Hjá Alvotech hefur verið lögð áhersla á að styrkja tengslin við háskólasamfélagið og veitir fyrirtækið nemendum og kennurum við HÍ aðgang að nýjustu og fullkomnustu tækjum til að framkvæma rannsóknir sínar og tilraunir. Róbert Wessman fjallaði um sögu og stefnu fyrirtækisins á Iðnþingi.
Hjá Alvotech hefur verið lögð áhersla á að styrkja tengslin við háskólasamfélagið og veitir fyrirtækið nemendum og kennurum við HÍ aðgang að nýjustu og fullkomnustu tækjum til að framkvæma rannsóknir sínar og tilraunir. Róbert Wessman fjallaði um sögu og stefnu fyrirtækisins á Iðnþingi. — Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gaman hefur verið að fylgjast með örum vexti líftæknifyrirtækisins Alvotech en á tíu árum hefur félagið breyst úr litlum sprota í þúsund manna vinnustað þar sem hámenntaðir vísindamenn vinna að þróun og framleiðslu líftæknilyfjahliðstæða (e

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Gaman hefur verið að fylgjast með örum vexti líftæknifyrirtækisins Alvotech en á tíu árum hefur félagið breyst úr litlum sprota í þúsund manna vinnustað þar sem hámenntaðir vísindamenn vinna að þróun og framleiðslu líftæknilyfjahliðstæða (e. biosimiliars).

Róbert Wessman stofnaði félagið árið 2013 en fjórum árum áður setti hann á laggirnar samheitalyfjaframleiðandann Alvogen sem í dag er með starfsemi í fjölda landa og með vel á þriðja þúsund starfsmanna. Róbert þarf ekki að kynna fyrir lesendum en hann hefur verið áberandi í íslensku viðskiptalífi frá árinu 1999 þegar hann var gerður forstjóri samheitalyfjaframleiðandans Delta, síðar Actavis, sem hann stækkaði og styrkti með góðum árangri svo þegar hann lét af störfum árið 2008 var félagið komið í hóp stærstu samheitalyfjafyrirtækja í heimi.

Róbert var á meðal frummælenda á Iðnþingi og rakti þar meðal annars sögu Alvotech í stuttu máli. Fyrir áratug þótti honum sýnt að hliðstæður líftæknilyfja myndu leika æ stærra hlutverk á lyfjamarkaði og stórlækka lyfjakostnað sjúklinga, en jafnframt var ljóst að myndi þurfa að kosta miklu til við þróun hvers lyfs. Má miða við að það taki sex til níu ár að þróa líftæknilyfjahliðstæðu og kosti á bilinu 15 til 20 milljarða króna. „Frá stofnun hafa félaginu verið lagðir til í kringum 180 milljarðar króna en til að setja þá upphæð í samhengi jafngildir það hér um bil kostnaðinum við að reisa tvo nýja Landspítala. Erum við með átta lyf í þróun og búin að tryggja okkur aðgang að yfir 90 mörkuðum um allan heim,“ útskýrir Róbert.

Alvotech var skráð í Nasdaq-kauphöllina í New York í júní síðastliðnum í gegnum sérhæft yfirtökufélag (e. SPAC) og var þá metið á 2,25 milljarða dala en hefur hækkað umtalsvert síðan þá og er markaðsverð félagsins í dag um 3,48 milljarðar dala en hlutabréfin eru einnig skráð á Aðalmarkað Nasdaq Iceland.

Þurftu að flytja inn sérfræðinga

Það er ekki sjálfgefið að svona verðmætt og sérhæft hátæknifyrirtæki verði til í litlu landi í NorðurAtlantshafi og þykir umhverfið fyrir lyfja- og líftæknistarfsemi t.d. einkar hagfellt í löndum á borð við Sviss, Möltu og Svíþjóð. Segir Róbert að þegar Alvotech var stofnað hafi enn verið við lýði gjaldeyrishöft sem lögð voru á í kjölfar bankahrunsins og voru þau ekki til þess fallin að liðka fyrir því að laða að erlent fjármagn. „En vandinn við að velja Ísland var ekki síður hvernig ætti að takast að finna rétta fólkið til að starfa hjá félaginu. Sáum við það strax í byrjun að við myndum þurfa að laða til okkar sérfræðinga erlendis frá með menntun og reynslu á sviði líftækni,“ útskýrir hann, en í dag er um helmingur starfsmanna Alvotech af erlendu bergi brotinn og 85% með háskólamenntun.

Er það ekki sjálfsagður hlutur fyrir erlenda sérfræðinga að flytja á milli landa með fjölskyldur sínar og hafurtask og ef um er að ræða fólk frá löndum utan EES fylgir flutningunum enn meira umstang, tafir og óþægindi. Segir Róbert að þar hafi hjálpað að íslensk stjórnvöld réðust í að liðka fyrir ráðningum sérfræðinga erlendis frá og styttu afgreiðslutíma atvinnuleyfisumsókna. Tekur hann undir að ánægjulegt sé að fyrr í mánuðinum hafi verið upplýst að til standi að stíga skrefinu lengra og laga ýmsa annmarka á núgildandi reglum.

Þá hafi greinilega gert gagn að leitt var í lög að sérfræðingar sem koma til starfa erlendis frá fái notið afsláttar af tekjusköttum fyrstu þrjú árin á Íslandi. „Margt af okkar starfsfólki hefur lengri viðdvöl en margir kjósa að halda annað þegar skattaívilnuninni lýkur. Væri gott ef lengja mætti ívilnunartímabilið úr þremur árum í fimm og myndi gefa okkur betri tíma til að færa inn í reksturinn enn meira af þeirri þekkingu sem erlendu sérfræðingarnir koma með.“

Alvotech getur boðið samkeppnishæf laun en Róbert bendir á að fleira þurfi til og þegar eftirsóttir sérfræðingar velja úr atvinnutilboðum horfi þeir líka til margra þátta sem hafa áhrif á lífsgæði allrar fjölskyldunnar. Nefnir Róbert í því sambandi húsnæðismarkaðinn og þjónustu skólakerfisins: „Við höfum tekið á móti um 400 fjölskyldum og höfum þurft að setja upp sérstakt kerfi til að halda utan um þau. Erum við með íbúð tilbúna til að hýsa fjölskyldurnar fyrstu þrjá mánuðina eða svo á meðan þær koma sér fyrir og finna sér hentugt langtímahúsnæði og finna börnum sínum pláss í skóla,“ segir Róbert og bætir við að brýnt sé að grunnskólarnir komi til móts við þennan hóp. Eru núna starfandi á höfuðborgarsvæðinu tveir grunnskólar þar sem kennt er á ensku og ljóst af öllum spám að á komandi árum mun þurfa að fjölga umtalsvert skólaplássum fyrir börn og unglinga sem tala ekki íslensku sem móðurmál.

Tekur stöðugleika fram yfir lága skatta

Merkilegt nokk þá vóg skattaumhverfið ekki þungt í þeirri ákvörðun Róberts að reka Alvotech á Íslandi. Hann segir að vissulega megi finna lönd sem leggja lægri skattbyrði á félög af þessu tagi en að kalla megi íslenska skatta sanngjarna þegar tekið er tillit til þeirrar velferðar og þjónustu sem almenningur nýtur. Segir hann stöðugleika vega þyngra en að hafa sem lægsta skatta, og eins bjóði íslensk vinnumarkaðslöggjöf upp á ágætissveigjanleika.

Minnir Róbert á að Svíþjóð, sem ekki er þekkt fyrir að vera lágskattaland, sé í dag orðin að iðandi miðstöð líftæknifyrirtækja. Samkvæmt síðustu mælingum má finna um 250 líftæknifyrirtæki þar í landi og um 20.000 manns sem starfa við greinina. Segir Róbert að megi læra það af Svíþjóð að þar tóku stjórnvöld við boltanum, ef svo má að orði komast, og hófust handa við að stuðla að klasamyndun, settu á laggirnar vísindagarða, og hvöttu markvisst til fjárfestingar í greininni.

Virðist það eiga við um nánast hvaða tæknigeira sem er að þegar tekst að mynda klasa fyrirtækja sem starfa á sama sviði leysist kraftar úr læðingi sem örva vöxt og nýsköpun. Má greina vísi að klasa líftæknifyrirtækja á Íslandi og nefnir Róbert í því sambandi félög á borð við Kerecis, Coripharma, Controlant og deCode sem í dag heyrir undir bandaríska félagið Amgen. Er næsta skref að styrkja tengslin á milli líftæknifyrirtækjanna og háskólasamfélagsins og lagði Alvotech einmitt á það áherslu í upphafi að hafa starfsemi sína í Vatnsmýrinni, nálægt tveimur stærstu háskólum landsins og opna rannsóknarstofur sínar upp á gátt:

„Við erum að fara að taka í gagnið 500 fermetra aðstöðu hjá okkur þar sem HÍ hefur aðgang að þeim tækjum og tólum sem við höfum fjárfest í fyrir okkar eigin rannsóknir. Með þessu móti erum við að hlúa að undirstöðunum og hafa nemendur og kennarar aðgang að nýjustu tækni til að stunda vísindastörf í hæsta gæðaflokki, til birtingar í virtum alþjóðlegum ritum.“

Þessu tengt nefnir Róbert þann góða árangur sem náðist á Möltu en þar réðust stjórnvöld í metnaðarfullt langtímaverkefni skömmu eftir aldamót, með það fyrir augum að styrkja stoðir atvinnulífsins m.a. með því að laða að fyrirtæki í lyfjageira. Var ekki látið duga að einfaldlega bjóða erlendum fyrirtækjum fjárhagslega hvata til að hefja starfsemi í landinu heldur var gengið skrefinu lengra: „Þar var gert átak í að efla háskólana og mennta unga fólkið í lyfjafræði og skyldum greinum. Er nú svo komið að þessi unga grein myndar 17% af þjóðarframleiðslu eyríkisins.“

Hæniskröfurnar sífellt að aukast

Á Iðnþingi var kastljósinu beint að því hvernig hugverkadrifinn iðnaður er óðara að verða ein af meginstoðum íslensks efnahagslífs og virðast vaxtartækifærin nær óendanleg. Róbert minnir á að til að nýta tækifærin fram undan verði það lykilatriði að byggja upp öflugan mannauð í landinu, s.s. með því að hvetja unga fólkið til að mennta sig í tæknifögum.

Hann tekur undir að það sé þó ekki nóg að einblína á háskólastigið heldur verði skólakerfið allt að vera gott, og eru brottfallstölur á lægri skólastigum áhyggjuefni auk þess sem kannanir sýna að á mörgum sviðum eru íslenskir grunnskólanemendur eftirbátar jafnaldra sinna í öðrum löndum.

„Ég sé það í störfum mínum að í öllum löndum eru hæfniskröfur atvinnulífsins sífellt að aukast og efast ég um að mér yrði mikið ágengt ef ætlaði að byrja mína vegferð í dag með þá menntun sem ég hafði þegar ég hóf minn starfsferil – ekki einu sinni með meistaragráðu,“ segir Róbert. „Hins vegar hafa ungir Íslendingar það fram yfir unga fólkið í mörgum öðrum löndum að þegar þeir ljúka háskólanámi eru þeir upp til hópa með ágætisstarfsreynslu enda taka fyrirtækin á móti þeim með sumarstörfum og vinnu sem sinna má meðfram skóla.“