Hafnarfjörður Það var fallegt í logninu í gær en þykk íshella hefur myndast í höfninni í Hafnarfirði og ekki hægt að brjóta ísinn vegna lágsævis.
Hafnarfjörður Það var fallegt í logninu í gær en þykk íshella hefur myndast í höfninni í Hafnarfirði og ekki hægt að brjóta ísinn vegna lágsævis. — Morgunblaðið/Eggert
„Það er erfitt að fara í gegnum ísinn á plastbátum,“ segir Ágúst Ingi Sigurðsson, yfirhafnsögumaður í Hafnarfirði, en þykk íshella liggur nú yfir smábátahöfninni. „Þetta gerist oft á vetrum og þegar það hefur verið frost í marga…

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Það er erfitt að fara í gegnum ísinn á plastbátum,“ segir Ágúst Ingi Sigurðsson, yfirhafnsögumaður í Hafnarfirði, en þykk íshella liggur nú yfir smábátahöfninni. „Þetta gerist oft á vetrum og þegar það hefur verið frost í marga daga, þá verða allir varir við það að ísinn safnast saman í höfninni. Hins vegar er langt síðan að íshellan hefur verið jafn þykk og hún er núna,“ sagði Ágúst.

Að hans sögn var ástandið sérlega slæmt frá miðjum desember og langt fram í janúar og svo aftur núna í síðasta kuldakasti sem enn stendur yfir. Hafnaryfirvöld aðstoða smábáta við að komast út úr höfninni. Farið er á stálbáti og leið brotin út úr höfninni.

„Við fengum beiðni í dag [gær] um að brjóta leið út fyrir bát hérna í höfninni. Íshellan hérna er orðin ansi þykk vegna þess að það er búið að vera svo mikið frost undanfarið. Við höfum oft sent lítinn dráttarbát til að opna rák í ísinn, en við gátum ekki sinnt því vegna sjávarstöðunnar í dag,“ sagði Ágúst við Morgunblaðið um miðjan dag í gær. Víða á vestan- og norðanverðu landinu er íshröngl að gera smábátum erfitt fyrir, svo mjög að ekki hefur verið hægt að komast á sjó svo dögum skiptir.

Ísinn hefur þó hvergi hindrað umferð stærri skipa. Þannig hafa smábátar legið frosnir fastir við bryggju í Ólafsvík og á Sauðárkróki, svo dæmi séu tekin.

Beðið um aðstoð við ísbrotið

Hilmar Lyngmo, hafnarstjóri hjá höfnum Ísafjarðar, segir að ekki hafi verið vandræði með ísinn í höfninni þar.

„Það hefur verið meira um það á Flateyri og þeir hafa sótt eftir aðstoð við að brjóta ís þar. Síðan fengum við tilkynningu frá Bolungarvík í dag [gær] um að þeir þyrftu aðstoð við að brjóta klakann en þar hefur verið óvenjulengi frost og lítil hreyfing á sjónum,“ sagði Hilmar og reiknaði með að farið yrði í þetta í dag.

Hilmar segir að undanfarinn hálfan mánuð hafi verið mikið frost og stillur. „Þótt það hafi verið kuldi fyrr í vetur hefur verið það mikill vindur með að það náði ekki að frjósa svona í hellur eins og núna.”

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir