Guðrún Kristjánsdóttir fæddist í Reykjavík 20. maí 1939. Hún lést á heimili sínu í Hudiksvall í Svíþjóð 25. febrúar 2023.

Foreldrar hennar voru Nanna Guðmundsdóttir húsfreyja frá Stykkishólmi, f. 1912, d. 1992 og Kristján Páll Pétursson skipstjóri frá Reykjavík, f. 1909, d. 1993.

Systkini Guðrúnar, sem var elst, eru Jóhanna Kristjánsdóttir, f. 1941,

Ásta Kristjánsdóttir, f. 1944, d. 1992, Anna Elísabet Kristjánsdóttir, f. 1945 og Pétur Kristjánsson, f. 1948.

Guðrún giftist árið 1978 Nikolai A. Sokolov, f. 1946, d. 2009.

Dóttir Guðrúnar er Nanna Heiðarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og framkvæmdastjóri, búsett í Svíþjóð frá 1988. Barnabörn Guðrúnar búa í Svíþjóð og þau eru Guðrún Jóna Skúladóttir, f 1978, Alex Tinna Óskarsdóttir, f. 1986, Birgitta Óskarsdóttir, f. 1989 og Lísa Björk Óskarsdóttir, f. 1995.

Fósturdætur Nönnu eru Sóley Ástudóttir, f. 1978 og Halldóra Óskarsdóttir, f. 1978. Barnabarnabörn Guðrúnar eru orðin 14.

Guðrún tók stúdentspróf frá MR 1959 og vann sem læknaritari á Landakoti í nokkur ár. Hún byrjaði nám í læknisfræði við Háskóla Íslands sem hún lauk í Sovétríkjunum mörgum árum seinna. Hún flutti til Sovétríkjanna sem blaðamaður fyrir Þjóðviljann árið 1965 og sendi reglulega heim fréttir þaðan. Þar lærði hún rússnesku, las rússneskar bókmenntir og byrjaði síðan nám í læknisfræði samtímis sem hún starfaði við blaðamennskuna.

Guðrún tók læknispróf í Moskvu 1974 og flutti heim til Íslands árið 1978 með eiginmanni sínum, dr. Nicolai A. Sokolov, vísindamanni í sameindalíffræði.

Guðrún starfaði sem læknir í Reykjavík og á Kristnesi um nokkurn tíma.

Hún flutti síðan til Djúpavogs og starfaði þar um skeið eða þar til hún flutti til Þórshafnar í apríl 1991.

Á Þórshöfn starfaði hún sem héraðslæknir þar til hún fór á eftirlaun.

Útför Guðrúnar fer fram í Svíþjóð í dag, 17. mars 2023, í Hudiksvalls kyrka kl. 9 að íslenskum tíma.

Streymi á slóð:

https://mbl.is/go/m6h9r

Mig langar til að minnast í nokkrum orðum Guðrúnar systur minnar sem féll frá í Svíþjóð 25. febrúar sl.

Það er erfitt að lýsa Guðrúnu. Hún var margbrotinn persónuleiki, gædd ríkum hæfileikum sem settu mark sitt á ævintýralegt lífshlaup hennar. Hún var áræðin, föst fyrir og fylgin sér. En umfram allt var hún góð manneskja, gjafmild og vildi allt fyrir alla gera. Guðrún var góður námsmaður og augljóst að hún myndi ganga menntaveginn. Hún var góð hannyrðakona og eftir hana liggur óteljandi fjöldi prjóna- og útsaumsverka.

Guðrún hóf nám í læknisfræði við Háskóla Íslands og var hún annar tveggja nemanda sem komust í gegnum námið á fyrsta ári. Hún veiktist illa sumarið eftir og lá á sjúkrahúsi í nokkurn tíma áður en hún náði bata. Vegna veikindanna ákvað Guðrún að fresta námi um eitt ár. Þegar hún ætlaði að skrá sig inn á annað ár átti hún ekki kost á því, heldur yrði hún að hefja námið að nýju. Hún sætti sig ekki við þetta heldur ákvað að fara utan til frekara náms. Moskvuháskóli varð fyrir valinu. Hún nam rússnesku fyrsta árið en skráði sig síðan í nám við Læknaháskólann í Moskvu. Meðal kennara Guðrúnar í læknisfræðinni var Joseph Morozov, sem kenndi lyflæknisfræði, hann var dóttursonur Stalíns. Hún lýsti honum sem viðkunnanlegum, hæglátum manni og afar góðum kennara.

Samhliða náminu starfaði Guðrún sem blaðamaður Þjóðviljans. Blaðamannapassinn opnaði fyrir henni ýmsar dyr að sovésku samfélagi, erlendir blaðamenn nutu virðingar og flokkuðust með sendiráðsstarfsmönnum. Henni var m.a. boðið í diplómataveislur í Kreml og þar var hún eitt sinn þegar Fidel Castro var meðal gesta auk annarra fyrirmanna.

Hún ferðaðist mikið og sendi heim greinar um líf og land. Armenía var Guðrúnu sérstaklega hugleikin vegna náttúrufegurðar og ríkrar menningarhefðar. Þó lífið í Sovétríkjunum hafi stundum verið erfitt þá líkaði Guðrúnu dvölin vel. Hún bar virðingu fyrir landi og þjóð.

Árið 1974 lauk Guðrún læknaprófi í Moskvu og er eini Íslendingurinn sem hefur lokið slíku námi í Sovétríkjunum. Hún hélt heim til Íslands árið 1978. Hún hóf fljótlega störf sem læknir á Djúpavogi og árið 1991 var hún ráðin sem héraðslæknir á Þórshöfn á Langanesi. Þar starfaði hún þar til hún fór á eftirlaun. Þegar hún var ekki að sinna læknisstörfum þá voru það hannyrðirnar. Hún fór aldrei í sjúkraflug án þess að taka prjónana með sér og prjónaði hún látlaust samtímis sem hún gætti sjúklingsins.

Guðrún ólst upp í vinalegu barnmörgu hverfi í Vesturbænum. Svo vænt þótti henni um æskuheimilið, Stýrimannastíg 7, að hún keypti það ásamt Jóhönnu systur okkar þegar foreldrar okkar féllu frá. Komin á eftirlaun flutti hún til Svíþjóðar, til að vera nær Nönnu dóttur sinni og fjölskyldu hennar, en dvaldi jafnan á Stýrimannastígnum þegar hún kom heim.

Ég þakka Guðrúnu samfylgdina í lífinu og votta dóttur hennar, Nönnu Heiðarsdóttur, og fjölskyldu innilega samúð vegna fráfalls Guðrúnar.

Pétur Kristjánsson.

Hún Gunna, systir hennar mömmu, var það sem í dag heitir sterk fyrirmynd fyrir ungar stúlkur. Hún fór sínar eigin leiðir enda voru þær ekki margar konurnar af hennar kynslóð sem urðu ungar að aldri einstæðar mæður og luku læknisnámi í Rússlandi. Hún var eins og mörg okkar sem kenna sig við æskuheimili hennar og systkina hennar á Stýrimannastígnum; það er oft vesen á okkur en þegar á reynir stöndum við föst á okkar og gefum ekkert eftir.

Gunna var alltaf ung í anda, opin, leitandi og vildi ferðast um heiminn. Þegar ég var ung kona og vissi lítið hvað ég ætlaði að gera við líf mitt reyndist hún mér vel og kom alltaf fram við mig sem jafningja og vin. Hún var ráðagóð og stóð með mér enda fór það svo að ég lærði hjúkrun og átti eftir að vinna með henni.

Eftir Rússlandsdvölina flutti Gunna heim og gerðist héraðslæknir, fyrst á Djúpavogi en lengst af á Þórshöfn. Oft fór ég norður til hennar til að leysa af á heilsugæslunni. Eftir langt ferðalag beið hún mín alltaf með opinn faðminn, heita rússneska rauðrófusúpu og smurt brauð. Þar sá ég aðra hlið á henni því hún var klár læknir og úrræðagóður. Hún var röggsöm og leiddi sjúklinga með styrkri hendi. Hún sinnti þeim vel, lét þeim líða vel og þá kom oft að góðum notum hennar lúmski húmor. Ég leit alltaf upp til hennar sem læknis.

Með þessum fátæklegu kveðjuorðum vil ég þakka Gunnu frænku fyrir þá ástúð og umhyggju sem hún sýndi mér, dóttur minni Andreu og nú hin síðustu ár barnabörnunum Ölbu og Tomma. Í okkar fjölskyldu verður hennar alltaf minnst með hlýhug. Stórum hópi afkomenda hennar í Svíþjóð sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Jóhanna E. Jónsdóttir.

Fallin er frá stórbrotin kona með merka sögu, mikla lífsreynslu og glæstan starfsferil.

Guðrún var mannvinur hinn mesti, réttsýn og velviljuð, lestrarhestur og áhugasöm um stjórnmál. Hún ferðaðist mikið og hafði áhuga á menningu og mannlífi í þeim mörgu löndum sem hún heimsótti.

Síðustu árum starfsævinnar varði hún á Þórshöfn á Langanesi en heimsóknir til Svíþjóðar voru fastur liður í lífinu, því þar bjó dóttir hennar og fjölskylda en Guðrún átti þar einnig íbúð.

Barnabörnin elskuðu ömmu sína, yngsta barnabarnið pakkaði í litla ferðatösku þegar amma Gunna kom og flutti inn til hennar. Hún var alltaf gjafmild og eru minningar margar og góðar um ferðir og ævintýri með Gunnu ömmu. Það var því mikil gleði þegar amma Gunna flutti loks til Svíþjóðar eftir starfslokin og hafði nægan tíma fyrir fyrir fjölskylduna þar. Sænskan vafðist ekki fyrir henni, hún átti auðvelt með að læra tungumál og var vel að sér í þeim mörgum.

Gunna var mikil hannyrðakona og hafði alltaf eitthvað fallegt á prjónunum. Vikulega tók hún þátt í prjónaklúbbnum á Helsinglands museum, þar sem hún naut mikillar aðdáunar fyrir lopapeysur sínar, ullarsokka og vettlinga, enda hrein listaverk. Handverk hennar ylja og veita hlýjar minningar um kærleiksríka konu.

Elskuleg móðir, amma og langamma er farin og það er ótrúlega tómt. Við þökkum fyrir allar góðu minningarnar, gjafir og allt sem þú hefur verið okkur.

Nanna Heiðarsdóttir
og fjölskyldan í Svíþjóð.

Góð og gáfuð kona er fallin frá. Byggðarlagið hér á Þórshöfn á henni mikið að þakka fyrir langa og góða þjónustu en hingað kom hún sem héraðslæknir árið 1991 eftir að læknislaust hafði verið hér um nokkurt skeið. Guðrún bar velferð skjólstæðinga sinna fyrir brjósti, alltaf vakin og sofin yfir því að sinna öllum skyldum og reyndar langt út fyrir þær. Það hefur ekki verið létt að vera ein á sólarhringsvakt í einmenningslæknishéraði, ábyrgðin var mikil. Þegar Guðrún leyfði sér þann munað að fara í gönguferðir eftir vinnu á daginn, þá fór hún á bílnum eina þrjá kílómetra út fyrir þorpið og gekk svo stuttan spöl til og frá bílnum svo hún yrði nógu fljót í bílinn ef allt í einu kæmi útkall.

Guðrúnu fylgdi mikil hlýja og hún var góður hlustandi. Hún var einstaklega hógvær og datt aldrei í hug að hún hefði af neinu að státa þó hún hefði það svo sannarlega því fjölfróð var hún, víðlesin og vel menntuð.

Ætti ég að lýsa Guðrúnu vinkonu minni með einu orði þá væri það mannvinur, því hún mátti ekkert aumt sjá, vildi alltaf hjálpa og styrkja, hvort sem það var hér heima eða hjálparstarf erlendis. Hún var alltaf að gefa af sér og miðla til annarra, fræða og aðstoða. Hún sóttist ekki eftir heimsins gæðum og hugsaði meira og betur um aðra en sjálfa sig. Hennar gleði og ánægja virtist felast mest í því að sjá gleði þeirra sem hún hafði á einhvern hátt hjálpað.

Það var gaman að spjalla við Guðrúnu yfir tebolla, hún hafði frá mörgu að segja eftir viðburðaríka ævi og ferðalög víða um heiminn. Hún las mikið, fræðibækur, stjórnmál og þjóðmál og alltaf vildi hún lána bækurnar og svo ræða um efnið. Ekki má gleyma rússnesku heimsbókmenntunum með beittum ádeilum en Guðrún hélt sérstaklega upp á Gogol; Dauðar sálir, og hló dátt þegar hún ræddi um þá sögu og útskýrði nákvæmlega hvað höfundurinn væri raunverulega að segja um þjóðfélag sitt og mannlífið á þeim tíma.

Ég nefndi oft við Guðrúnu að hennar viðburðaríka ævi þyrfti að komast í almennilega ævisögu og við skyldum bara byrja á að skrá niður helstu punkta, margt ómerkara hefur víst komist á prent. „Æ, heldurðu það,“ sagði Guðrún með sinni mjúku rödd en tók þó ekki alveg fyrir það.

En frístundir hennar voru fáar og ekki varð af ævisöguritun. Ekki heldur að hún færi að þýða rússneskar barnabækur, sem hún talaði oft um að gera þegar hún hætti að vinna.

Guðrúnu var margt til lista lagt og hún var meistari í hvers kyns handavinnu. Prjónles ýmiss konar, lopapeysur, sokkar og útsaumur en Guðrún hafði einnig saumað nokkuð eftir fyrirmyndum frá Þjóðminjasafninu. Sokkarnir mínir og rósavettlingar eru dýrmætar minningar um hana, hlýtt og notalegt eins og hún sjálf.

Eitt leiddist Guðrúnu þó, það voru eldhússtörf og eldamennska eins og hún sagði sjálf, „æ ég kann ekkert að elda!“ Það er þó ekki alveg rétt hjá henni því ég man vel eftir ferskjutertunni góðu sem hún bakaði alltaf þegar kollegi hennar frá Kópaskeri kom yfir til Þórshafnar á stöðina í reglulegar heimsóknir en þá hafði Guðrún mikið við og mætti með þessa dýrindis tertu á kaffistofuna. Hún bakaði ekki fyrir hvern sem er, svo mikið sem henni leiddist í eldhúsinu.

Guðrún unni fjölskyldu sinni og talaði oft um hana og sýndi myndir af barnabörnunum en fjölskyldan var búsett í Svíþjóð svo atvinnu sinnar vegna hitti Guðrún fólkið sitt sjaldnar en hún hefði viljað. Þegar hún lét af störfum árið 2009 þá hafði hún loksins tíma fyrir sig og fjölskylduna og með þeim dvaldi hún síðustu árin.

Kæra Guðrún, þín er minnst með þakklæti og trega. Fjölskyldunni allri votta ég mína innilegustu samúð.

Líney Sigurðardóttir.

Við kynntumst í Gaggó Aust. og urðum samferða gegnum MR þaðan sem við útskrifuðumst 1959; það var áður en pillan kom til sögunnar, hvað þá rauðsokkurnar. Þú varst þögul en árvökul og eldklár í tungumálum. Líkt og þú hefðir átt margar mæður sem töluðu mörg tungumál og þú hefðir lært þau öll.

Við tvær féllum ekki inn í hópinn. Smökkuðum aldrei vín. Reyktum ekki. Slíkt var ekki á dagskrá hjá okkur enda ævinlega auralausar; ef annarri hvorri okkar áskotnuðust nokkrar krónur var veisla. Bíó. Kók og Prins.

Fyrsta skólaball vetrarins og við saumuðum kjól. Allt lék í höndum þér þótt þú hygðir á annars konar saumaskap í framtíðinni. „Af hverju viltu ekki bara verða hjúkrunarkona?“ spurði ég þegar mér ofbauð latínuáhuginn. „Ég ætla að verða læknir“, sagðir þú, og festan var slík í málrómnum að ég vissi að þetta var útrætt. Og ævintýrin gerast. Þú flaugst til Moskvu, lærðir rússnesku eins og að drekka vatn, fékkst námslaun og varðst læknir.

Áður en þú flaugst burt áttum við oft góðar stundir; útilegur við Heklu, við Þingvallavatn; með dætur okkar ungar, báðar fæddar 1959. Tjaldið var hvítt. Íslensk sumarangan. Þú dýrkaðir sólina, lást í birkikjarrinu og skynjaðir ekkert nema geisla sólarinnar.

Árin liðu, ég saknaði þín og skrifaði bréf. Stundum komu svarbréf, þá hafðir þú upplifað eitthvað stórkostlegt eða allt var komið í óefni.

Loks varstu alkomin heim, alvörulæknir. Þú þjónaðir fólkinu í afskekktum byggðarlögum af skyldurækni, kunnáttu og alúð. Þú varst að alla daga; þú ókst fjallvegi í vetrarfærð í sjúkravitjanir og flaugst með fársjúka norður eða suður í öllum veðrum. Átrúnaðargoð fólksins þar sem brimið braut á klettunum, þar sem lóan spáði rigningu og litbrigðin voru óteljandi. Þar sem tíminn var ekki til en vaktirnar samt 24 tímar. Þú stóðst þig svo vel að presturinn kvartaði við þig um jarðarfararleysi og keypti sér myndbandstæki.

Alltaf var kaffi á könnunni í læknisbústaðnum. Sjúklingar, gestir og gangandi komu. Síminn hringdi. Útkall. Það gerðist að læknirinn varð svangur; hafragrautur mallaður en oftar en ekki gleymdist að borða hann. Aldrei fórstu lengra burt en svo að þú gætir heyrt símann hringja, bara út á tröppurnar ef sást til sólar.

Eitt sinn hringdi ég í ofvæni út af smávægilegu vandamáli. Þú komst dauðþreytt í símann. Bílslys um nóttina. Þú hafðir komið að ungmennum sem lágu slösuð úti um allan veg. Í kolniðamyrkri. Vandi að ákveða hverjum skyldi fyrst hjálpað. Þér tókst að koma þeim öllum lifandi á sjúkrahús. Auðvitað gleymdi ég mínu undrasmáa vandamáli.

Þú varst elst fimm systkina og þau vissu öll að bjátaði eitthvað á, stóðstu staðföst eins og klettur við hlið þeirra og gerðir allt sem hugsast gat til að leysa vandann.

Við tvær höfum þrammað okkar ævistig um langan aldur, yfirleitt verið aðskildar af heimshöfum og löndum en við hverja endurfundi var eins og við hefðum hist í gær.

Innilegustu samúðarkveðjur til Nönnu, Jóhönnu, Elísabetar og Péturs og fjölskyldna þeirra; Sóleyjar Ástudóttur og allra þeirra sem munu sakna þín sárt.

Sólveig Kr. Einarsdóttir.