Skartgripir Arna Arnardóttir, formaður Félags íslenskra gullsmiða, er ánægð með áhuga viðskiptavina.
Skartgripir Arna Arnardóttir, formaður Félags íslenskra gullsmiða, er ánægð með áhuga viðskiptavina. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Félag íslenskra gullsmiða, FÍG, verður 100 ára á næsta ári og verður þess minnst á ýmsan hátt. „Gullsmiðir ætla að snúa bökum saman og vinna í sameiningu að þessum stóra áfanga með námskeiðum og fyrirlestrum fyrir okkar fólk auk þess sem við…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Félag íslenskra gullsmiða, FÍG, verður 100 ára á næsta ári og verður þess minnst á ýmsan hátt. „Gullsmiðir ætla að snúa bökum saman og vinna í sameiningu að þessum stóra áfanga með námskeiðum og fyrirlestrum fyrir okkar fólk auk þess sem við ætlum að skipuleggja viðamikla sýningu, leita í gamla arfleifð og einnig sýna nýsmíði,“ segir Arna Arnardóttir, formaður félagsins frá 2012 og gullsmiður hjá Meba í Kringlunni.

FÍG er eitt elsta iðnfélag landsins, var stofnað 19. október 1924. Markmið þess er að standa vörð um réttindi félagsmanna, efla samheldni, viðhalda menntun þeirra og stuðla að framförum og nýsköpun í greininni. „Staðan er ljómandi góð,“ segir Arna, sem hefur verið í stjórn félagsins frá 2010. „Skartgripir eru aftur orðnir vinsæl tækifærisgjöf fyrir alla aldurshópa karla og kvenna.“ Mikil samkeppni hafi verið við tækninýjungar eins og farsíma, tölvur og tölvuúr en sala á skartgripum hafi aukist á ný til dæmis fyrir jól, konudaginn, Valentínusardaginn og fermingar. „Það er gaman að sjá þessa vitundarvakningu hjá stelpum og strákum og konum jafnt sem körlum um mikilvægi þess að bera fallegt skart eftir íslenska gullsmiði.“

Vinsældir skartgripa má ekki síst rekja til fagmennsku íslenskra gullsmiða, að sögn Örnu. Með tilkomu samfélagsmiðla sé líka auðveldara að ná til fleiri markhópa og vekja þannig athygli á framleiðslunni. Aðgengi að neytandanum sé auðveldara en áður. Gullsmiðir kjósi einnig í auknum mæli að selja vörur sínar hjá öðrum. „Við í Meba seljum til dæmis vörur eftir mjög marga, íslenska gullsmiði og ég reikna með að yfir 50% sölunnar sé eftir þá.“

Iðn í blóðinu

Gullsmíði hafði lengi blundað í Örnu og eftir að hafa lært garðyrkjufræði og starfað sem garðyrkjufræðingur í nokkur ár hóf hún nám í gullsmíði 2005. Hún segist hafa hugleitt að fara í námið löngu áður, en fyrirkomulagið, að þurfa að tryggja sér samning hjá meistara áður en námið hæfist, hafi verið fráhrindandi. Þegar kerfinu hafi verið breytt í þá veru að sækja þyrfti um hjá meistara að tveggja ára námi liðnu hafi hún stokkið til. „Breytingin á skólakerfinu varð til þess að ég ákvað að stíga þetta skref.“ Hún bætir við að námið hafi breyst til muna og orðið miklu víðfeðmara og betra.

Arna lærði hjá Sigurði Inga Bjarnasyni í SIGN ehf. í Hafnarfirði og vann hjá honum í fjögur ár eftir að hafa fengið meistarabréf. Þaðan lá leiðin í Gull og silfur á Laugavegi en hún hefur starfað hjá Meba í Kringlunni undanfarin fjögur ár. Hún segir starfið mjög fjölbreytt og gefandi. Mjög skapandi sé að vinna með eðalmálma, steina og verkfæri. „Iðnnám blasti alltaf við mér,“ segir hún og vísar til þess að faðir hennar sé vélvirki og föðurbróðir einn færasti húsgagnasmiður landsins. „Ég ólst upp við mikið stúss.“

Tengingin við viðskiptavininn hafi einnig mjög mikið að segja.„Það er alltaf skemmtilegt að hitta viðskiptavin og leiðbeina honum um val á fallegum skartgrip ásamt því að leiðbeina með umhirðu á skartgripum þannig að hluturinn fái alltaf að njóta sín. Það má nefnilega ekki gleyma því að stór hluti af okkar starfi er að hreinsa og gera við skartgripi og viðhalda áfhramhaldandi lífi í fallegu skarti.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson