Karfi Íslensk fiskiskip hafa landað meira en 14 þúsund tonnum umfram útgefnar veiðiheimildir í gullkarfa vegna tegundatilfærslna.
Karfi Íslensk fiskiskip hafa landað meira en 14 þúsund tonnum umfram útgefnar veiðiheimildir í gullkarfa vegna tegundatilfærslna. — Ljósmynd/Vigfús Markússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekki liggur fyrir hver áhrif samþykkt frumvarps Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um afnám tegundatilfærslu í deilistofnum botnfisks verða á gullkarfa- og grálúðuveiðar íslenskra útgerða, að því er fram kemur í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins

Fréttaskýring

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Ekki liggur fyrir hver áhrif samþykkt frumvarps Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um afnám tegundatilfærslu í deilistofnum botnfisks verða á gullkarfa- og grálúðuveiðar íslenskra útgerða, að því er fram kemur í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins. Alls hafa 28 útgerðir síðustu þrjú fiskveiðiár farið með heimildir fyrir 100 tonnum eða meira í tegundunum í gegnum úthlutun eða tegundatilfærslu, en umframveiði þeirra varð til þess að Grænlendingar riftu fiskveiðisamningi við Íslendinga síðastliðið sumar.

Svandís mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi 9. febrúar síðastliðinn og er það nú hjá atvinnuveganefnd. Markmið frumvarpsins er að tryggja að veiðar á gullkarfa og grálúðu séu í samræmi við útgefið aflamark og vísindaráðgjöf og þannig draga úr ofveiði þessara stofna.

Vandinn felst í að samkvæmt kvótakerfi Íslendinga er heimilt að færa veiðiheimildir milli tegunda til að auka sveigjanleika, meðal annars í því skyni að koma í veg fyrir brottkast. Í greinargerð frumvarpsins er hins vegar bent á að þessi þáttur fiskveiðistjórnunarkerfisins geri það mögulegt að veiði verði umfram vísindalega ráðgjöf. Slíkt verður fljótt vandamál þegar í gildi eru samningar við önnur ríki um hlutdeild í heildarveiði.

Riftu samningi

Fram kemur í svari matvælaráðuneytisins að samanlögð ofveiði íslenskra skipa á gullkarfa síðustu þrjú fiskveiðiár nemur rúmlega 14 þúsund tonnum, en í tilfelli grálúðu hefur veiði verið langtum minni en útgefnar veiðiheimildir. Það virðist því ljóst að samþykkt frumvarpsins mun hafa þó nokkur áhrif á þær útgerðir sem landað hafa hvað mestum gullkarfa umfram ráðgjöf, en ráðuneytið treystir sér ekki til að leggja mat á umfang þeirra áhrifa.

„Með hliðsjón af samningi Íslands og Grænlands um skiptingu grálúðu þá var afli íslenskra skipa í grálúðu innan þeirrar hlutdeildar sem tilgreind er. Varðandi gullkarfa þá veiddu íslensk skip umfram samning og leyfilegar tilfærslur í samningi milli ára þ.m.t. vegna tegundatilfærslna sem heimil er skv. núgildandi lögum um stjórn fiskveiða. […] Þar sem heildarveiði úr gullkarfastofninum hefur verið umfram samning Íslands og Grænlands um skiptingu aflaheimilda þá riftu Grænlendingar strandríkjasamningi ríkjanna þann 8. júlí 2022. Þar sem ekki hefur verið gengið frá nýjum samningi, þ.m.t. skiptingu hlutdeilda í þessum deilistofni, er ekki hægt að fullyrða um hver áhrifin verða á veiðar íslenskra skipa,“ segir í svarinu.

Vonir eru bundnar við að með samþykkt frumvarpsins skapist grundvöllur fyrir nýjum samningi um deilistofna við Grænlendinga.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) segja í umsögn sinni tegundatilfærslu mikilvægan lið í sveigjanleika fiskveiðistjórnunarkerfisins, en segja jafnframt mikilvægt að tryggja hagsmuni Íslands í samningum við önnur ríki og leggjast því ekki gegn breytingunum. Þá gera Landssamband smábátaeigenda (LS) og Samtök smærri útgerða (SSÚ) í umsögnum sínum ekki athugasemdir við markmið frumvarpsins um að draga úr ofveiði.

Meiri heimild milli ára

Samhliða breytingum á tegundatilfærslu er í frumvarpinu lagt til að heimilt verði að flytja allt að 15% aflaheimilda í deilistofnum uppsjávartegunda frá einu fiskveiðiári til annars, nánar til tekið kolmunna, makríl og norsk-íslenska síld. Til þessa hefur heimildin samkvæmt reglugerð almennt verið 10% og er breytingin á gildandi lögum í greinargerð frumvarpsins sögð til þess fallin að „styrkja lagagrundvöll slíkrar ráðstöfunar en einnig að mæla fyrir um hámark flutnings.“

Uppsjávarútgerðir hafi hins vegar óskað eftir því um nokkurt skeið að þessi heimild verði aukin og báðu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) á síðasta ári um að heimilt yrði að færa allt að 30% af heimildum í makríl milli ára. Höfðu samtökin áhyggjur af því að miðað við hve illa gekk að veiða þann afla sem heimildir voru fyrir myndi það draga úr lögmæti krafna Íslands um hlutdeild í veiðunum, fengist ekki að færa heimildirnar milli ára.

Í umsögn sinni vegna frumvarpsins segir SFS ákvæði um 15% hámarksflutning milli ára ófullnægjandi og leggur til að hámarkið verði 25%. „Krafa Íslands til réttmæts hluta veiða í samningum við önnur strandríki byggist einkum á veiðireynslu, veiðimöguleikum og viðveru viðkomandi stofns í íslenskri lögsögu,“ segir í umsögninni.

Þá telur SFS ekki réttmætt að miða við 15% eins og í tilfelli botnfisktegunda þar sem eðlismunur sé á veiðunum. „Hefðbundnar botnfiskveiðar eru stundaðar allt árið um kring meðan veiðar á uppsjávartegundum eru vertíðarbundnar og háðar bæði göngumynstri og ótal öðrum ytri þáttum. […] Erfiðleikar við að ná góðum afla stafa þannig meðal annars af miklum breytileika í göngumynstri og torfumyndun, m.a. vegna breytileika í hafstraumum og hitafari frá ári til árs, sem oft kallar á mikla og kostnaðarsama leit og getur haft í för með sér takmarkaðan veiðanleika á tímabilum enda þótt um mikið magn kunni engu að síðar að vera að ræða, bæði almennt og á Íslandsmiðum.“

Þá er einnig lagt til að heimilt verði að veiða allt að 3% umfram aflamark hryggleysingja og allt að 5% umfram aflamark í deilistofnum uppsjávartegunda, en sá afli dregst frá úthlutun næsta fiskveiðiárs á eftir.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson