Fasteignaviðskipti Að meðaltali eru átta til níu þúsund kaupsamningar gerðir árlega á Íslandi.
Fasteignaviðskipti Að meðaltali eru átta til níu þúsund kaupsamningar gerðir árlega á Íslandi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ef ein tillagna í þingsályktun nr. 23/151 um ástandsskýrslur fasteigna nær fram að ganga og verður að lögum gæti það aukið kostnað seljenda í fasteignaviðskiptum um rúmlega fimm milljarða króna á ári

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Ef ein tillagna í þingsályktun nr. 23/151 um ástandsskýrslur fasteigna nær fram að ganga og verður að lögum gæti það aukið kostnað seljenda í fasteignaviðskiptum um rúmlega fimm milljarða króna á ári.

Tillagan gengur út á að ástandsskýrsla eigi að fylgja söluyfirliti allra fasteigna sem ætlaðar eru til íbúðar. Þær verði útbúnar af óháðum fagaðilum með víðtæka þekkingu á mannvirkjagerð. Þá segir að framkvæmd matsins eigi að fylgja samræmdum matsaðferðum og innihald ástandsskýrslna verði samræmt.

Ábyrgir fyrir göllum

Enn fremur segir að aðilar sem útbúa ástandsskýrslur vegna sölu fasteigna verði ábyrgir fyrir göllum sem rýra verðmæti þeirra svo nokkru varði og ekki voru tilgreindir í skýrslum þeirra. Þeir skuli hafa starfsábyrgðartryggingu sem tryggi skaðleysi kaupenda og seljenda fasteigna þegar mistök þeirra leiða til bótaskyldu.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins kostar gerð ástandsskýrslu á bilinu 300-600 þúsund krónur eftir stærð fasteignar. Að meðaltali eru gerðir á milli 8-9 þúsund kaupsamningar á ári á Íslandi. Sé þetta reiknað saman getur kostnaður við ástandsskýrslur á ári því orðið allt að 5,4 milljarðar króna á ári.

Tuttugu mál fyrir dóm

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins fara um sextán til tuttugu mál á ári fyrir dóm vegna galla á fasteignum, eða um 0,2% allra kaupsamninga sem gerðir eru.

Sömu heimildir herma að lykilatriði verði að tryggingafélög tryggi matsmennina. Óljóst er hins vegar hversu viljug félögin eru til þess.

Þá hafa samkvæmt heimildum blaðsins einnig verið uppi vangaveltur um það hverjir muni sjá um fyrrnefndar skoðanir, sem gætu orðið um 20 til 40 á degi hverjum, allt árið um kring.

Viðmælendur Morgunblaðsins á markaði segja að ef að eitt þúsund mál af þessu tagi færu fyrir dóm á ári væri skynsamlegt að setja lög sem þessi. Þegar dómsmálin séu hins vegar aðeins á annan tug árlega kunni það fyrirkomulag sem hér er fjallað um að vera verulega þjóðhagslega óhagkvæmt.

Skila tillögum 1. júlí nk.

Ályktunin er sem fyrr segir til umræðu í starfshópi sem skila á ráðherra skýrslu fyrir 1. júlí nk. Í skýrslunni á að draga saman helstu álitamál, sjónarmið og mismunandi leiðir og, eftir atvikum, drögum að lagafrumvarpi ásamt greinargerð og mati á áhrifum.

Í starfshópnum eru Pétur Örn Sverrisson formaður, Einar Bjarni Einarsson, tilnefndur af Neytendasamtökunum, Friðrik Á. Ólafsson, tilnefndur af Samtökum Iðnaðarins, Tinna Andrésdóttir, tilnefnd af Húseigendafélaginu, Hannes Steindórsson, tilnefndur af félagi fasteignasala, og Sóldís Rós Símonardóttir, starfsmaður hópsins.

Markmið ályktunar

Ástandsskýrslur fylgi söluyfirlitum íbúða.

Skýrslurnar verði útbúnar af óháðum fagaðilum.

Aðilar sem útbúa ástandsskýrslur ábyrgir fyrir göllum.

Íbúðaeigendur haldi rafræna viðhaldsdagbók.

Hægt verði að ganga frá einföldum löggerningum rafrænt.

Höf.: Þóroddur Bjarnason