Stjórnendur Valgeir Elíasson, til vinstri, og Sigurður Ágúst Sigurðsson. „Fengum heimild til þess að greiða vinninga í peningum. Með því komumst við fyrir vind og þátttaka hefur aukist um 123%,“ segir Sigurður Ágúst.
Stjórnendur Valgeir Elíasson, til vinstri, og Sigurður Ágúst Sigurðsson. „Fengum heimild til þess að greiða vinninga í peningum. Með því komumst við fyrir vind og þátttaka hefur aukist um 123%,“ segir Sigurður Ágúst. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Starfið er gefandi að því leyti að á bak við tölur og daglegan rekstur er fólk og mikilvæg velferðarmál sem hægt er að þoka áleiðis. Að sem best sé búið að gamla fólkinu skiptir okkur öll miklu máli,“ segir Valgeir Elíasson, nýr forstjóri Happdrættis DAS

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Starfið er gefandi að því leyti að á bak við tölur og daglegan rekstur er fólk og mikilvæg velferðarmál sem hægt er að þoka áleiðis. Að sem best sé búið að gamla fólkinu skiptir okkur öll miklu máli,“ segir Valgeir Elíasson, nýr forstjóri Happdrættis DAS. Fram í maí næstkomandi mun Valgeir starfa við hlið Sigurðar Ágústs Sigurðssonar, sem nú er á útleið eftir langt starf sem forstjóri.

Valgeir, sem er viðskiptafræðingur að mennt, þekkir vel til starfsemi Happdrættis DAS eftir að hafa lengi stýrt bókhalds- og launadeild Hrafnistuheimilanna, en bæði þau og happdrættið og Hrafnistuheimilin starfa undir hatti sjómannadagsráðs. Ágóði af happdrættinu er notaður til uppbyggingar heimila Hrafnistu í Laugarási í Reykjavík og Hraunvangi í Hafnarfirði.

Erum sátt en samkeppni hörð

„Samkeppnin á happdrættismarkaði er mikil en við erum sátt við okkar hlut. Happdrætti DAS stendur fyrir sínu og þegar best lætur getur hæsti vinningur vikunnar verið 40 milljónir króna. Slíkir fást á tvöfalda miða og eru dregnir út fimm sinnum á ári,” segir Valgeir. „Yfirleitt eru tölurnar þó lægri, en alls eru skráðir miðar hjá okkur um 80 þúsund talsins. Margir hafa átt miða hjá DAS í áratugi, en alls er happdrættið að skila Hrafnistu um 300 milljónum króna á ári. Þeir fjármunir nýtast til margvíslegra verkefna. Núna er kapp lagt á að öll herbergi heimilsfólks á dvalarheimilinu í Laugarási í Reykjavík séu eins og krafist er. Þá standa fyrir dyrum miklar endurbætur á Hraunvangi.”

Valgeir var fyrr á árum upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar. „Af einhverjum ástæðum og kannski helst tilviljun hafa störf mín gjarnan verið í almannaþágu; fyrst fyrir björgunarsveitirnar og á seinni árum málefni aldraðra,” segir hann. „Ég kann þessu vel og um nýja starfið þá getum við kannski sagt í gamni og tvöfaldri merkingu, að það er gaman að vinna í happdrætti.“

Tefja ekki málið með óþarfa umræðum

Happdrætti DAS var stofnað árið 1954, þá með sérstökum lögum sem höfðu að inntaki að tryggja sjómannadagsráði tekjur til uppbyggingar á dvalarheimili fyrir aldraða sjómenn. Þegar málið kom fyrir Alþingi bað Ólafur Thors, þáverandi forsætisráðherra, þingmenn að tefja ekki málið með óþarfa umræðum. Málið fór í gegnum þingið á einum degi. Var haft á orði að svo skjóta afgreiðslu fengju frumvörp ekki nema þjóðarvá stæði fyrir dyrum. Þessi lög standa enn og ráðstöfunin reyndist heilladrjúg.

„Þegar ég tók við þessum rekstri fyrir 33 árum var á brattann að sækja. Lottóið, sem hóf starfsemi árið 1986, og ýmsar ráðstafanir sem við gerðum til að svara samkeppninni, gengu ekki upp. Talsverðan tíma tók að finna réttu fjölina sem var sú að efla og styrkja okkar hefðbundna flokkahappdrætti. Stóra breytingin varð 2005 þegar við fengum heimild til þess að greiða vinninga í peningum. Með því komumst við fyrir vind og þátttaka í happdrættinu hefur síðan þá aukist um 123%,“ segir Sigurður Ágúst. Bætir við að Happdrætti DAS hafi í mörgu efni rutt brautina og komið með nýjungar; t.d. verið brautryðjandi í því að birta sjónvarpsauglýsingar í lit. Þá hafi tækniframfarir verið miklar og nú sé heimur happdrættisins og samskipti við viðskipavini rafræn að nánast öllu leyti.

Bingó-Lottó og geisladiskar

Svo stiklað sé á stóru í sögu Happdrættis DAS stóð það fyrir aldarfjórðungi eða svo fyrir Bingó Lottóinu sem var á dagskrá Stöðvar 2 í tvö ár. Um aldamótin voru svo á RÚV þættirnir DAS2000. Þar fóru útdrættir í happdrættinu þannig fram í beinni útsendingu. Fólk sem átti miða gat hringt inn í símanúmerið 907-2000 og í öðru hvoru voru bílar í vinning. Þá hefur Happadráttur DAS verið í Færeyjum frá 1995 og taka eyjaskeggjar enn virkan þátt í happdrættinu þar. Hefur DAS á móti lagt ýmsu í öldrunarþjónustu þar í landi lið, eins og þörf hefur verið á hverju sinni.

Af einstaka verkefnum fyrr á tíð sem bryddað hefur verið upp á má sömuleiðis má nefna að Happdrætti DAS gerði samning við Kristján Jóhannsson óperusöngvara árið 1993 um útgáfu á 28.000 hljómdiskum sem notaðir voru í vinninga. Um er að ræða stærstu útgáfu á íslenskum hljómdisk fyrr og síðar. Þá gaf happdrættið út 18.000 eintök af hljómdiskinum Íslenskir karlmenn árið 1998. Flytjendur voru Stuðmenn og Karlakórinn Fóstbræður og voru diskarnir sömuleiðis vinningsgjafir.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson