Sigurjón Birgir Ísfeld Ámundason fæddist 12. maí 1939. Hann lést 25. febrúar 2023.

Útför Sigurjóns var gerð 9. mars 2023.

Ég kynntist Sigurjóni fyrst í Breiðfirðingabúð þegar við Hlíf fórum að vera saman, en þau eru hálfsystkin. Mér fannst hann vera röskur og kjaftfor og hann lét ekkert standa upp á sig án svara. En það var bara á yfirborðinu, því hann var hjartahlýr og góður drengur.

Hann hafði frá unga aldri hugann við sjóinn og var alltaf niðri á bryggju á Ísafirði en hann ólst þar upp hjá ömmu sinni og afa.

Enda fór svo að hann tók bæði fiskimanna- og skipstjórapróf og var lengi til sjós á millilandaskipum en líka á togurum þar sem lífið var bæði erfitt og hættulegt þá og aðeins hörkumenn ná að halda út.

Eftir að hann hætti á sjónum fór hann að læra múrverk og náði þar fyllstu réttindum.

Það var einmitt þarna í Búðinni sem hann kynntist eftirlifandi konu sinni, henni Ástu, sem var mikil danskona og svo létt og lipur í dansi að það var eins og að dansa við kjólinn einan og fannst mér undarlegt að hann þessi harðjaxl og hún svona mjúk tækju saman. En það mjúka slípar ávallt það harða.

Okkur finnst vel við hæfi að kveðja hann með þessu kvæði eftir Matthías:

Þá morgunsólin gyllir grund,

og gengið sé til heiða,

má þúsund snekkjur sjá um sund,

á sigling fram til veiða.

Þótt hlíðar hylji báran blá,

þeir bátar hvergi stansa,

uns efstu fjallahnjúkar há,

í himinljóma dansa.

Þótt allir vinni undir spreng,

að afla og veiðarfærum,

þá hvetur röggin hvern einn dreng,

að hjálpa vinum kærum.

Og hrífi við á bæði borð,

þá blíðkar hver í framan,

um þreytu talar enginn orð,

en allt er spaug og gaman.

Ef heim er siglt með hlaðinn bát,

og hert er voð og strengur,

þá verður lundin létt og kát,

og leikur sér hver drengur,

þá tindra augun björt og blá,

og brosir vör með glettu,

og stundum lyftist brún og brá

und barði á sjómannshettu.

En verði aldan óð og brött,

og Ægir gamli svelli,

hann síga lætur hvergi hött,

þótt hrönn á kinnung skelli.

Hann Ægir kvað hin elstu ljóð,

sem allt hans kyn réð hugga,

og rymur enn hans æskuljóð,

því aldan var hans rugga.

En venja þarf hinn vaska svein,

við vetrar-hreggið stríða.

er sér hann ei úr sævi bein

við sultarneyð og kvíða.

En vera má að vaxi él,

svo veturinn hverfi strangi,

og hvílist hann og hvílist vel,

með höfuðið nið'r í þangi.

Ef allt í einu heyrist hljóð

frá hernum þeim er sefur,

þeim voða - hér á hrannarslóð,

sem Helja værðir gefur;

þá gylli náhljóðs neyðaróp,

um Norvegs storðu víða,

og almennt sýndi sorgar-hróp,

hvað sjómenn vorir líða.

Þú fiskidrengja frækið lið

ert frægust stétt í landi,

þér heiðurskrans um hvarmasvið

sé hnýttur gullnu bandi.

Þig leiði Drottins hönd um höf,

og hlífi þér við grandi,

og verði sollinn sær þín gröf,

þig signi helgur andi.

Við hjónin sendum henni Ástu, afkomendum og öllum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Hlíf og Agnar.