Mysteríuhjón Katrín og Stefán eru á bak við hlaðvarpið Mystería en þau lifa og hrærast í hlaðvarpsheiminum sem er þeirra lifibrauð.
Mysteríuhjón Katrín og Stefán eru á bak við hlaðvarpið Mystería en þau lifa og hrærast í hlaðvarpsheiminum sem er þeirra lifibrauð.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hlaðvarpið Mystík skaust beint á toppinn á vinsældarlista Íslendinga og hefur verið í topp þremur sætunum síðustu vikur en fyrstu þrír þættir hlaðvarpsins fóru í loftið í byrjun mars. Um er að ræða nýtt glæpahlaðvarp frá framleiðslufyrirtækinu Ghost …

Hlaðvarpið Mystík skaust beint á toppinn á vinsældarlista Íslendinga og hefur verið í topp þremur sætunum síðustu vikur en fyrstu þrír þættir hlaðvarpsins fóru í loftið í byrjun mars.

Um er að ræða nýtt glæpahlaðvarp frá framleiðslufyrirtækinu Ghost Network sem hjónin Stefán John Stefánsson og Katrín Bjarkadóttir halda úti en þau hafa löngu vakið athygli á Íslandi fyrir hlaðvörp sín Draugasögur Podcast og Sannar íslenskar draugasögur en þar ferðast hjónin annars vegar á skuggalega staði heimsins og leita að því yfirnáttúrulega og kafa djúpt ofan í sögu staðanna. Hafa þau meðal annars ferðast í Conjuring-húsið sögufræga. Í Sönnum íslenskum draugasögum segja hjónin svo aðsendar sögur frá Íslendingum sem hafa upplifað draugagang eða eitthvað yfirnáttúrulegt. „Þetta eru alvöru íslenskar draugasögur sem eru alls ekki fyrir viðkvæma,“ segir Stefán við Morgunblaðið. Í Mystík beina hjónin þó athyglinni að annars konar málum.

„Í þessu hlaðvarpi fjöllum við um skrýtin og dularfull mál. Morð, mannshvörf, myrkraverur, mannrán og aðrar mysteríur. Þættirnir eru allir mismunandi upp settir eftir því hvaða mál er tekið fyrir hverju sinni,“ segir Stefán .

Þau Katrín eiga saman fjögur börn og segir hann að þau þurfi að vera ansi góð í að skipta mér sér hlutverkum til að „jöggla öllum boltunum“ í hlaðvarpsgerðinni.

„Hlaðvarpsgerð er okkar lifbrauð og það er blessun að við fáum að starfa við það sem okkur finnst skemmtilegast að gera,“ segir Stefán sem semur sjálfur alla tónlist fyrir hlaðvarpsþættina.

„Okkur langaði að byrja með hlaðvarp um sönn sakamál og við sáum fram á að geta það núna þegar framleiðslufyrirtækið okkar Ghost Network er að stækka hægt og rólega. Við höfum alltaf haft áhuga á sakamálum og öðrum mysteríum og erum því alveg í skýjunum með að geta loksins boðið uppá svoleiðis hlaðvarp fyrir alla þá sem hafa áhuga á að hlusta,“ segir Stefán. En er aldrei komið nóg af glæpahlaðvörpum? Aldeilis ekki segja þau Katrín.

„Að okkar mati þá er aldrei til nóg af hlaðvörpum. Þessi hlaðvarpsbransi er svo skemmtilegur að því leytinu til að þú festist ekkert endilega í einu sakamálahlaðvarpi heldur hlustarðu á þau öll og oftast hlustarðu á alla þættina í einum rykk og bíður svo í viku eftir næsta þætti. Svo það er frábært að vera að hlusta á nokkur sem koma út á mismunandi dögum,“ segir Stefán en hann segir að þau Katrín leggi mikið upp úr því að hlustandanum líði eins og hann sé á staðnum.

„Og eins og með öll hin hlaðvörpin okkar þá komum við okkur alltaf beint að efninu og erum ekki að eyða tíma í spjall sem tengist ekki því máli sem við erum að taka fyrir þann daginn,“ segir Stefán. Þá taka þau Stefán og Katrín viðtöl í sumum þáttunum við aðila með sérþekkingu með það að markmiði að auka upplifun og skilning hlustenda á ákveðnum málum.

„Í fjórða þætti af Mystík tókum við viðtal við Ragnhildi Bjarkadóttur, sálfræðing og eiganda Auðnast. Í þeim þætti vorum við að fjalla um einhverfan mann sem var greindur með einhverfu og okkur fannst því tilvalið að fá að heyra hennar sérfræðiálit á því hvernig sú greining gæti hafa haft áhrif á hans hegðun. Hlustendur Mystík mega búast við því að heyra viðtöl endrum og eins og ég get lofað ykkur því að þið eigið eftir að kynnast Ragnhildi vel, því hún á eftir að hjálpa okkur að komast inn í huga fólks sem fremur hrottalega glæpi,“ segir Stefán en fimmti þáttur Mystík var að detta inn á hlaðvarpsveitur í dag en þeir koma út vikulega, alla fimmtudaga.

„Við byrjuðum með hlaðvarpið 3. mars á þessu ári og við gáfum út þrjá þætti í einu. Tveir þeirra eru um mjög dularfull mannshvörf og einn um hrottalegt morð í Þýskalandi sem er óleyst enn þann dag í dag. Fjórði þátturinn okkar „Tinder stefnumótið“ er um tvö ungmenni sem hittast á Tinder með hræðilegum afleiðingum og fimmti þátturinn okkar kom síðan út núna, 16. mars, og hann fjallar um unga konu sem var grafin lifandi. Síðan eru það viðtölin sem við teljum skemmtilega viðbót inn í þættina.

K100 fékk Stefán til að deila nokkrum áhugaverðum hlaðvörpum sem hann hlustar á en þau tengjast flest andlegum málefnum.

Paranormal 60 – með Dave Schrader „Dave er góðvinur okkar hjá Draugasögum og það er maðurinn sem gaf okkur dúkkuna the baby, sem er sá hlutur sem tengdur er við mestan draugagang á Íslandi. Hann segir í þessu hlaðvarpi frá öllu því helsta sem er að gerast í paranormal-heiminum í dag er líka ógeðslega fyndinn.“

Haunted PlacesParcast framleiðir þetta skuggalega hlaðvarp um draugalega staði alls staðar úr heiminum. Þarna segir Greg Polcyn úr Serial Killers okkur staðreyndir en þó í bland við mikinn uppspuna og skáldskap sem getur verið frekar fúlt en þetta er óneitanlega þrususkemmtileg hlustun.“

Elevation – með Steven Furtick „Ég er trúaður og þegar mig vantar smá pepp frá jafningja á mannamáli og með nútímalegri nálgun í bland við húmor þá get ég hlustað endalaust á Steven Furtick. Hann bjargar manni oft þegar álag er mikið.“

Authentic Church – með Bobby Chandler „Bobby er svipaður Steven Furtick, en aðeins meira „mellow“ svo þegar Steven er búinn að segja mér til syndanna þá er gott að hlusta aðeins á Bobby Chandler. Mjúkur og duglegur strákur sem líka er gaman að fylgjast með.“

New England Legends „Að lokum er alltaf gott að heyra í vini okkar Jeff Belanger. Hann er sagnfræðingur og rithöfundur og þrífst á staðreyndum og sögum á bak við hús sem reimt er í út um allan heim. Það er ekki til draugahús sem hann veit ekki alla söguna á bak við. Það er gott að hlusta á hann reglulega milli þess að fá stundum „input“ frá honum persónulega um mál sem við erum að vinna að hjá Draugasögum.“