Örlygur Sveinsson fæddist 23. júlí 1949 í Reykjavík. Hann lést á Tenerife 16. febrúar 2023.

Foreldrar hans voru Sveinn Einarsson, veiðistjóri í Reykjavík og leirkerasmiður, f. í Miðdal í Mosfellssveit 14.1. 1917, d. 2.11. 1984, og Kamma (Norðland) Nielsen Thordarson húsmóðir, f. í Kaupmannahöfn 4.4. 1923, d. 15.3. 1986. Föðurforeldrar hans voru Einar Guðmundsson, bóndi í Miðdal, f. í Miðdal 1870, d. 1940, og Valgerður Jónsdóttir húsmóðir, f. í Mýrarkoti á Álftanesi 1875, d. 1937. Móðurforeldrar hans voru Axel Nielsen, verslunarstjóri í Kaupmannahöfn, f. í Danmörku, og Sigríður Guðmundsdóttir, húsmóðir og verkakona, f. í Hvítanesi í V-Landeyjahreppi 1896, d. 1982.

Systkini Örlygs eru Örn, f. 1941, Sigríður, f. 1944, Valgerður, f. 1946, Einar, f. 1950, d. 2005, og Sigvaldi, f. 1964.

Fyrri eiginkona Örlygs er Ragnheiður Jónsdóttir, f. 25. ágúst 1950. Þau skildu. Þeirra börn eru: 1. Jón Ragnar Örlygsson. Maki Ólöf Árnadóttir. Börn þeirra eru Ragnheiður og Kristófer Árni. 2. Björg Örlygsdóttir. Maki Arnar Matthíasson.

Örlygur kvæntist 23. júlí 2007 Sesselju Óskarsdóttur, f. 1. október 1955. Hennar börn eru: 1. Garðar Örn Þorvarðarson. Maki Sara Guðmundsdóttir. Þau eiga þrjú börn 2. Tryggvi Rúnar Árnason. Maki Hjördís Inga Jóhannesdóttir. Þau eiga einn son.

Örlygur ólst upp í Reykjavík en sem barn og fram yfir fermingu var hann mörg sumur í sveit á Skeljabrekku í Borgarfirði. Hann var vélstjóri að mennt og vann hann við ýmis störf í Reykjavík, var til sjós og starfaði síðar í nokkur sumur hjá Hval hf. í Hvalfirði. Frá árinu 1980 til 1993 bjó hann á Ásmundarstöðum í Rangárvallasýslu og starfaði meðal annars hjá Ásmundarstaðabúinu og síðan í sláturhúsinu á Hellu.

Árið 1993 flutti hann á Akranes og bjó þar til dánardags.

Á Akranesi vann Örlygur hjá Skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts til starfsloka.

Lestur, fuglaskoðun, rjúpnaveiðar og annar veiðiskapur auk útivistar og ferðalaga voru hans helstu áhugamál.

Útför Örlygs fer fram frá Akraneskirkju í dag, 17. mars 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það er margs að minnast frá langri og ljúfri samleið með bróður mínum, Örlygi, sem lést 16. febrúar síðastliðinn.

Allt líf hans einkenndist af hógværð og nægjusemi. Traustur vinur sem ætíð var tilbúinn að spjalla og ræða um allt milli himins og jarðar. Söngröddin var ógleymanleg og í eitt sinn í Valhöll á Þingvöllum sungum við fyrir svissneska ferðamenn og kynnti ég þig sem hinn íslenska Caruso, við mikinn fögnuð gesta, sem þú heillaðir upp úr skónum.

Ekki má gleyma tryggð þinni alla tíð, m.a. þegar þú hjálpaðir mér að flytja heim til Íslands eftir áralanga dvöl mína í Stokkhólmi.

Nú er komið að kveðjustund.

Man ég svip og sögu

sveinsins lokkabjarta.

Brostið er í barmi

barnsins góða hjarta.

Leiftur góðra gáfna

gneistuðu oft í svörum.

Nú er þagnarþunga

þrýst að köldum vörum.

Í blóðið var þér borin

bróðurtryggð og festa.

Heldur kaust þú hylli

heimamanna en gesta.

Fáskiptinn við fjöldann

fórstu þína vegi.

Afl og andans þroski

óx með hverjum degi.

Fyrir þér lá fögur

framtíð starfs og dáða.

Lífi alls og allra

æðri kraftar ráða.

Er engill banableikur

brjóst þitt nakið signdi,

var sem heiður himinn

heitum tárum rigndi.

Meinabætur margar

minningarnar geyma.

Til eru ljós, sem lýsa

langt inn í æðri heima.

Hvíld er hverjum heitin

hvað sem yfir dynur,

Guð og góðir englar

gæti þín elsku vinur.

(Davíð Stefánsson)

Ótalmargar ljúfar minningar koma upp í hugann, sem ég mun geyma í hjarta mínu. Vertu sæll, elsku Hnubbi minn. Veri þú ljósinu falinn.

Þín systir,

Vala og fjölskylda.

Kveðja frá Ásmundarstöðum

Lífið er undarlegt ferðalag.

Þann 8. febrúar sl. hringdum við hjón, Sigríður, systir Örlygs, og ég, Jón, maður Sigríðar, upp á Skaga til þess að kveðja Örlyg og Sessu vegna fyrirhugaðrar skemmtiferðar þeirra til Suðurlanda. Átta dögum síðar barst okkur frétt um að Örlygur væri látinn.

Ég held að enginn hafi átti von á slíkri frétt. Þegar rykið var sest eftir tíðindin varð að ráði að ég skyldi reyna að skrifa greinarkorn til þess að minnast Örlygs og samskipta okkar, sem voru farsæl frá upphafi kynna til enda.

Örlygur fluttist fráskilinn að Ásmundarstöðum í Ásahreppi 1980, þar sem við bjuggum fyrir. Við komu hans urðum við félagar í leik og starfi. Þannig leið níundi áratugurinn. Fljótlega eftir 1990 kynntist Örlygur kærustu sinni, Sesselju Óskarsdóttur, og fluttist til hennar upp á Skaga. Þau giftust árið 2007 og bjuggu saman þar til yfir lauk.

Örlygur var maður rólyndur og traustur. Aldrei heyrði ég hann tala illa um nokkurn mann. Aldrei heyrði ég hann kvarta undan verkjum, sem hann mátti þola seinni árin. Örlygur var mjög barngóður. Krakkarnir á bænum héldu mikið upp á hann. Þegar Sessa kom til breytti það engu. Hún varð þeim strax kær.

Þau voru tíðir gestir á heimili okkar. Þegar krökkunum fannst of langt síðan þau komu í heimsókn byrjuðu þau að spyrja: Hvenær koma Ölli og Sessa? Þessum spurningum klifuðu þau á allt til loka. Spurðu mikið. Þau sögðu að Örlygur væri eini vinurinn sem ég hefði eignast. Kannski?

Vertu sæll, vinur.

Sessu og öðrum ástvinum sendum við samúðarkveðjur.

Jón og fjölskylda,
Ásmundarstöðum.

Örlygur móðurbróðir minn var mér ávallt kær. Ölli, eins og hann var oft kallaður, flutti í sveitina þegar ég var fjögurra ára. Hann var sem hluti af fjölskyldunni enda tíður gestur á æskuheimili mínu. Sem barn varð ég strax hrifin af Ölla og hann varð fljótt uppáhaldsfrændi minn. Hann gaf sig að okkur systkinunum og var alltaf til í að fíflast og hlæja með okkur.

Persónutöfrar stöfuðu af Ölla frænda. Hann var ljúfur, traustur og gamansamur. Alltaf var gott og gaman að hitta hann enda stutt í glensið og gamanið í okkar samverustundum.

Það var mikil gæfa þegar hann kynntist Sessu sinni og þau voru samstiga gegnum lífið. Það var alltaf tilhlökkun að hitta þau og gott að koma á myndarheimili þeirra á Akranesi. Umhyggja og vinátta þeirra við foreldra mína hefur verið ómetanleg gegnum tíðina.

Elsku Sessa, fjölskylda og ástvinir, ég og fjölskylda mín sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur og megi minning um góðan mann gefa ykkur styrk í sorginni.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Ég kveð Ölla frænda með þakklæti fyrir samfylgdina gegnum tíðina. Góðar minningar um hann munu lifa. Hvíldu í friði, elsku besti frændi.

Kamma Jónsdóttir.

Ölli hennar Sessu frænku er fallinn frá. Rólyndismaður var hann og ljúfur. Áttum við ófáar stundir saman í fjölskylduhittingum og smærri kaffiboðum.

Það var yndislegt að sjá hvað þau hjónin voru alltaf samstiga og nutu lífsins saman, hvort sem það voru sumarbústaðarferðir, hótelferðir eða að heimsækja fólkið hans austur fyrir fjall. Einnig voru þau komin upp á lagið með að heimsækja sólina og njóta hitans og lífsins þar. Elsku Ölli okkar, við þökkum þér fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman og við þökkum þér fyrir að hafa veitt Sessu okkar ást og umhyggju. Við lofum þér að halda vel utan um hana.

Elsku Sessa okkar og fjölskyldan öll, megi guð vera með ykkur og umvefja, veita ykkur vernd og huggun á þessum erfiðu tímum.

Þín gullnu spor

yfir ævina alla

hafa markað

langa leið.

Skilið eftir

ótal brosin,

bjartar minningar

sem lýsa munu

um ókomna tíð.

(Hulda Ólafsdóttir)

Hanna Þóra og fjölskylda,Ólöf Inga og fjölskylda.