Það verður sjónarsviptir að Snorra Einarssyni, fremsta skíðagöngumanni Íslands frá upphafi. Eftir að hafa hafnað í 15. sæti í 50 kílómetra skíðagöngu á HM í Planica í Slóveníu í byrjun mánaðarins sagði Snorri stuttu síðar í samtali við Morgunblaðið…

Gunnar Egill

Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Það verður sjónarsviptir að Snorra Einarssyni, fremsta skíðagöngumanni Íslands frá upphafi.

Eftir að hafa hafnað í 15. sæti í 50 kílómetra skíðagöngu á HM í Planica í Slóveníu í byrjun mánaðarins sagði Snorri stuttu síðar í samtali við Morgunblaðið að hann hafi fundið það innra með sér að þetta væri komið gott, hann væri hættur keppni.

Snorri er 37 ára gamall og er því á aldursbili sem er algengt fyrir skíðagöngukappa að láta staðar numið.

Þrátt fyrir það verst maður ekki þeirri hugsun að Snorri sé upp á sitt allra besta um þessar mundir og ætti því hæglega að geta átt nokkur gjöful ár til viðbótar.

Hann hefur nefnilega beinlínis aldrei verið betri þar sem 15. sæti á heimsmeistaramóti er hans besti árangur á ferlinum og um leið besti árangur Íslendings í 50 km göngu.

Ekki ætla ég að fara að biðla til Snorra að endurskoða ákvörðun sína enda getur maður rétt ímyndað sér þau átök og álag sem fylgir því að vera skíðagöngumaður, sem eykst einungis með aldrinum.

Í hefðbundinni skíðagöngu er stysta vegalengdin 15 km og sú lengsta 50 km. Líkamlega áreynslan sem fylgir iðkun greinarinnar er því síður en svo heiglum hent.

Auk þess er það hreint ekki auðvelt að vera skíðamaður á Íslandi þar sem leiðindaveðrátta setur gjarnan stórt strik í reikninginn, þrátt fyrir að við búum á jökulkaldri eyju með vetri sem varir í um hálft ár er ekki sjálfgefið að hér festi snjó.

Því hefur maður fullan skilning á ákvörðun Snorra og er hann afar vel að hvíldinni kominn.