Hlemmur Borgarfulltrui sósíalista segir að erfitt geti verið fyrir farþega að komast inn í mathöllina þegar hún er þéttsetin af snæðandi gestum.
Hlemmur Borgarfulltrui sósíalista segir að erfitt geti verið fyrir farþega að komast inn í mathöllina þegar hún er þéttsetin af snæðandi gestum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur hafa lagt fram tillögur er lúta að bættum aðbúnaði strætófarþega á Hlemmi. Enn fremur hefur verið lögð fram tillaga um endurbætur í Spönginni

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur hafa lagt fram tillögur er lúta að bættum aðbúnaði strætófarþega á Hlemmi. Enn fremur hefur verið lögð fram tillaga um endurbætur í Spönginni.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja leggja til að skiptistöðin á Hlemmi verði opin farþegum á morgnana meðan strætisvagnar ganga. Aðstaða og upplýsingagjöf við farþega verði bætt inni í skiptistöðvarhúsinu, t.d. með uppsetningu leiðakorts, leiðataflna og rauntímabúnaði, sem sýnir hvenær vagnar eru væntanlegir á stöðina. Þá verði Klapp-kort til sölu í skiptistöðinni og merkingar verði bættar utandyra á Hlemmi. Tillögunni var vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur til að biðsalur fyrir strætófarþega verði búinn til eða afmarkaður inni á Hlemmi. Erfitt sé fyrir strætófarþega að koma sér vel fyrir þegar beðið er eftir vagni og salurinn er þéttsetinn af snæðandi gestum í mathöllinni. Auk þess er ekkert sem gefur til kynna að farþegum sé heimilt að bíða inni, þótt þeir megi það. Afgreiðslu tillögunnar var frestað.

Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks lagði einnig fram tillögu um að inniaðstöðu fyrir strætófarþega verði komið fyrir í Spönginni í Grafarvogi. Þá leggur hanni einnig til að í sömu inniaðstöðu verði kaffiaðstaða fyrir vagnstjóra.

Í greinargerð kemur fram að í Spönginni sé skiptistöð fyrir Strætó og þar þurfa farþegar oft að bíða í kuldanum eftir næsta vagni. Nú séu vagnstjórar með lítinn gám til að sitja inni í og hvíla sig milli ferða. Þetta séu ekki boðlegar starfsaðstæður. „Mikilvægt er að inniaðstöðu sé komið fyrir sem bæði farþegar og vagnstjórar nýti sér á milli þess sem strætisvagnar koma og fara,“ segir þar.

Minna má á að á næsta fundi borgarstjórnar hyggjast sjálfstæðismenn leggja fram tillögu um að sett verði upp skjólgóð og upphituð biðskýli á nokkrum stöðum í borginni.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson