Í Höllinni
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Haukar geta á morgun unnið sinn sjötta bikarmeistaratitil í karlaflokki í handbolta á þessari öld og þann áttunda samtals þegar þeir mæta Aftureldingu í úrslitaleik bikarkeppninnar í Laugardalshöllinni.
Afturelding er hins vegar á höttunum á eftir sínum fyrsta bikarmeistaratitli á þessari öld því Mosfellingar unnu bikarinn í fyrsta og eina skiptið til þessa árið 1999.
Bæði lið tryggðu sér sætið í úrslitaleiknum á einstaklega sannfærandi hátt því Haukar unnu Framara 32:24 í fyrri leik gærkvöldsins í Laugardalshöllinni og Afturelding vann enn öruggari sigur á Stjörnunni í seinni leiknum, 35:26.
Haukar mættu mun ákveðnari til leiks gegn Fram og þó báðum liðum hafi gengið illa að skora á fyrstu mínútum leiksins var aldrei spurning í hvað stefndi eftir að Hafnfirðingar skoruðu fyrsta mark leiksins.
Varnarleikur Hafnfirðinga var afar þéttur allan leikinn og Ásgeir Örn Hallgrímsson hreyfði liðið vel allan tímann þannig að menn voru bæði ferskir og orkumiklir í vörninni allan tímann.
Þá gekk sóknarleikurinn eins og vel smurð vél þar sem níu leikmenn liðsins komust á blað og þá var Aron Rafn Eðvarðsson frábær í markinu fyrir aftan vörnina og varði 12 skot.
Á sama tíma var sóknarleikur Framara arfaslakur, þökk sé frábærum varnarleik Hauka að einhverju leyti, en það var eins og menn væru einfaldlega smeykir við að taka af skarið.
Liðið skoraði aðeins eitt mark á fyrstu tíu mínútum leiksins og það mark kom úr víti. Það er í raun hálfótrúlegt að liðið hafi náð að hanga inn í leiknum í fyrri hálfleik miðað við frammistöðuna sóknarlega.
Haukar eru með reynslumeira lið en Fram og sú reynsla reyndist dýrmæt þegar leið á leikinn. Þó hún hafi ekki riðið baggamuninn þá voru Framarar einfaldlega yfirspenntir þegar mest á reyndi, á meðan Hafnfirðingar héldu ró sinni allan tímann og það var stærsti munurinn á liðunum í leiknum.
Andri Már Rúnarsson skoraði 7 mörk fyrir Hauka, Ólafur Ægir Ólafsson og Guðmundur Bragi Ástþórsson 5 hvor. Marko Coric og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skoruðu 4 mörk hvor fyrir Framara.
Stemning hjá Aftureldingu
Afturelding er stemningslið og það sást strax á fyrstu mínútu gegn Stjörnunni að leikmenn liðsins voru vel gíraðir og stemmdir í leiknum.
Brynjar Vignir Sigurjónsson bókstaflega lokaði markinu í upphafi leiks og varði fyrstu fjögur skot Garðbæinga, þar af eitt vítaskot.
Það mætti segja sem svo að markvörðurinn hafi dregið allar tennurnar úr Garðbæingum í fyrri hálfleik því hann varði alls tíu skot í markinu, þar af þrjú vítaskot.
Eftir að Mosfellingar náðu sjö marka forskoti var í raun aldrei að spyrja að því. Stuðningsmenn liðsins voru enda byrjaðir að tralla, syngja og rífa sig úr að ofan, strax í upphafi síðari hálfleiks.
Á sama tíma var ótrúlegt að fylgjast með andlegu hruni Garðbæinga á vellinum. Þeir brotnuðu allt of snemma, miðað við gæðin í liðinu, og frammistaðan var einfaldlega ekki boðleg þegar komið er í undanúrslit bikarkeppninnar.
Þegar allt kemur til alls þá vildu Mosfellingar þetta meira og þeir uppskáru eins og þeir sáðu, strax frá fyrstu mínútu.
Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði 10 mörk fyrir Aftureldingu, Árni Bragi Eyjólfsson og Igor Kopishinsky 7 hvor en Hergeir Grímsson skoraði 7 mörk fyrir Stjörnuna og Gunnar Steinn Jónsson 5.