haraldssyni byggingarverkfræðingi. Gunnar var auk þess stundakennari við Tækniskóla Íslands og stundakennari og aðjúnkt við verkfræðideild Háskóla Íslands.

Áhugamál Gunnars voru fjölbreytt. Hann var mikill hagleiksmaður, fékkst til að mynda við skrautskrift, bókband og smíðar. Hannaði hann og byggði heimili þeirra Sesselju í Hofgörðum auk þess sem þau reistu sér sumarbústað við Þingvallavatn. Hann var bókelskur, átti stórt bókasafn, var minnugur með afbrigðum og hafsjór af fróðleik um hin ýmsu málefni. Hann tók einkaflugmannspróf og frá sjötugsaldri stundaði hann golf og hafði mikla ánægju af.

Gunnar var alla tíð mjög virkur í félagsstörfum og var meðal annars meðal stofnfélaga Lionsklúbbs Seltjarnarness. Hann var öflugur félagi í Oddfellowreglunni í yfir 40 ár og var nýlega gerður að heiðursfélaga í stúku sinni.

Útför Gunnars verður gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 16. mars 2023, klukkan 11.

Eitt af fáu sem við vitum með vissu er að í lífi okkar verða breytingar. Sumar vega þyngra en aðrar og nú þegar afi er farinn veit ég að það hafa orðið kaflaskil.

Afi og amma á Nesinu hafa verið fasti í tilverunni. Akkeri. Hjá þeim höfum við alltaf verið velkomin. Afi hefði raunar helst viljað hafa okkur öll, afkomendurna, sem mest hjá sér. Þannig leið honum best. Hann dró sig kannski í hlé, sinnti sínu, grúskaði og dundaði. Sofnaði í stólnum sínum. En ef við vorum nærri, var hann ánægður.

Það sama gilti um Afasveit, sumarbústað afa og ömmu við Þingvallavatn. Ég mun aldrei gleyma rokinu, logninu, lyktinni og kyrrðinni. Afi að brasa, dytta að einhverju smáræði, negla eina spýtu. Sæll að hafa okkur nærri.

Afi var ekki maður margra orða en laumaði oft sposkur út úr sér meinfyndnum brandara. Rifjaði upp latneska frasa eða skondnar sögur. Romsaði jafnvel upp úr sér Gunnarshólma eins og hann lagði sig. Þvílíkt minni!

Þetta leiddist mér ekki og afi ýtti undir áhuga minn á bókum og íslenskri tungu. Þau eru eftirminnileg öll hádegin sem hann sótti mig í Ísaksskóla og við keyrðum saman út á Nes, hlustuðum á hádegisfréttir og ræddum lífið og tilveruna. Að vanda voru orðin ekkert endilega mörg, en þagnirnar voru líka mikilvægar.

Fyrir rúmum tveimur árum áttum við eftirminnilegar stundir saman við undirbúning flutninga úr Hofgörðunum. Þá fórum við í gegnum bókasafnið og það var ekkert smá safn. Hver bók skoðuð, margar ræddar. Örlög þeirra ákveðin. Þetta fannst afa erfitt og mér fannst gott að geta verið til staðar. Því afi var ekki mikið fyrir að biðja um hjálp. Grúskið leiddi líka í ljós dásamlegar ljósmyndir sem afi tók þegar Nóbelsskáldið kom til Íslands með Gullfossi. Nú njóta þær sín á vegg hjá bókunum mínum og ég veit að það gladdi afa.

Ég er búin að gera margar tilraunir til að skrifa þessa grein. Mig langar að ná utan um minningarnar, hlýjuna, söknuðinn og þakklætið. Skrifa réttu orðin. Koma tilfinningunni til skila. Sú staðreynd að greinin verður aldrei eins og ég vil hafa hana segir kannski mikið. Sumu verður ekki komið í orð svo vel sé.

Minningin um afa fylgir mér. Brosið í augum hans yljar mér. Nú höldum við áfram að skapa fallegar minningar með ömmu.

Afi, ég kveð þig að sinni, með hjartað fullt af þakklæti.

Þín

Hrund Þórsdóttir.

Fallinn er frá góður vinur og Oddfellow-bróðir, Gunnar H. Pálsson, eftir snarpa glímu við illvígan sjúkdóm. Fundum okkar bar fyrst saman í siglingu um Karíbahaf vorið 1997, en ég var þá fararstjóri á vegum Heimsklúbbs Ingólfs og Gunnar einn af forsvarsmönnum ferðafélaganna úr Oddfellow-stúkunni nr. 11, Þorgeiri, I.O.O.F. Um haustið var mér veitt innganga í stúkuna, en þá sat Gunnar í stjórn hennar. Það kom síðan í hans hlut að leiða mig fyrstu skrefin, þar til ég taldist fullnuma í fræðunum.

Br. Gunnar hafði til að bera flesta þá kosti sem prýða má góðan Oddfellowa. Hann hafði yfir sér virðulega framkomu og hlýlega nærveru og bjó yfir yfirgripsmikilli þekkingu á sögu Reglunnar, innviðum hennar og uppbyggingu og hafði djúpan skilning á boðskapnum um mannúðarstarf það og þá mannrækt, sem Oddfellow-reglan stendur fyrir. Þegar ég starfaði sem skrifstofustjóri hinnar óháðu Oddfellow-reglu á Íslandi, I.O.O.F. var gott að geta leitað til br. Gunnars um hvað eina sem kom upp á í starfinu og ég þurfti að leita skýringa á. Aldrei kom ég að tómum kofunum hjá br. Gunnari.

Br. Gunnar gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Oddfellow-regluna, sem ekki er ástæða til að telja upp hér. Ég vil þó sérstaklega nefna brennandi áhuga hans á að koma minjasafni Reglunnar í viðunandi horf er hann gegndi embætti stórskjalavarðar um skeið. Þess ber einnig að geta að br. Gunnar kunni þá list að binda inn bækur og blöð og það er honum að þakka að Oddfellow-reglan á nú innbundin öll tímarit, sem gefin hafa verið út á hennar vegum frá upphafi.

Eftirlifandi eiginkona Gunnars er Sesselja G. Kristinsdóttir, en hún hefur einnig verið virk í starfi Reglunnar, sem systir í Rebekkustúkunni nr. 1, Bergþóru. Þau hjón hafa verið afar samrýnd í störfum sínum fyrir Regluna, hvort heldur er í innra starfinu eða starfseminni utan funda, en til þess hefur verið tekið meðal okkar Þorgeirsbræðra hversu ötul þau hjón hafa verið að sækja hvers konar viðburði á vegum stúkunnar. Þá var br. Gunnar gjarnan með ljósmyndavél við höndina og festi á filmu það sem fyrir bar. Það er br. Gunnari að þakka að við Þorgeirsbræður eigum skjalfest á filmu flest það sem borið hefur til tíðinda í stúkunni á þeim rúmu 40 árum, sem hann hefur starfað í henni og rétt að geta í því sambandi að búið var að samþykkja að sæma hann 40 ára fornliðamerki stúkunnar síðastliðið haust.

Það er stórt skarð höggvið í raðir okkar Þorgeirsbræðra með fráfalli br. Gunnars. Hans verður sárt saknað um langa hríð sem kyndilbera alls þess fagra og góða sem Oddfellow-reglan stendur fyrir. Ég votta str. Sesselju og fjölskyldu þeirra mína dýpstu samúð.

Blessuð sé minning br. Gunnars H. Pálssonar.

Sveinn Kr. Guðjónsson.

Fallinn er nú frá öðlingurinn Gunnar Hans Pálsson, stofnfélagi í Lionsklúbbi Seltjarnarness 1983.

Hann var Melvin Jones-félagi 1993 og Lionsfélagi fyrsta áratugarins hjá Lionsklúbbi Seltjarnarness á tíu ára afmæli klúbbsins.

Hann var einstaklega dagfarsprúður og bóngóður. Tók öll verkefni að sér sem hann var beðinn um og leysti þau með stakri prýði.

Ég kynntist fyrst Gunnari er verslunin Ellingsen var að byggja í Ánanaustum. Hann kom að því verki með sína verkfræðistofu Önn, var einstakur fagmaður í öllu sem hann kom nálægt, allt gert fumlaust og af mikilli natni.

Í framhaldi af þessum kynnum fékk ég hann til að koma til liðs við okkur og gerast stofnfélagi í Lionsklúbbi Seltjarnarness.

Það var mikill happafengur fyrir okkur að fá hann til liðs við okkur, með 100% mætingu alla tíð og einstaklega mikill félagi og gekk til allra verka sem honum voru falin, ekki síður mjög úrræðagóður og kom með margar tillögur um hvernig mætti leysa úr verkefnum sem klúbburinn tók sér fyrir hendur.

Gunnars verður sárt saknað, blessuð sé minning hans.

f.h. Lionsklúbbs Seltjarnarness,

Steingrímur Ellingsen, stjórnarmaður í fyrstu stjórn Lionsklúbbs Seltjarnarness.