„Við þurfum hreinlega að spyrja okkur að því hvað við viljum sem þjóð, og hvaða svið gæti verið brýnast að styðja við,“ segir Árni
„Við þurfum hreinlega að spyrja okkur að því hvað við viljum sem þjóð, og hvaða svið gæti verið brýnast að styðja við,“ segir Árni — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Tryggja þarf að byggðir hringinn í kringum landið hafi aðgang að þeirri grænu orku sem orkuskipti og uppbygging komandi ára og áratuga mun kalla á“

Við töldum ríka ástæðu til að varpa ljósi á vaxtartækifærin í íslenskum iðnaði og helstu möguleika ólíkra sviða innan íslensks iðnaðar,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins, spurður um yfirskrift Iðnþings sem í ár var Tækifæri til vaxtar í öflugum iðnaði. „Við sjáum í dag fjölmörg tækifæri til vaxtar og þá ekki síst í hugverkaiðnaði.“

Bendir Árni á að hagtölur sýni vaxandi vægi iðngreina í íslensku atvinnu- og efnahagslífi. Léku innlend iðnfyrirtæki stórt hlutverk í að styðja við endurreisn hagkerfisins í kjölfar bankahrunsins auk þess að reynast mikilvæg stoð í gegnum kórónuveiruárin. „Staðan sem blasir við okkur er einfaldlega sú að iðnaður er stærsta greinin í útflutningi hagkerfisins og skapar nú 44% af útflutningstekjum. Tvær af fjórum stoðum útflutnings eru innan iðnaðar: orkusækinn iðnaður og hugverkaiðnaður. Vöxtur þessara stoða hefur verið hraður og raunar hefur iðnaðurinn tvöfaldað gjaldeyristekjur sínar á síðustu fimm árum. Það hefur líka gerst að breiddin í iðnaði hefur aukist stórum skrefum á síðasta áratug eða svo. Þau iðnfyrirtæki sem eru í dag í fararbroddi og vaxa hvað hraðast byggja verðmætasköpun sína ekki síst á hugverkum og tækni.“

Er þessi þróun einkar jákvæð enda felur hún í sér að atvinnulíf landsins hvílir á fleiri, sterkari og fjölbreyttari stoðum. „Þá hefur virkjun hugvitsins þann kost að um nær ótæmandi auðlind er að ræða og færri þættir sem setja frekari vexti skorður en í öðrum útflutningsstoðum.“

Alþjóðavæðing á undanhaldi

Á Iðnþingi voru þessi mál rædd frá ólíkum sjónarhornum af fulltrúum úr iðnaði og stjórnmálum. Segir Árni að í umræðu um vaxtartækifærin beri að hafa í huga þær alþjóðlegu áskoranir sem við glímum nú við: „Þar má fyrst nefna stríðið sem geisar í Úkraínu, erfitt ástand á orkumörkuðum, loftslagsmálin og efnahagskreppu sem birtist okkur í hárri verðbólgu sem gengur erfiðlega að koma böndum á. Samskipti á milli þjóða hafa líka breyst hratt og einkennast af fráhvarfi frá alþjóðavæðingu í átt að meiri einangrunarhyggju eða svæðisvæðingu. Við sjáum hvernig einstök ríki eða ríkjabandalög leggja einfaldlega sífellt aukna áherslu á að tryggja sinn eigin iðnað, vernda sín störf og eigin efnahag.“

Í slíku umhverfi mega íslensk stjórnvöld og fyrirtæki ekki sofna á verðinum ella gætu útflutningsgreinarnar og atvinnulífið almennt glatað samkeppnishæfni sinni. Nefnir Árni að áríðandi sé að ryðja úr vegi sem flestum flöskuhálsum og hindrunum, leitast við að einfalda regluverk og opna fyrirtækjum og frumkvöðlum sem flestar dyr, rétt eins og helstu viðskiptalönd Íslands hafa tekið ákvörðun um að gera. „Annars er hættan hreinlega sú að við sitjum eftir,“ segir hann.

Að því sögðu þá býr íslenskt atvinnulíf að ýmsum styrkleikum og hefur jafnvel áratuga forskot á sumum sviðum. „Við Íslendingar erum þrátt fyrir allt í einstakri stöðu að skapa ný atvinnutækifæri og ný störf, ekki síst í hugverkaiðnaði og á grunni hinna grænu umbreytinga, sem myndu stuðla að bættum lífskjörum og velferð þjóðarinnar allrar. Við höfum t.d. verið leiðandi í nýtingu jarðvarma og virðumst á góðri leið með að vera í fremstu röð í föngun koltvísýrings,“ útskýrir Árni.

Stórveldin í kapphlaupi

Telur Árni ekki góðri lukku stýra að bíða og vona það besta heldur þurfi að takast á við áskoranirnar fram undan og grípa tækifærin með skipulögðum hætti: „Tækifærin til vaxtar bíða okkar og tími aðgerða er runninn upp. Biðin verður að vera á enda. Við þurfum hreinlega að spyrja okkur að því hvað við viljum sem þjóð, og hvaða svið gæti verið brýnast að styðja við með það fyrir augum að skila sem mestu til þjóðarbúsins og stuðla að sem mestri efnahagslegri velsæld,“ segir hann og bendir á að nú þegar séu voldugustu ríki heims komin í kapphlaup um að styðja við ákveðin svið í iðnaði í von um að verða leiðandi á heimsvísu eða verða a.m.k. ekki öðrum háð. „Ísland getur varla vænst þess að vinna slíkt kapphlaup stórveldanna, en við þurfum heldur ekki að sitja eftir ef við vinnum með styrkleika okkar og tökum erfiðar en nauðsynlegar ákvarðanir.“

Meðal þess sem Árni myndi leggja til að setja á oddinn væri að auka raforkuframleiðslu á Íslandi verulega, efla orkuinnviðina, huga vel að menntamálum og greiða götu erlendra sérfræðinga til landsins: „Ef við ætlum að vera virkir þátttakendur í hinni grænu iðnbyltingu með áframhaldandi hagvexti og bættum lífskjörum, og sömuleiðis ná markmiðum stjórnvalda um orkuskipti og kolefnishlutleysi árið 2040, þurfum við að gyrða okkur í brók. Rjúfa þarf áralanga kyrrstöðu í orkuöflun og tryggja að byggðir hringinn í kringum landið hafi aðgang að þeirri grænu orku sem orkuskipti og uppbygging komandi ára og áratuga mun kalla á. Á menntasviðinu þurfum við síðan að setja aukna áherslu á iðngreinar, tæknifög, verkfræði og stærðfræði, samhliða því að laða erlenda sérfræðinga til að setjast hér að og styðja við vöxtinn. Takist okkur í sameiningu að tækla þessar áskoranir með skynsömum hætti eru okkur allir vegir færir og vaxtarhorfur afar góðar.“ ai@mbl.is