Guðjón Einarsson fæddist 11. april 1947. Hann lést 11. febrúar 2023.

Útför hans fór fram 23. febrúar 2023.

Góður vinur er genginn. Okkar kynni eru ekki mjög gömul en óskaplega góð. Fyrir rúmum tveimur áratugum festum við hjónin kaup á litlum sumarbústað austur í Hrunamannahreppi. Og dag einn þegar ég var, þarna niður í mýrinni, að baksa við að stækka svolítið veröndina birtist allt í einu skrafhreifur maður, spurði tíðinda um ætlanir mínar og hvaðan ég kæmi. Þarna var hann kominn ofan af þurrum og útsýnismiklum hólnum hjá sér, niður í blauta mýrina til mín. Við settumst niður á burðarbita verandarinnar og teyguðum fyrsta bjórinn. Seinna urðu þeir fleiri. Guðjón sagðist hann heita og eftir það fékk hann kenniafnið „Guðjón á Hólnum“ hjá mér og fjölskyldu minni. Ásgarður hét bústaður hans og stóð hæst allra bústaða í frístundabyggðinni, enda var Guðjón einn frumbyggjanna og hafði getað valið sér og sínum lóð. En Guðjón var ekki einn. Hann átti sína Ellu og strákana og þegar allir voru mættir var ekki alltaf hljótt í hverfinu. Samband Ellu og Guðjóns við synina var einstakt, þau voru ekki bara foreldrar, heldur líka þeirra bestu vinir. Þessi fjölskylda bar alltaf með sér líf og gleði í frístundabyggðina.

Það var Guðjóni Einarssyni ekki eðlilegt að ganga hljótt með veggjum og hverfa í fjöldann. Nær væri að segja að fáum hafi dulist návist hans, því lífleg framkoman bar með sér fjör, gleði og spjall. Hann kom til dyranna eins og hann var klæddur, heill í skoðunum sínum og sjaldnast þurfti langt samtal til að greina pólitískt landslagið. Kyrrstaða var honum ekki eðlileg. Hann var síkvikur milli vina og vandamanna að fylgjast með og sinna samskiptum. Hann þekkti vel til í sveitinni og í gegnum vináttu við hann hef ég náð að kynnast þar mörgu afbragðsfólki.

Áður en leiðir okkar lágu saman hafði hann verið farsæll aflaskipstjóri og þó hann væri nú kominn í land átti sjórinn og sjómennskan hug hans allan. Hann var óhemju fróður um sjósókn og þekkti vel til í sjávarútvegi og í höfnum landsins. Hvers kyns veiðimennska, sjálfsþurftarbúskapur og fæðuöryggi heimilisins voru ríkir eiginleikar í fari hans. Kartöflu- og grænmetisræktunin var þar stór þáttur og ég óttast að falleg kartöflugrösin komi til með að tapa hluta af sínum sjarma við fráfall hans. Þó hann hafi nú um stund búið einn til nokkurra ára, kæmi ekki á óvart að það taki fjölskyldur sonanna margan matartímann að nýta aðdrættina sem geymdir eru í frystiskápum hans.

En fæst lifum við án áfalla og það varð Guðjóni og fjölskyldunni allri erfitt þegar hann missti yngsta son sinn og eiginkonuna Ellu með stuttu millibili fyrir nokkrum árum. En Guðjón bar harm sinn vel þó viðkvæmni gætti á stundum. Ég mun sakna þess að heyra ekki lengur hratt fótatakið á veröndinni og útidyrahurðinni hrundið upp án frekari viðvörunar. Já, Guðjóns verður víða saknað og ósk mín er að Guð gefi fleyi hans góðan byr inn í Sumarlandið.

Við Þóra sendum sonum hans og fjölskyldum þeirra okkar bestu samúðarkveðjur og minnum á að sorg og söknuður fylgir þeim einum sem hafa góðs að minnast.

Með kærleikskveðju úr Kjóabyggð,

Ingjaldur Ásvaldsson.