Karen og Guðrún „Við viljum leggja okkar af mörkum svo að sem fæstir búi við félagslega einangrun.“
Karen og Guðrún „Við viljum leggja okkar af mörkum svo að sem fæstir búi við félagslega einangrun.“ — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við köllum þá vini, sjálfboðaliðana sem sinna vinaverkefnum. Þeir heimsækja fólk ýmist á heimili þess, stofnanir, sambýli eða dvalar- og hjúkrunarheimili. Heimsókn getur falið í sér spjall, gönguferð, ökuferð, aðstoð við handavinnu eða annað,“ …

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Við köllum þá vini, sjálfboðaliðana sem sinna vinaverkefnum. Þeir heimsækja fólk ýmist á heimili þess, stofnanir, sambýli eða dvalar- og hjúkrunarheimili. Heimsókn getur falið í sér spjall, gönguferð, ökuferð, aðstoð við handavinnu eða annað,“ segir Karen Björg Jóhannsdóttir en hún og Guðrún Svava Viðarsdóttir eru verkefnastjórar vinaverkefna hjá Rauða krossinum.

„Vinaverkefnin eru félagsverkefni og tilgangurinn með þeim er að styrkja og efla félagslega þátttöku þeirra sem þiggja þessa aðstoð hjá okkur. Við erum með fjögur vinaverkefni. Fyrst ber að nefna gönguvini en þá fer vinur á okkar vegum út að ganga með viðkomandi, oftast í klukkustund en stundum lengur og stundum skemur, allt eftir getu og vilja þeirra sem óska eftir aðstoðinni. Síðan eru það heimsóknarvinir, hundavinir og símavinir. Oft er spjall með símavini góð byrjun og ákveðin leið til að kynnast þeim vinaverkefnum sem við bjóðum upp á. Fyrir fólk sem treystir sér ekki strax til að fá einhvern ókunnan inn á heimilið til sín, þá getur verið gott að fá fyrst símavin. Einnig er símavinur góður kostur fyrir þá sem eiga mjög erfitt með félagsleg samskipti. Að prófa símavin getur verið frábær leið til að brjóta ísinn,“ segir Karen og bætir við að í boði séu bæði hópheimsóknir og einstaklingsheimsóknir, en útfærslurnar séu mismunandi.

„Hópheimsóknir eru frekar á vegum hunda- og heimsóknarvina.“

Gönguvinir efla heilsu

„Fólk hefur mismunandi þarfir og langanir til félagslegra samskipta. Þess vegna þurfa vinaverkefnin að vera fjölbreytt og við reynum að mæta hverjum einstaklingi þar sem hann er staddur hverju sinni. Útgangspunkturinn hjá okkur með vinaverkefnum er að ná til einstaklinga sem eru félagslega einangraðir. Alls konar ástæður geta verið fyrir slíkri einangrun, en rannsóknir sýna að fylgni er á milli einmanaleika og heilsufarskvilla. Undanfarið hefur verið mikil ásókn í að fá heimsóknarvini, en okkur langar að láta sem flesta vita af möguleikanum gönguvini og símavini. Gönguvinir er frábært verkefni út frá lýðheilsusjónarmiðum, því það vinnur að bættri heilsu og betri almennri líðan. Gangan er alltaf útfærð eftir getu og vilja hvers og eins en hjá gönguvinum sameinast spjall og hreyfing.“

Hundavinir er vinsælt verkefni en Karen segir alls konar ástæður geta verið fyrir óskum fólks eftir hundavini.

„Aðstandendur óska stundum eftir hundavini fyrir til dæmis aldraða foreldra, en oft óskar fólk sjálft eftir hundavini af því það hefur kannski áður átt hund en getur ekki haldið hund af einhverjum ástæðum. Við viljum endilega fá fleiri hundavini til að fara í einstaklingsheimsóknir,“ segir Karen og bætir við að hundar hundavina á vegum Rauða krossins séu af öllum stærðum og gerðum, því ekki hentar öllum það sama.

„Hundur er frábær til að hafa milligöngu ef fólk á erfitt með félagsleg samskipti, því ferfætlingur sem kemur með í heimsókn vinar getur brotið ísinn í spjalli milli fólks,“ segir Karen og tekur fram að mörg dæmi séu um fallega vináttu sem hafi myndast út frá hundavinaverkefninu.

„Við miðum hundaheimsókn út frá getu þess einstaklings sem óskar eftir slíkri heimsókn hverju sinni. Ef einstaklingur hefur takmarkaða hreyfigetu, er til dæmis bundinn við hjólastól, þá reynum við að senda stærri hunda í slíka heimsókn svo viðkomandi geti náð til hundsins til að klappa honum. Hundurinn þarf líka að ná til viðkomandi. Þeir sem eru með góða hreyfigetu fá kannski frekar litla hunda í heimsókn.“

Hundar gleðja marga

Rauði krossinn býður upp á námskeið fyrir þá hundaeigendur sem hafa áhuga á að gerast hundavinir.

„Fyrst koma þeir með hundinn sinn í grunnhundamat hjá okkur, því ekki henta allir hundar en um níutíu prósent þeirra hunda sem koma í grunnmat til okkar, standast það mat. Sérstakt teymi hjá okkur tekur út hundinn þar sem hann er metinn út frá félagslegri færni, hvernig hann bregst við snertingu og umhverfi. Þetta er stutt innlit heim til hundsins og þeir sjálfboðaliðar sem komast í gegnum þetta mat með hundinn sinn, þurfa síðan að koma á hundavinanámskeið hjá okkur. Þar er farið ýtarlega í hegðun hundsins og félagslega þáttinn í hundavinaverkefninu,“ segir Karen og tekur fram að slíkt námskeið fyrir sjálfboðaliða sé að sjálfsögðu ókeypis, enda gefa sjálfboðaliðar af sér sjálfum og sínum tíma á dásamlegum forsendum.

„Við metum það mikils. Almenn krafa er um klukkustund á viku í sjálfboðaliðastarfið. Hjá símavinum er það hálftími tvisvar í viku, eða klukkustund einu sinni í viku. Hjá heimsóknarvinum er það ein heimsókn í viku sem tekur klukkustund og sama á við um gönguvini. Hundavinir eru stundum aðeins styttra í einu í hverri heimsókn, því það þarf að hlusta á hvernig hundurinn tjáir sín þreytumerki. Almenna reglan fyrir sjálfboðaliða er að gefa af sér í aðeins klukkustund í hverri viku til þeirra sem eru í litlum félagslegum samskiptum. Þessi klukkustund getur skipt sköpum fyrir þann félagslega einangraða. Við höfum oft séð hin góðu áhrif sem þetta getur haft á líf annarra.“

Góð samskipti við aðra

Karen segir að vinaverkefnin séu þjónusta sem er í boði fyrir öll þau sem telja sig þurfa á henni að halda.

„Það eina sem við gerum kröfu um er átján ára aldurstakmark, því þetta er fyrir fullorðna en ekki börn. Öll sem upplifa sig einmana eða einangruð geta komið inn í vináttuverkefni, enda hefur bætt félagsleg líðan jákvæð áhrif á alla almenna líðan, bæði andlega og líkamlega. Við vinnum út frá þeim forsendum að fólk sé með góða félagslega heilsu, sem byggist í grunninn á góðum samskiptum við aðra. Með vinaverkefnum viljum við leggja okkar af mörkum svo að sem fæstir búi við félagslega einangrun,“ segir Karen og ítrekar að það að gefa af sér í klukkustund í viku virki stutt fyrir sjálfboðaliðann, en fyrir þann sem fær heimsóknina, þá skipti það sköpum.

Þeir sem vilja gerast sjálfboðaliðar og taka þátt í vinaverkefnum á vegum Rauða krossins, geti farið inn á heimasíðu þeirra, raudikrossinn.is, og fundið nánari upplýsingar. Næsta grunnhundamat fyrir sjálfboðaliða hundavina verður 30. mars og aftur 4. apríl. Í framhaldinu verður hundavinanámskeið 11.-12. apríl.