„Eitt sem gæti verið til talsverðra bóta almennt væri að taka hönnunina fyrr inn í ferlið og reyna að hafa betri samfellu í vinnunni og bætta heildarhugsun í hönnuninni, því annars er hætta á að útkoman geti orðið hálfgerður bútasaumur,“ segir Halldóra um hvernig bæta mætti skipulagsmál.
„Eitt sem gæti verið til talsverðra bóta almennt væri að taka hönnunina fyrr inn í ferlið og reyna að hafa betri samfellu í vinnunni og bætta heildarhugsun í hönnuninni, því annars er hætta á að útkoman geti orðið hálfgerður bútasaumur,“ segir Halldóra um hvernig bæta mætti skipulagsmál. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Sumt af því sem má spara í upphafi getur leitt til þess að húsnæði verður dýrara í rekstri, s.s. vegna aukinnar viðhaldsþarfar.“

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Ljóst er að ráðast þarf í miklar framkvæmdir á komandi árum og bæði efla orkuinnviði landsins, bæta samgönguinnviðina og stórauka framboð á íbúðahúsnæði.

Halldóra Vífilsdóttir segir vert að athuga hvað þurfi að koma til ef framkvæmdaaðilar eigi yfir höfuð að ráði við þau mörgu og stóru verkefni sem bíða þeirra enda þurfi að lyfta grettistaki: „Mitt svar er að geirinn geti mætt þessari áskorun svo fremi að markmiðin séu skýr, verkefnin vel skilgreind, undirbúningur góður og áætlanir raunhæfar,“ segir Halldóra en hún tók þátt í pallborðsumræðum á Iðnþingi í ár.

Að sögn Halldóru er það til mikilla bóta að ríkið leggi nú fram fjármálaáætlun til fimm ára en sú áætlun taki m.a. til uppbyggingarverkefna hins opinbera. „Enn má þó gera betur og væri mikið gagn að því að stjórnvöld settu saman heildstæða áætlun sem næði yfir allar fyrirhugaðar mannvirkjaframkvæmdir til lengri tíma.“

Halldóra er framkvæmdastjóri teiknistofunnar Nordic á Íslandi. Stofan hét áður Arkþing en fékk á dögunum nýtt nafn eftir samruna við Nordic – Office of Architecture sem er ein stærsta teiknistofan á Norðurlöndunum. Halldóra hefur m.a. starfað sem verkefnastjóri Austurbakka, nýbyggingar Landsbankans í miðborg Reykjavíkur, en byggingin er 16.500 fermetrar að stærð auk tæknirýma og bílakjallara og þykir setja skemmtilegan svip á borgarlandslagið.

Hægt að einfalda kerfið

Eitt er að framkvæmdaaðilar ráði við verkefnið fram undan og annað að reyna að fækka alls kyns hindrunum og flöskuhálsum sem geta staðið framkvæmdum fyrir þrifum. Hafa fyrri Iðnþing beint kastljósinu að því hvernig flókið regluverk og leyfisferlar hægja á verkefnum og gera þau kostnaðarsamari. „Það var ánægjulegt að heyra á innviðaráðherra að til standi að gera atlögu að því að einfalda kerfið. Skipulagsferlið getur t.d. virst æði flókið en í raun er það mjög skýrt en það getur tekið tíma. Varðandi einföldun á kerfinu mætti m.a. gera meiri greinarmun á umfangi, eðli og staðsetningu hverrar áætlunar og þannig mætti t.d. einfalda og stytta málsferðar- og auglýsingatíma ef um er að ræða óverulegar breytingar,“ segir Halldóra. „Eitt sem gæti verið til talsverðra bóta almennt væri að taka hönnunina fyrr inn í ferlið og reyna að hafa betri samfellu í vinnunni og bætta heildarhugsun í hönnuninni, því annars er hætta á að útkoman geti orðið hálfgerður bútasaumur.“

Aðspurð um það hvort það skipulag sem kemur frá hinu opinbera sé of þröngt og hamlandi, eða of teygjanlegt og loðið, segir Halldóra að svarið sé ekki einfalt: „Skipulagið þarf vissulega að bjóða upp á svigrúm fyrir sköpun og snjallar lausnir, en skipulag sem er mjög stíft og nákvæmt getur verið af hinu góða ef vandað var til verka við skipulagsvinnuna.“

Þá er Halldóru umhugað um að framkvæmdaaðilar vari sig á að fórna ekki gæðum og fagurfræði á því mikla framkvæmdaskeiði sem er fram undan. „Það þarf að byggja af hagkvæmni, en það er hægt að hanna og byggja hús af miklum gæðum, með hagkvæmum hætti. Ef vandað er til verka við hönnunina og framkvæmdina, skipulagið gott og hverfin vel heppnaðar heildir þá þarf hvorki að gefa neinn afslátt af gæðunum né heldur að kasta hagkvæmninni fyrir róða. Það er t.d. ekkert samasemmerki á milli þess að byggja góðar, litlar og hagkvæmar íbúðir og að þurfa að fórna dagsbirtu, útsýni og slíku.“

Vert að athuga notkun umhverfis- og gæðaskala

Halldóra minnir líka á að við framkvæmdir komandi ára megi ekki einblína um of á stofnkostnaðinn við að reisa mannvirkin heldur þurfi að horfa til heildarlíftíma þeirra og rekstrarkostnaðar. „Sumt af því sem má spara í upphafi getur leitt til þess að húsnæði verður dýrara í rekstri, s.s. vegna aukinnar viðhaldsþarfar. Jafnvel einföldustu hlutir eins og val á gólfefnum geta haft áhrif á rekstur og það hversu dýr og flókin þrifin verða, nánast til frambúðar.“

Má nefna í þessu sambandi að á því mikla uppbyggingarskeiði sem varð á íslenskum húsnæðismarkaði í aðdraganda bankahrunsins þótti bera fullmikið á göllum á atvinnu- og íbúðarhúsnæði og gáfu sumir þá skýringu að mikill hraði og krafa um hagkvæmni hefði orðið þess valdandi að sumir húsbyggjendur styttu sér leið. Spurð um þetta segir Halldóra áhugavert að skoða hvort innleiða megi einhvers konar gæðastaðal á íslenskum húsbyggingamarkaði. Bendir hún á að erfitt sé fyrir leikmann að átta sig á gæðum húsnæðis eða vakta hvernig staðið var að framkvæmdinni og að gæðakerfi geti bætt gagnsæi: „Getum við ímyndað okkur að íbúðarhúsnæði væri t.d. fáanlegt í A, B og C flokki, þar sem gæðaflokkarnir ná t.d. til tæknilegra lausna og efnisvals.“

Önnur leið til að nýta staðla með þessum hætti er að fylgja umhverfisvottunarkerfum. Átti það einmitt við um Landsbankahúsið á Austurbakka að þar var fylgt ströngu umhverfisvottunarferli: „Er þá unnið eftir nákvæmum gátlistum sem tryggja að hlutirnir séu gerðir á vissan hátt. Staðallinn tæpir á mörgum atriðum, s.s. að ekki séu notuð óæskileg efni við framkvæmdina og allt yfir í það að hljóðvist sé góð í húsakynnunum.“

Vandað, sveigjanlegt og fellur að umhverfinu

Er margt við hönnun nýja Landsbankahússins sem gæti vísað veginn í þeirri vinnu sem bíður og má heyra á Halldóru að hún er að vonum stolt af því hvernig til tókst við Austurbakka. Nefnir hún að hönnuðir byggingarinnar hafi m.a. gætt sérstaklega að því að gera húsnæðið sveigjanlegt svo að auðvelt verði að gera á því breytingar í takt við starfsemina og þarfir fólksins sem þar starfar. „Þá höfðum við að leiðarljósi greiða samvinnu á milli fólks og tengingar bæði lárétt innan hæða og lóðrétt á milli hæða í húsinu. Mun starfsfólk Landsbankans einnig geta nýtt sér fjölbreytta vinnuaðstöðu; haft sitt heimasvæði, geta sótt í góð samvinnurými og eins brugðið sér afsíðis í næðisrými þegar verkefnin kalla á mikla einbeitingu og vinnufrið.“

Þurfti einnig að gæta að tengingum hússins við umhverfi sitt og nefnir Halldóra að leiðin sé greið fyrir fólk að fara inn og út úr húsinu hvort sem það kemur á bíl, á hjóli eða fótgangandi. Þannig tengist byggingin vel göngu- og hjólaleiðum um þetta nýja hverfi og heftir ekki flæði fólks til og frá verslunum, hótelum, veitingastöðum og menningarmiðstöðvum sem eru á svæðinu. „Útlit hússins þurfti líka að falla vel að byggingunum í kring. Hönnunin er innblásin af íslensku klettalandslagi, gjótum og gjám en þess var gætt að láta húsið stallast og er byggingin lægst á þeirri hlið sem snýr að Hörpu svo að tónlistarhúsið fái gott rými til að njóta sín.“