Verðlaunaður Ritstjórinn Hjalti Pálsson tók við viðurkenningu Hagþenkis á Þjóðminjasafninu síðdegis í gær fyrir Byggðasögu sína.
Verðlaunaður Ritstjórinn Hjalti Pálsson tók við viðurkenningu Hagþenkis á Þjóðminjasafninu síðdegis í gær fyrir Byggðasögu sína. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Auðvitað kemur þetta á óvart,“ segir Hjalti Pálsson sem hlaut í gær viðurkenningu Hagþenkis fyrir ritverkið Byggðasaga Skagafjarðar I.–X. bindi. „Þegar ég var einn af þeim sem tilnefndir voru þá sá ég að maður myndi eiga…

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Auðvitað kemur þetta á óvart,“ segir Hjalti Pálsson sem hlaut í gær viðurkenningu Hagþenkis fyrir ritverkið Byggðasaga Skagafjarðar I.–X. bindi. „Þegar ég var einn af þeim sem tilnefndir voru þá sá ég að maður myndi eiga möguleika en var nú ekkert að gera mér háar vonir. Svo kom þetta ánægjulega á óvart þegar búið var að hvísla að mér að þetta væri ákveðið.“

Í greinargerð viðurkenningarráðs Hagþenkis segir: „Við erum sammála um að þetta feykiveglega rit eigi eftir að halda gildi sínu um ókomna tíð og umfram allt muni það auðvelda alls konar lesendum með margvísleg áhugamál að njóta þess gnægtabrunns fróðleiks og sögu sem Skagafjörður er.“

Í ráðinu sátu þau Ársæll Arnarson, Halldóra Kristinsdóttir, Sigurður Sveinn Snorrason, Súsanna Margrét Gestsdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir.

26 ára vinna að baki

Spurður hvaða þýðingu viðurkenningin hafi segir Hjalti mestu máli skipta að byggðasagan sem slík hafi hlotið viðurkenningu. „Ég lít á þetta sem viðurkenningu fyrir þessa tegund bókmennta sem hefur ekki verið í stóru áliti almennt. Byggðasaga Skagafjarðar er tímamótaverk í byggðasöguritun á Íslandi.“

Hjalti segir að þegar ákveðið hafi verið að leggja í gerð Byggðasögu Skagafjarðar hafi hann lýst því yfir að hann vildi gera verkið með öðrum hætti en áður hefði tíðkast. Flest slík rit væru nokkuð einföld í sniðum, oft ekki nema ein til tvær síður um hverja jörð. „Ég vildi gera þetta miklu ítarlegar og víðtækar ef væri farið út í þetta á annað borð. Maður hafði ekki mikið til fyrirmyndar, það var kannski helst ritið Sveitir og jarðir í Múlaþingi sem þá var komið út fyrir löngu síðan,“ segir hann.

„Ég fékk að móta þetta viðfangsefni og ritstýra því en þetta er margra manna verk. Við vorum lengst af tveir fastráðnir við verkið og stundum komu fleiri til. Þetta er búið að taka 26 ár og það eru komin í þetta að minnsta kosti 50 starfsár.“

Kryddar með skemmtiefni

Fyrsta bindið af tíu kom út árið 1999. „Þetta hefur auðvitað þróast svolítið frá fyrstu bók til þeirrar síðustu. Í seinni bindum var farið að gera ýmsa hluti betur. En upphaflega var búin til ákveðin grind sem síðan var fyllt inn í. Ég hafði strax í huga að gera þetta að alþýðlegu fræðiriti, fara bil beggja og hafa þetta með fræðilegu yfirbragði en líka alþýðlegt og setja inn í þetta ýmislegt skemmtilegt efni sem tengist jörðunum,“ segir Hjalti og bætir við að óhjákvæmilega hafi fólk ekki almennan áhuga á lýsingum á húsum, jörðum og eignarhaldi.

Hann segir að sér hafi hugkvæmst að setja í verkið innskotsgreinar af ýmsu tagi. „Þar eru teknar fyrir þjóðsögur, huldufólks- og draugasögur, vísur og sögur af körlum og kerlingum og atburðum. Þetta er krydd sem gerir þetta skemmtilegt og áhugavert.“ Þá hefur hann nýtt GPS-hnit til þess að staðsetja sel, stekki og fornbýli á jörðum. „Verkið hefur notið velvildar í héraðinu.“

Hjalti er búsettur á Sauðárkróki og hefur verið framkvæmdastjóri Sögufélags Skagfirðinga frá 1976 og formaður þess frá 1977. Hann hefur verið í ritstjórn Skagfirðingabókar, riti Sögufélags Skagfirðinga, frá árinu 1977 og séð um útgáfu fjölmargra bóka á vegum Sögufélagsins. Árið 2010 hlaut Hjalti fálkaorðuna fyrir framlag til héraðssögu, fræða og menningar og eftir að útgáfu Byggðasögunnar lauk var hann í apríl 2022 útnefndur heiðursborgari Skagafjarðar.

„Ég er fæddur í þessu byggðarlagi í Skagafirði og hef þar sterkar rætur. Mér þykir mjög vænt um að hafa fengið að gera þetta. Mín hugsjón var að þetta yrði samfélaginu að gagni og það hefur vissulega þegar orðið það. Byggðasagan hefur verið notuð í sambandi við ferðaþjónustu, skipulagsmál, fornleifaskráningu og ýmislegt fleira.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir