Fjölskyldan Margrét, Sigurður og börnin fjögur ásamt föðurömmu Margrétar og alnöfnu sem lést í febrúar síðastliðnum.
Fjölskyldan Margrét, Sigurður og börnin fjögur ásamt föðurömmu Margrétar og alnöfnu sem lést í febrúar síðastliðnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Stefánsdóttir er fædd 16. mars 1973 í Reykjavík en foreldrar hennar og bróðir bjuggu þá á Miðvangi í Hafnarfirði. „Mamma virðist hafa verið hrifin af tölunni 8 og marsmánuði því hún giftist pabba, sem er fæddur 8

Margrét Stefánsdóttir er fædd 16. mars 1973 í Reykjavík en foreldrar hennar og bróðir bjuggu þá á Miðvangi í Hafnarfirði. „Mamma virðist hafa verið hrifin af tölunni 8 og marsmánuði því hún giftist pabba, sem er fæddur 8. mars, átta dagar eru á milli afmælisdagana okkar því ég fæðist 16. mars og bróðir minn á afmæli átta dögum á eftir mér, þann 24. mars.“

Margrét ólst upp í norðurbænum í Hafnarfirði þar til hún var 14 ára þegar hún flutti ásamt móður sinni, öðrum eiginmanni hennar og bróður sínum í Fossvoginn. „Sem krakki naut ég þess að skrifa og búa til þætti. Ég og vinkona mín skrifuðum og myndskreyttum framhaldssögu þegar við vorum 10 ára og fengum stundum að vera inni í frímínútum við ritstörf. „Bækurnar“ á ég ennþá. Ég tók svo upp á kassettur viðtalsþætti og lék bæði spyril og viðmælanda. Það væri nú skrautlegt að komast í þessar kassettur í dag. Ég er þakklát að hafa ekki alist upp við snjallsíma, eins og kynslóðin í dag. Við bróðir minn dunduðum okkur við það á tímabili að sníða og sauma dúkkusvuntur á saumavélinni hennar mömmu. Þetta var alveg framleiðsla og pökkun með lógói og tilheyrandi. Ég veit samt ekkert hvað dúkkur hafa yfirhöfuð að gera við svuntur en okkur fannst þetta skemmtilegt.“

Margrét gekk í Engidalsskóla, Víðistaðaskóla og Réttarholtsskóla og fór svo í Versló. „Mér finnst ég mjög lánsöm að hafa þurft að skipta um skóla á miðju unglingastiginu því ég eignaðist mínar bestu vinkonur í Réttó og svo síðar í Versló. Góð vinátta varð einnig til í Jeddah í Sádi-Arabíu þegar ég starfaði sem flugfreyja fyrir flugfélagið Air Atlanta. Mamma hvatti mig til þess að sækja um hjá félaginu þegar ég kom heim úr útskriftarferðinni minni með Versló. Þar kynntist ég föður dætra minna þriggja. Við vorum stór hópur af ungu fólki sem störfuðum á þessum slóðum og fengum ómetanlega upplifun, reynslu og þroska en ekki síst vináttu og tengsl.“

Eftir að heim var komið fór Margrét í Kennaraháskólann og eftir útskrift þar tók við fjölmiðlafræði í HÍ. „Okkur fæddist fyrsta dóttirin, auðvitað í marsmánuði, þegar ég var í fjölmiðlafræðinni en ég náði þó að klára námið með hana pínulitla.“

Margrét varð síðan fréttakona á Stöð 2 og Bylgjunni eftir útskrift og starfaði þar til ársins 2003. „Þá starfaði ég sem almannatengill um nokkurt skeið. Árið 2005 fór ég í fæðingarorlof með dóttur mína númer tvö. Ég fór stutt til fyrirtækis sem hét Wireless Broadband Systems eftir fæðingarorlof en það fyrirtæki ætlaði að hasla sér völl á fjarskiptamarkaði. Á þeim tíma varð ég ólétt að þriðju dótturinni. Þegar ég ætlaði að taka mér lengra frí frá vinnu með þessar dásamlegu dætur allar var mér boðin spennandi staða hjá Símanum og ég sló til.“

Margrét gegndi stöðu upplýsingafulltrúa þar í fimm ár og eignaðist skemmtilega vini. „Má þar fremstar nefna Gollurnar, golfhóp sem samanstendur af átta konum og makarnir, Bollurnar, fá stundum að vera með. Og svo syzzturnar en það var þriggja manna hópur með Njál Þórðarson heitinn í fararbroddi. Nafn hópsins kom til af því að ekkert okkar þriggja á systur. Eftir góð ár hjá Símanum ákvað ég að kanna hvort ég vildi taka við fyrirtæki móður minnar sem sérhæfir sig í ráðstefnum og fundum; Íslandsfundir. Við mamma áttum gott samstarf og ég sá meðal annars um fjölmiðlasamskipti á fyrstu Artic Circle-ráðstefnunni sem haldin var í Hörpu. Ég ákvað hins vegar að þiggja stöðu hjá Bláa Lóninu þegar hún bauðst mér og sagði því skilið við Íslandsfundi. Ég starfaði sem markaðsstjóri Bláa Lónsins í þrjú ár með frábæru fólki. Ég sat fyrir hönd þess í stjórn Iceland Naturally. Önnur stjórnarstörf sem ég gegndi í nokkur ár var í Styrktarsjóði Umhyggju.“

Árið 2017 stofnaði Margrét fyrirtæki sem heitir MyName MyStory sem hannar verk sem gera út á það að vernda og draga upp úr skúffum skjöl eins og til dæmis fæðingarvottorð. Árið 2019 hóf hún síðan störf á heilbrigðisvísindasviði HÍ og sá þar um markaðs- og vefmál. „Þar fékk ég þá hugmynd að gera þætti um hamingju og heilbrigði kvenna á Íslandi og fá okkar flotta vísindafólk til þess að vera viðmælendur. Þættirnir Heil og sæl? litu dagsins ljós haustið 2021 hjá Sjónvarpi Símans og voru tilnefndir til Edduverðlauna. Ég hef fengið mjög áhugaverð og góð viðbrögð við þáttunum bæði frá konum og körlum. Mér þykir vænt um það.“

Um þessar mundir starfar Margrét sem verkefnastjóri hjá HÍ og er einnig að vinna að framleiðslu á vöru í samstarfi við fyrirtækið Plastplan sem hlaut Hönnunarverðlaun Íslands nýverið. Þá sér hún ásamt vinkonu sinni um hlaðvarpið Ekkert rusl. „Þar fáum skemmtilega viðmælendur sem vita mun meira en við um umhverfismál.“

Áhugamál Margrétar eru ferðalög og eru skíðafrí efsta á lista. „Ég hef ansi góðan hóp skemmtilegs fólks sem ég plata með mér í skíðafrí. Ég segist vera eilífðarbyrjandi í golfi en er að reyna að bæta úr því með Sigurði, sambýlismanni mínum. Hans ær og kýr eru hestar og ég er að reyna að setja mig inn í þann heim. Fæ m.a. að taka þátt í stóðréttum í Húnavatnssýslu og allskonar ævintýralegum hestaferðum í frábærum félagsskap. Þá er jóga eitthvað sem ég fæ ekki nóg af og svo er ég tækifærissinnaður hlaupari, hjólari og fjallageit.“

Fjölskylda

Sambýlismaður Margrétar er Sigurður Örn Ágústsson, f. 15.4. 1970, stjórnarformaður Bluebird. Þau eru búsett í Dalsbyggð í Garðabæ. Foreldrar Sigurðar eru hjónin Ásgerður Pálsdóttir, f. 3.2. 1946, og Ágúst Sigurðsson, f. 5.5. 1945, bændur á Geitaskarði í Langadal, A-Hún.

Börn Margrétar með fyrri maka, Úlfari Haraldssyni, f. 22.11. 1969, framkvæmdastjóra Furu ehf., eru 1) Þórunn Birna Úlfarsdóttir, f. 29.3. 1999, nemi í Árósum; 2) Berglind Hrönn Úlfarsdóttir, f. 4.5. 2005, nemi í Flensborg, og 3) Fanney Úlfarsdóttir, f. 9.2. 2007, nemi í Salaskóla. Stjúpsonur Margrétar og sonur Sigurðar er Ágúst Örn Sigurðsson, f. 22.7. 2010, nemi í Hofstaðaskóla.

Albróðir Margrétar er Stefán Þór Stefánsson, f. 24.3. 1969, framkvæmdastjóri í Kópavogi, og hálfbræður hennar eru Hörður Steinar Sigurjónsson, f. 8.10. 1975, viðskiptafræðingur í Reykjavík, og Heimir Stefánsson, f. 25.4. 1988, búsettur í Reykjavík, og Finnur Stefánsson, f. 13.11. 1989, búsettur í Reykjavík.

Foreldrar Margrétar eru Þórunn Ingólfsdóttir, f. 27.8. 1947, fv. framkvæmdastjóri, búsett í Garðabæ, og Stefán Bergsson, f. 8.3. 1947, endurskoðandi í Reykjavík. Þau eru skilin. Stefán er kvæntur Jennýju G. Magnúsdóttur, f. 6.2. 1946.