MR Frá vinstri: Davíð Birgisson, Katla Ólafsdóttir og Steinþór Snær Hálfdánarson. MR er jafnan sterkur í Gettu betur og hefur gert gott mót.
MR Frá vinstri: Davíð Birgisson, Katla Ólafsdóttir og Steinþór Snær Hálfdánarson. MR er jafnan sterkur í Gettu betur og hefur gert gott mót. — Skjáskot/RÚV
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta er ofboðslega spennandi og við hlökkum til þess sem fram undan er,“ segir Ásrún Aldís Hreinsdóttir, nemandi við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Hún er ein þriggja í liði fulltrúa skólans sem keppir við lið Menntaskólans í Reykjavík í…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Þetta er ofboðslega spennandi og við hlökkum til þess sem fram undan er,“ segir Ásrún Aldís Hreinsdóttir, nemandi við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Hún er ein þriggja í liði fulltrúa skólans sem keppir við lið Menntaskólans í Reykjavík í úrslitakeppni Gettu betur í sjónvarpi RÚV annað kvöld kl 20. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 1986 sem lið F.Su. kemst í úrslit keppninnar. Þá var keppnin háð í fyrsta sinn og þá vann eimitt lið Suðurlandsskólans; skipað þeim Lýð Pálssyni, Sigurði Eyþórssyni og Sveini Helgasyni.

Efst á baugi og stífar æfingar

Lið F.Su. nú mynda Ásrún Aldís, sem er frá Selfossi, Heimir Árni Erlendsson úr Austur-Landeyjum og Elín Karlsdóttir frá Eyrarbakka. Þau eru hvert á sínu árinu í skólanum en hafa í því skemmtilega verkefni sem þátttakan er náð vel saman. „Við höfum æft stíft að undanförnu þar sem Stefán Hannesson íslenskukennari er leiðbeinandi okkar. Þar förum við yfir til dæmis ýmis þau mál sem eru efst á baugi í fréttum, enda viðbúið að spurt verði um þau í keppninni. Raunar er farið mjög vítt yfir, því aldrei er að vita hvað spurningahöfundar taka fyrir,” segir Ásrún. – Sjálf segir hún styrkleika sína liggja meðal annars í íslenskri landafræði, Heimir Árni sé með íþróttirnar á hreinu og Elín viti margt um bókmenntir og bíó.

Áhugi fólks á Suðurlandi fyrir spurningakeppninni nú er mikill og margir taka keppendurna tali með hvatningarorðum. „Stemningin fyrir þessu hér í skólanum er mikil. Samt borgar sig ekki að taka þetta með neinu stressi, heldur bara mæta í úrslitin af yfirvegun og gera sitt besta,“ segir Ásrún.

Margt að gerast í MR þessa dagana

„Eftirvæntingin hér er mikil,“ segir Sólveig Guðrún Hannesdóttir, rektor Menntaskólans í Reykjavík. Lið skólans í Gettu betur skipa þau Katla Ólafsdóttir, Steinþór Snær Hálfdánarson og Davíð Birgisson, sem hafa að undanförnu, með liðsstjórum, æft stíft fyrir úrslitakeppnina. „Þátttaka í keppninni er talsverð áskorun og mikil vinna liggur að baki góðu gengi, eins og gildir um nám og raunar allt annað. Þessa dagana er margt að gerast í MR. Á föstudaginn keppir okkar fólk í undanúrslitum rökræðukeppni MORFÍS og svo eru úrslit Gettu betur um kvöldið. Eftir helgina eru svo kosningar til stjórnar nemendafélaganna þar sem meðal annars á að velja nýjan Inspector Scholae og forseta Framtíðarinnar,” segir rektorinn.

Nemendur MR hafa yfirleitt staðið sig með stakri prýði í Gettu betur. Sem fyrr segir var keppnin fyrst haldin árið 1986 og síðan þá hefur lið skólans farið með sigur af hólmi oftar en nokkur annar skóli. Á morgun, föstudag, getur skólinn tryggt sér titilinn eftirsótta í 23. sinn.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson