Björn Reynarð Arason fæddist á Brimnesvegi 22 í Ólafsfirði 31. janúar 1962. Hann varð bráðkvaddur í Fljótum 5. mars 2023.

Foreldrar hans eru hjónin Ari Sigþór Eðvaldsson, f. 3.2. 1943, d. 25.5. 2017, og Minný Kristbjörg Eggertsdóttir, f. 29.11. 1944.

Systir Björns er Bylgja Rúna Aradóttir, f. 27.12. 1964. Maki hennar er Hinrik Karl Hinriksson, f. 30.5. 1963. Þau eiga þrjú börn.

Sambýliskona Björns til 12 ára er Berglind Gylfadóttir.

Björn eignaðist fjögur börn úr fyrri sambúð. Sambýliskona hans til 25 ára var Hugrún Ósk Heiðdalsdóttir.

Börn þeirra eru:

1) Guðrún Ólöf Björnsdóttir, f. 22.11. 1989, maki Birgir Björn Hjartarson, f. 25.9. 1989. Þau eiga fjögur börn: Óðinn Fannar Kvaran, f. 12.10. 2007, Máney Ósk Arnarsdóttir, f. 4.1. 2010, Hjörtur Reynarð Birgisson, f. 7.9. 2016 og Haftýr Björn Birgisson, f. 25.11. 2019.

2) Ari Sigþór Heiðdal Björnsson, f. 10.12. 1991, maki Ara Dan Pálmadóttir, f. 10.8. 1991. Þau eiga tvö börn: Sunneva Ósk Broddadóttir, 28.06. 2011 og Sara Ósk Aradóttir, f. 9.4. 2016.

3) Jón Fannar Björnsson, f. 17.1. 1996, sambýliskona Heiðdís Anna Grant, f. 27.10. 1996.

4) Fanney Björg Björnsdóttir, f. 17.1. 1996, sambýlismaður Daði Guðvarðarson, f. 4.10. 1986. Saman eiga þau tvö börn: Freysteinn Ari Daðason, 28.4. 2016 og Ágústa Eva Daðadóttir, f. 2.8. 2021.

Útförin fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 17. mars 2023, klukkan 14.

Streymt verður frá útför:

https://mbl.is/go/sy4fj

Elsku hjartans ástin mín ég er ekki búin að meðtaka að við séum ekki að fara að hittast aftur. Það býr mikil sorg í hjarta mínu sem er brotið í þúsund mola. En mitt í allri sorginni þá finnst mér fallegt að þú hafir fengið að kveðja á uppáhalds staðnum þínum í Fljótunum en þar áttum við okkur sælureit þar sem ótal minningar voru búnar til. Allt sem við höfðum ætlað okkur í framtíðinni er horfið eins og dögg fyrir sólu. Ég skil ekki af hverju þú varst tekinn frá mér. Mig vantar að sjá þig, finna og hlæja og njóta fleiri stunda með þér. Þú varst einstaklega iðjusamur, ígrundaðir allt sem þú gerðir einstaklega og vandlega og tókst svo ákvörðun. Ef að einhvern vantaði aðstoð varstu ávallt tilbúinn að leggja lið fyrir fjölskyldu og vini. Þú elskaðir að vera í sveitinni okkar. Ég er þakklát fyrir allar minningarnar og okkar tíma saman.

Ég á eina minning, sem mér er kær:

Í morgundýrð vafinn okkar bær

og á stéttinni stendur hann hljóður,

hann horfir til austurs þar ársól rís,

nú er mín sveit eins og Paradís.

Ó, hvað þú, Guð, ert góður.

Ég á þessa minning, hún er mér kær.

Og ennþá er vor og þekjan grær

og ilmar á leiðinu lága.

Ég veit að hjá honum er blítt og bjart

og bærinn hans færður í vorsins skart

í eilífðar himninum bláa.

(Oddný Kristjánsdóttir)

Elsku Björn þú verður ætíð í hjarta mínu.

Hvíl þú í friði elsku ástin mín.

Þín Linda

Berglind.

Vinátta og velvild hafa alla tíð einkennt nágranna okkar við Miklavatn í Fljótum, en þar undi Björn sér einna best, á þeim stað sem hann og Linda höfðu búið sér við vatnið.

Við faðir minn, Dagfinnur Stefánsson, áttum því láni að fagna að kynnast Birni og búa að vináttu hans og greiðasemi alla tíð. Þau eru óteljandi handtökin sem tekin voru við uppbyggingu, viðhald og betrumbætur og hjálpsemi Björns var þannig að það var ekki einungis brugðist við ef aðstoð vantaði heldur var að fyrra bragði ráðist óbeðið í hlutina eftir því sem honum sýndist þurfa.

Það sem einkenndi Björn líka var óþrjótandi fróðleikur um allt milli himins og jarðar. Það var sama hvaða umræðuefni komið var inn á, maður fór alltaf fróðari af fundi hans.

Fljótin eru mér kær og fólkið sem þau byggir, allt frá því forðum er ég kynntist því eðalfólki; Önnu, Laugja og Valla í Lambanesi. Í Fljótunum býr mikil fegurð og mikil saga. Til að mynda hófst hin ævintýralega vegferð Loftleiða, með síldarleitarfluginu frá Miklavatni. Björn sýndi þeirri sögu mikinn áhuga og lagði meira af mörkum en margur annar til að varðveita hana og er ég honum mjög þakklát fyrir það.

Það lærist í stórum dráttum á lífsleiðinni hvað skiptir máli þegar upp er staðið og hvað ekki. Þar er ekki hægt að draga úr mikilvægi þess að hitta fyrir einlægt og gott fólk. Við göngum oft að ýmsu sem gefnu og þar á meðal þeim tíma sem við höfum með samferðamönnum okkar. Það lá svo beint við að hlakka til vorsins, renna í hlaðið og hitta bæði Björn og Lindu á ný. En það reyndist ekki sjálfgefið og reiðarslag að heyra af andláti Björns, sem var alltaf svo lifandi persónuleiki. Maður gleðst bara í hjarta sínu yfir að hafa eignast svo einstaka nágranna sem Björn og Lindu og kynnst öðru ótrúlega góðu fólki í Fljótunum.

Sendi einlægar samúðarkveðjur og hlýhug til allra aðstandenda og vina. Minningar um góðan dreng munu lifa.

Inga Björk

Dagfinnsdóttir.

Elsku hjartans pabbi minn, kletturinn sem stóð öll veður af sér. Öryggið sem fylgdi mér rétta veginn.

Hafsjór af fróðleik. Lífsreglurnar sem óma enn.

Þú komst mér oft á óvart, svo stór karakter sem þú varst.

Þú sást alltaf leið þó enginn annar sæi hana.

Ávallt traustur, góðhjartaður og vildir vel.

Sérviska og nákvæmni í ákveðnum málum, hreinn og beinn.

Duglegur, metnaðarfullur og mikill drifkraftur.

Ég mun aldrei gleyma því þegar ég hitti þig í síðasta sinn. Gullin slæða á himninum kastaði gylltri birtu yfir allt og vor var í lofti. Þú varst svo yfirvegaður, fallegur, sæll og sólbrúnn. Spurðir eins og alltaf hvernig afabörnin þín hefðu það. Þér var mikið í mun að allt gengi vel.

Látlaus vinnan litaði líf þitt, en undanfarið höfðu hlutirnir breyst. Þú ætlaðir að fara að lifa lífinu. Skoða heiminn, taka því rólega og verja meiri tíma með fjölskyldunni. Ég hlakkaði svo til að eiga þessar stundir með þér.

Þú varst svo góður pabbi, ég hefði ekki getað hugsað mér betri föður en þig.

Minningarnar lifa í hjörtum okkar, lífið er stundum svo ósanngjarnt. 61 árs er ekki hár aldur en ég er þakklát fyrir þann tíma sem við fengum saman.

Þú varst svo stoltur af okkur börnunum þínum og kenndir okkur svo vel að standa á eigin fótum.

Þú varst alltaf til staðar, í öllum þeim ógnum og veikindunum sem gengið hafa á hjá börnunum mínum, alltaf fékk ég símtalið og styrkinn.

Fyrir allt er ég ævinlega þakklát.

Það er stórt skarð í hjarta okkar allra. Svo óvænt, svo sárt.

Takk fyrir allt, elsku pabbi minn, við sjáumst síðar.

Þín dóttir,

Guðrún Ólöf Björnsdóttir.

Elsku frændi.

Mikið er það skrítið að sitja hér og skrifa um þig minningarorð.

Það var alltaf gaman að spjalla við þig yfir kaffibolla hjá ömmu. Heimsmálin rædd og þau krufin til hins ýtrasta. Þú sagðir skemmtilega frá og varst langorður um hlutina.

Þú ætlaðir að segja mér frá helstu „tips og tricks“ varðandi Kanarí enda nýkominn þaðan sjálfur og þú vissir að ég væri á leiðinni þangað í maí. Ég fæ Lindu til að segja mér frá helstu undirstöðuatriðunum í mini-golfi, mér skilst að þú hafir unnið hana með stæl í því og varst mjög stoltur af.

Mikið var það dásamlegt þegar við strákarnir mínir hittum ykkur ömmu fyrir algjöra tilviljun lengst inni í Flókadal sumarið 2020. Ég hef sjaldan heyrt ykkur mæðgin hlæja jafn hátt og þegar við keyrðum fyrir aftan ykkur og lágum á flautunni. Eftir keyrsluna til baka bauðstu okkur að koma í kaffi og þú sýndir okkur höllina þína í Fljótunum sem þú varst svo stoltur af.

Það er mikill missir að þú sért farinn frá okkur. Ég mun gera mitt allra besta við að passa upp á ömmu, Lindu og krakkana þína.

Þangað til næst.

P.s Scooter er komið í favorites á Spotify hjá mér eftir mikla spilun síðustu tvær vikurnar.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Valdimar Briem)

Þín systurdóttir,

Kristbjörg.