Ólafur Árnason fæddist á Ólafsfirði 15. júlí 1939. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 25. febrúar 2023.

Foreldrar hans voru Árni Anton Guðmundsson, vélstjóri og formaður á Ólafsfirði, f. 1903, d. 1957, og Jóna Guðrún Antonsdóttir, húsmóðir, f. 1908, d. 1989. Ólafur var yngstur í hópi fimm barna. Elstur og sammæðra er Anton Sigurðsson, f. 1932, þá Aðalbjörg Guðrún, f. 1934, d. 2004, Una Matthildur, f. 1938, og María Margrét, f. 1942, d. 2013.

Á sjötta áratugnum var rafvæðingin í sveitum landsins í fullum gangi og fékk Ólafur vinnu í vinnuflokkum á vegum Rafmagnsveitna ríkisins. Þessi vinna átti eftir að verða honum stærsta gæfusporið í lífinu því sumarið 1960 hafði ung stúlka frá Akranesi, Arnfríður Helga Valdimarsdóttir, fengið sumarvinnu í Búðardalnum og þar lágu leiðir þeirra saman og gerðu það allar götur síðan í tæp 63 ár. Þau gengu í heilagt hjónaband 3. ágúst, 1963 og eru börn þeirra:

1) Valdimar Magnús, f. á Akureyri 1963, maki Ragnheiður Ósk Helgadóttir. Þau eiga tvö börn og fjögur barnabörn. 2) Jóna Guðrún, f. á Ólafsfirði 1964, maki Kristján Smári Snæbjörnsson. Þau eiga átta börn og átta barnabörn. 3) Sigurjón, f. á Akranesi 1965, maki Ingibjörg Betty Bustillo. Þau eiga sex börn en misstu son, eins og hálfs árs gamlan. 4) Aðalbjörg Þórey, f. á Akranesi 1977, maki Unnsteinn Guðjónsson, þau eiga fjögur börn.

Óli og Fríða hófu sinn búskap á Ólafsfirði 1963, fluttu svo til Akraness 1965 þar sem þau bjuggu næstu árin. Óli kláraði bifvélavirkjann og vann við bifvélavirkjun hjá bílaverkstæðinu Vísi á Akranesi, en vann lengst af á sjónum á Bjarna Ólafssyni AK 70 og á sumrin hjá Hval í Hvalfirði. Þau Fríða tóku sig svo upp og fluttu á Dalvík 1989 þar sem þau sáu um rekstur félagsheimilis sem heitir Víkurröst næstu tíu árin. Þaðan fluttu þau í Kópavog 1999. Þar vann Óli hjá Olís í Hamraborg og svo hjá Rauða krossinum við fatasöfnun o.fl.

Óli var, líkt og faðir hans, söngelskur og söng í karlakórnum Svönum á Akranesi. Ólafur fékk berkla ungur og var rúmliggjandi heima í rúmlega hálft ár. Þrátt fyrir veikindin í æsku var hann heilsuhraustur og lærði t.d. leikfimi hjá einum besta leikfimikennara landsins á Ólafsfirði. Hann hafði ungur gaman af íþróttum og átti eftir að koma að stofnun körfuboltadeilda á Ólafsfirði, Akranesi og Dalvík. Hann dæmdi einnig í körfubolta og var formaður knattspyrnudeildar Dalvíkur um tíma. Hann flutti á Skagann á gullaldarárum Akranessliðsins og studdi ÍA og Arsenal af miklum móð.

Óli var félagsmálamaður, var í Kiwanisklúbbi Dalvíkur og hafði kratablóð í æðum og barðist fyrir hugsjónum jafnaðarmennskunnar. Honum var trúað fyrir ýmsum mikilvægum hlutverkum og var hann nokkrum sinnum kosningastjóri.

Seinni árin voru þau Fríða dugleg að ferðast og fóru oftar en ekki í sólina á Kanarí og Costa del Sol, til Kanada og Evrópu en einnig margar ferðir með Rauða krossinum.

Óli fór í stóra aðgerð árið 2005 sem hafði áhrif á heilsu hans og og náði sér aldrei að fullu eftir það en naut samt mikilla lífsgæða.

Útför hans fór fram frá Lindakirkju 10. mars 2023.

Kveðja frá Rauða krossinum á Íslandi

Starfsfólk og stjórn Rauða krossins á Íslandi færir ástvinum samúðarkveðjur vegna fráfalls Ólafs Árnasonar. Ólafur starfaði um árabil sem forstöðumaður fataflokkunarstöðvar Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu. Undir styrkri stjórn Ólafs efldist verkefnið og varð að burðarstólpa í fjáröflun félagsins. Ólafi eru færðar þakkir fyrir framlag hans til Rauða krossins, sem hefur nýst bæði á Íslandi og í lífsbjargandi mannúðaraðstoð erlendis.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri

Rauða krossins á Íslandi.