Akureyri Það var glatt á hjalla við setningu þings Sambands sveitarfélaga í fyrrasumar, en þar sátu 152 fulltrúar frá 63 sveitarfélögum landsins.
Akureyri Það var glatt á hjalla við setningu þings Sambands sveitarfélaga í fyrrasumar, en þar sátu 152 fulltrúar frá 63 sveitarfélögum landsins. — Morgunblaðið/Margrét Þóra Þórsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brennidepill Andrés Magnússon andres@mbl.is Talsverður titringur er innan Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna ráðningar nýs framkvæmdastjóra þess, en senn lætur Karl Björnsson af störfum fyrir aldurs sakir, eftir 15 ára farsælt starf hjá sambandinu.

Brennidepill

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Talsverður titringur er innan Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna ráðningar nýs framkvæmdastjóra þess, en senn lætur Karl Björnsson af störfum fyrir aldurs sakir, eftir 15 ára farsælt starf hjá sambandinu.

Á stjórnarfundi í janúar var ráðning nýs framkvæmdastjóra sambandsins á dagskrá, og kemur fram í fundargerð að samþykkt hafi verið að fela Heiðu Björg Hilmisdóttur formanni og varaformanninum Jóni Birni Hákonarsyni að undirbúa auglýsingu og þess háttar, en jafnframt áskilið að auglýsingin yrði borin undir stjórnina.

Fyrir mánuði var svo birt auglýsing um starfið og samið við mannauðsráðgjafafyrirtækið Attentus um að sjá um ferlið. Umsóknarfrestur var upphaflega aðeins 9 dagar, en eftir að athugasemdir voru gerðar í stjórn var hann lengdur um viku.

45 manns munu hafa sótt um starfið, enda um auðugan garð að gresja á sveitarstjórnarstiginu, en ósk Morgunblaðsins um að fá umsækjendalistann var hafnað af formanni sambandsins.

Þau Heiða Björg og Jón Björn tóku hins vegar að sér að grisja þann hóp niður í tíu manns, sem svo voru boðaðir í viðtöl, með það fyrir augum að eftir stæðu þrír, sem stjórnin fengi svo að kjósa á milli.

Sjálfstæðismenn í stjórninni og ýmsir sveitarstjórnarmenn utan hennar hafa í ljós óánægju með það fyrirkomulag og telja þau fara út fyrir það verkefni sem þeim var falið, en eru ófúsir til þess að ræða það opinberlega, enda stjórnin bundin trúnaði.

Horft til framtíðar

Sveitarstjórnarmaður á Suðurlandi taldi þetta þó ekki aðeins snúast um það að verið væri að efna eitthvert gamalt samkomulag. „Samband íslenskra sveitarfélaga á að vera samstarsvettvangur, en ef það er verið að nota það til þess að búa til einhver pólitísk vígi og teikna upp samstarfsmynstur inn í framtíðina, þá er verið að eyðileggja þennan mikilvæga vettvang.“

Heimildarmenn Morgunblaðsins segja auðsætt að ráða eigi framsóknarmanninn Arnar Þór Sævarson, aðstoðarmann Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, og segja að það kunni jafnvel að vera gert svo skjótt sem á morgun, föstudag.

Þar eru ekki gerðar athugasemdir við manninn, heldur fremur aðferðina, en eins stöldruðu margir viðmælenda blaðsins við nöfn ýmissa umsækjenda, sem staðhæft er að hafi ekki komist í gegnum nálarauga formannsins og varaformannsins. Þar sem umsóknarferlið stendur enn yfir og umsækjendalistinn hefur ekki fengist afhentur, hefur ekki verið unnt að fá neitt staðfest í þeim efnum, en þar á meðal voru ýmsir, sem óhætt er að segja að búi yfir yfirburðareynslu til þess að gegna starfi sem þessu.

Fari svo að Arnar Þór verði ráðinn væri þó ekki aðeins verið að efna gömul fyrirheit um einhvers konar helmingaskipti í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, líkt og staðhæft er. Reyndur bæjarstjóri bendir á að meirihlutasamstarf Framsóknarflokks og Samfylkingar í Reykjavík hafi verið grundvöllur þess, en um leið geti það verið upphafið að frekara samstarfi flokkanna, fyrst á sveitarstjórnarstiginu en síðar í landsmálum. Minnt er á að Ásmundur Einar Daðason hafi ekki farið dult með áhuga sinn á samstarfi til vinstri og sagt að hann sé lykilmaður í þessum efnum.

Sambandið

Æ sér gjöf
til gjalda

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingar, var í fyrra kjörin formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga; sigraði Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði með 3 atkvæða mun. Samfylkingin á aðeins 27 sveitarstjórnarmenn, en skömmu áður hafði nýr meirihluti Samfylkingar og Framsóknar verið myndaður í Reykjavík og á þinginu studdu framsóknarmenn óvænt Heiðu.

Altalað var að eitthvað hefði þetta kostað og nefnt að samið hefði verið um að auk varaformennsku fengi Framsókn framkvæmdastjórastöðuna. Fullyrt var þá þegar að Arnari Þór Sævarssyni, aðstoðarmanni Ásmundar Einars Daðasonar, hefði verið lofað henni.