Quentin Tarantino
Quentin Tarantino
Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Quentin Tarantino mun vera byrjaður að vinna að sinni síðustu kvikmynd. Þetta herma heimildir tímaritsins Variety. Um er að ræða tíundu mynd leikstjórans, en hann hefur árum saman lýst því yfir að hann hygðist láta…

Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Quentin Tarantino mun vera byrjaður að vinna að sinni síðustu kvikmynd. Þetta herma heimildir tímaritsins Variety. Um er að ræða tíundu mynd leikstjórans, en hann hefur árum saman lýst því yfir að hann hygðist láta staðar numið sem kvikmyndaleikstjóri þegar tíu myndir væru í höfn, enda vilji hann hætta á hátindi ferils síns.

Í frétt Variety kemur fram að Tarantino hyggist á næstu dögum bjóða áhugasömum fjárfestum að lesa nýjasta handrit hans og fjárfesta í komandi mynd, en hann vilji nýta sama viðskiptamódel og hann viðhafði þegar hann gerði kvikmyndina Once Upon a Time in Hollywood. Það þýðir að hann vill fá tryggingu fyrir sýningu í kvikmyndahúsum og endurheimta höfundarréttinn af framleiðslufyrirtækinu 20 árum eftir frumsýningu. Vinnutitill nýjustu myndar hans mun vera The Movie Critic, en hún er sögð byggjast á ævi Pauline Kael (1919-2001), sem var frægur kvikmyndagagnrýnandi.

Quentin Tarantino