Elísabet Gerður Guðmundsdóttir (Elsa) var fædd í Reykjavík 3. mars 1944. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 6. mars 2023.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Sæmundsson, f. 1908, d. 1985 og Guðrún Ásgeirsdóttir, f. 1914, d. 1993. Systkini hennar eru Reynir, f. 1942, maki Lourdes Morales Gudmundsdotter, f. 1944, Sigríður, f. 1948 og Sæmundur, f. 1950, maki Sólveig Jóhannsdóttir, f. 1957.

Sonur Elsu frá fyrra sambandi er Sigurbjörn Birkir Björnsson, f. 1974. Faðir hans er Björn Sigurbjörnsson, f. 1938.

Í október 1985 giftist Elsa eftirlifandi manni sínum, Bjarna Kristjánssyni, f. 31. júlí 1944, framkvæmdastjóra Vistheimilisins Sólborgar og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Norðurlandi eystra og seinna sveitarstjóra í Eyjafjarðarsveit. Foreldrar hans voru Kristján Bjarnason, f. 1911, d. 1992 og Mekkín Guðnadóttir, f. 1920, d. 2016. Með fyrri eiginkonu sinni, Selmu Jónsdóttur, átti Bjarni soninn Kristján, f. 1965, eiginkona hans er Erla Margrét Hilmisdóttir, f. 1975 og eiga þau Karen Ósk, f. 2002 og Bjarna Veigar, f. 2004.

Stjúpdóttir Bjarna frá fyrra hjónabandi er Inga Hrönn Einarsdóttir, f. 1960. Hennar maður er Friðjón G. Jónsson, f. 1960. Synir þeirra: Einar Logi, f. 1983, Jón Stefán, f. 1989 og Egill Bjarni, f. 1996. Sambýliskona Einars Loga er Kolbrún Björg Jónsdóttir, f. 1987 og eiga þau soninn Henrik Atla, f. 2022. Börn Einars Loga frá fyrra sambandi eru: Óskar Arnór, f. 2007 og Adriana Inga, f. 2014. Sambýliskona Jóns Stefáns er Karen Vilhjálmsdóttir, f. 1992, sonur þeirra er Ýmir Logi, f. 2021.

Fljótlega að loknu hefðbundnu framhaldsskólanámi lagði Elsa land undir fót og hélt til Englands þar sem hún starfaði m.a. við heimilishjálp og hótelstörf. Um eins og hálfs árs skeið dvaldist hún í Noregi og sigldi m.a. sem þerna með „Hurtig ruten“ milli Bergen og Kirkenes. Þessi útivist spannaði samtals um það bil fjögur ár. Eftir heimkomuna vann hún ýmis störf í Reykjavík en eftir að hún flutti til Akureyrar um 1980 starfaði hún lengst af við skrifstofustörf hjá Landsvirkjun þar til hún lauk störfum 2016.

Elsa og Bjarni bjuggu fyrstu sambýlisár sín á Akureyri en árið 1990 keyptu þau býlið Knarrarberg í Eyjafjarðarsveit. Því fylgdi u.þ.b. 1 ha. lands, útihús og þriggja bursta íbúðarhús með kjallara. Þau hjón lögðu í mikla vinnu við endurbætur húsanna og umhverfi. Endurbæturnar voru áhugamál þeirra og tómstundavinna til margra ára. Samhliða því komu þau upp glæsilegum skrúðgarði. Þau urðu þess heiðurs aðnjótandi, sem þeim þótti mjög vænt um, að vinna til umhverfisverðlauna Eyjafjarðarsveitar þrisvar sinnum á seinni hluta búsetu sinnar á Knarrarbergi en henni lauk í árslok 2014 og fluttu hjónin þá til Akureyrar.

Útför hennar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 17. mars 2023, klukkan 13.

Við þekkjum þann heim sem við ölumst upp í og göngum sjálfsagt ómeðvitað út frá því að það sé normið. Ég kem úr hópi fjögurra alsystkina sem ólust upp hjá báðum foreldrum. Þegar við Stjáni hófum okkar samband fannst mér ég detta í lukkupottinn þar sem að honum standa tvö pör foreldra. Ég eignaðist tvær tengdamæður og tengdafeður ásamt öðru tengdafólki. Elsa var önnur þeirra. Það var gott að eiga Elsu að. Aldrei kom maður að tómum kofunum þar og var hún alltaf boðin og búin að aðstoða og leiðbeina um hvaðeina sem fengist var við. Það þótti auðsótt mál að leyfa okkur stækkandi þriggja manna fjölskyldu að flytja inn á neðri hæðina á Knarrarbergi. Elsa var natin og hugsaði vel um fólkið sitt. Það var gaman að koma í heimsókn og átti hún alltaf eitthvað til að bjóða upp á og svo var spjallað og Elsa hafði skoðun á flestu. Mér fannst hún algjör töffari og dáðist að því að hún tók upp á því að fara til útlanda eftir að skólagöngu lauk til að sjá meira af heiminum. Mér fannst hún líka töffari þegar hún lærði bowen-tækni. Hún nuddaði stundum iljarnar á mér og það var ljóst að hún bjó yfir einhverju meira en flestir.

Þegar börnin mín fæddust kynntist ég henni sem ömmu. Það var heill ævintýraheimur fyrir lítil ömmu- og afabörn að koma á Knarrarberg. Þar mátti nánast allt! Brasa inni og úti og endalaus þolinmæði sem gerði það að verkum að mörgu var komið í verk í sveitinni. Það þurfti að vökva öll blómin, bæði inni og úti. Auðvitað þurfti að smakka rabarbarann og jarðarberin. Það þurfti að slá grasið og dugði þá ekkert minna til en traktor. Þegar kom að sólpallagerðinni var ekkert annað sem kom til greina en að það yrði á honum hús fyrir börnin að leika í og innbyggður sandkassi. Amma Elsa saumaði gardínur og svo máluðu börnin húsið með ömmu og afa. Öllu til tjaldað. Alltaf var til ís í frystinum og amma varð ekkert fúl þó að litlar hendur lokuðu ekki alltaf frystiskápnum nægilega vel. Það var gott að taka á móti glöðum börnum úr ömmu og afa fangi eftir næturgistingu í sveitinni.

Elsa sýndi mikinn áhuga á lífi barnanna minna og fyrir það er ég ákaflega þakklát. Þau Bjarni buðu þeim oft með á leiksýningar, tónleika og aðra viðburði. Þau komu með til Eyja til að hafa ofan fyrir Karen Ósk á meðan „litli Bjarni“ spilaði fótbolta. Þau fengu að taka þátt í tómstundastarfi með ömmu og afa þar sem heimilishald eins og það var fyrir um 100 árum í Laufási var sett á svið. Elsa saumaði og prjónaði fatnað á þau bæði auk frændsystkina þeirra sem fengu líka að taka þátt. Eftir því sem árin liðu breyttust samverustundirnar en alltaf var amma nálægt.

Það var áfall þegar veikindin tóku sig upp. Þegar ljóst varð að hverju stefndi tók hún því af ótrúlegu æðruleysi og hafði áhyggjur af heilsu annarra. Síðustu orð hennar við Bjarna Veigar þegar hann kvaddi hana á sjúkrahúsinu voru: láttu þér líða vel. Það ætlum við að gera.

Elsku Bjarni, Birkir og aðrir aðstandendur, það kemur enginn í stað elsku Elsu en minning hennar lifir í hjörtum okkar.

Hafðu þökk fyrir allt og allt. Þar til næst!

Erla Margrét Hilmisdóttir.

Elsku yndislega amma mín, ég get varla lýst því með orðum hvað ég elska þig og sakna þín. Þú varst stöðugur klettur í lífi mínu og ég trúði því eiginlega aldrei að þú myndir nokkurn tímann fara. Þú studdir mig í öllu sem ég tók mér fyrir hendur og trúðir alltaf á mig, og ég er þér svo innilega þakklát. Þú varst ein klárasta, sterkasta og sjálfstæðasta kona sem ég þekkti og það mun enginn geta fyllt gatið sem þú skilur eftir þig.

Ég vildi óska þess að við gætum farið saman aftur á kaffihús í hádeginu og rætt um allt á milli himins og jarðar, en það þarf víst að bíða.

Ég elska þig, sjáumst.

Þín

Karen Ósk.

Okkar kæra systir er nú horfin á braut, svo snöggt en þó var aðdragandinn langur, með takmörkuðum lífsgæðum og hvíldin því kærkomin. Að setjast niður og skrifa kveðjuorð er þungbært því hugurinn vill alltaf staldra við þá staðreynd að hún sé horfin. Engin Elsa systir á Akureyri lengur.

Elsa var. eins og hún lýsti sér sjálf sem krakka, kraftmikil og dugleg og eflaust frek og var fljót til ef hún var beðin einhvers, svona hálfgerð strákastelpa sem hikaði aldrei. Foreldrar okkar byrjuðu sinn búskap niðri í bæ, á Klapparstíg, og var Elsa gjörn á að þvælast um allan bæinn eins og hann var þá fyrir 1950, og hún lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Eftir að flutt var inn í Skipasund fór hún í vist niður á Hverfisgötu þá 7 til 8 ára og keyrði stóran barnavagn um bæinn og fór heim eingöngu um helgar því þetta var svo langt.

14 ára fékk hún að fara til Bolungarvíkur til Gumma, bróður mömmu, og Jensínu konu hans en mest dvaldi hún þennan tíma hjá Erlu og Rögga frænda, og kynntist þeim vel, og reyndist þeim mikil stoð og stytta í veikindum Rögga heitins síðar.

Elsa var 16 ára þegar við fluttum í Kópavoginn og þá komin út á vinnumarkaðin og fór víða um, vann meðal annars í Útvegsbankanum, hjá Póstinum og ekki hvað síst á Hótel Esju. Hún fór bæði til Englands og Noregs þar sem hún var í vist og vann á hótelum. Svo var það um 1980 sem hún flutti til Akureyrar og fer þá að vinna hjá Landsvirkjun. Þá var hún búin að eignast drenginn sinn hann Birki. Á Akureyri kynntist hún Bjarna og giftu þau sig fljótlega þar.

Það hefur alltaf verið notalegt og gott að koma til þeirra Bjarna í þeirra fínu híbýli.

Þau hafa ævinlega búið sér svo myndarleg heimili gegnum tíðina þar sem ekki síst garðarnir hafa verið svo fallegir og til fyrirmyndar. Þvílíkar moldvörpur bæði tvö, ótrúlega dugleg og útsjónasöm og það var sko greinilega þeirra líf og yndi að vinna í görðunum, skipuleggja, breyta, bæta, færa plöntur og gera allt sem gera þarf til að skapa fallegt og eftirsótt umhverfi kringum sig.

Við sendum þeim Bjarna og Birki okkar samúðarkveðjur.

Sæmundur (Sæmi),
Sigríður (Sigga) og Reynir.

Bjarni bróðir minn og Elsa hófu búskap sinn í Glerárhverfi á Akureyri en tóku sig fljótlega upp þaðan og keyptu litla jörð í Eyjafjarðarsveit, Knarrarberg. Þar þurfti sannarlega að taka til hendinni og það gerðu þau líka svikalaust. Það þurfti að endurnýja byggingar og reisa nýjar og rækta umhverfið. Að þessu unnu þau allan sinn tíma þar, eða um aldarþriðjung samhliða öðrum störfum sínum. Bæði þekkt fyrir að falla sjaldan verk úr hendi. Elsa hafði græna fingur og blómstrandi garðurinn var að mestu hennar verk. Þegar búsetu þeirra lauk þar höfðu þau breytt Knarrarbergi í eins konar lítinn herragarð í sveitinni. Þangað var gaman að koma og þar mun verka þeirra lengi sjá stað.

Elsa mágkona mín var mikil atorkukona. Hún var ákveðin í tali og skoðunum og bar með sér reisn. Hún var líka trygg og ræktarsöm þeim sem hún tengdist böndum við. Þess nutu foreldrar okkar systkinanna í ríkum mæli í elli sinni. Einkum var hún mikil stoð og stytta móður okkar sem hélt eigið heimili fram á tíræðisaldur. Hún er kvödd með miklu þakklæti. Blessuð sé minning hennar.

Jón Guðni Kristjánsson.

Elsa svilkona mín er loksins laus úr fjötrum erfiðs sjúkdóms, og svífur nú vonandi um blómum skrýddar grundir í „sumarlandinu“.

Elsa var með það sem kallað er „grænir fingur“ og er ógleymanlegt hve fallega hún umbylti með hjálp Bjarna Kristjánssonar mágs míns umhverfi Knarrarbergs í Eyjafjarðarsveit enda fengu þau umhverfisverðlaun oftar en einu sinni. Að aka þar framhjá eða koma þangað í heimsókn var alltaf gaman og orkugefandi vegna þess hve fallega þau gerðu upp húsakost og ræktuðu upp blóm, tré og runna kringum bæinn.

Elsa var einnig mjög ræktarsöm við sína nánustu og vini og afar barngóð bæði við ömmubörn og börn allra aðstandenda og vina. Birkir sonur hennar var henni afar náinn og á nú um mjög sárt að binda. Eftir Knarrarbergsárin fluttust þau hjón til Akureyrar og hafa síðustu árin átt heimili nálægt okkur og var ánægjulegt að geta oft rölt á milli og átt nánari og tíðari samskipti.

Því miður veiktist svo Elsa af illkynja sjúkdómi sem að lokum varð henni að aldurtila. Heimahjúkrun, heimahlynning, læknar og hjúkrunarfólk á lyfjadeild SAk eiga þakkir skildar fyrir góða umönnun.

Við þökkum fyrir allar góðar og eftirminnilegar stundir með Elsu, sem var afar hlýleg og góðviljuð okkur og dætrum okkar gegnum tíðina. Við vottum Bjarna eiginmanni hennar, Birki syni hennar og systkinum hennar Sigríði, Sæmundi og Reyni, barnabörnum og öðrum aðstandendum innilega samúð á erfiðum tímum.

Haraldur Hauksson.

Það verður óneitanlega öðruvísi að koma til Akureyrar núna eftir andlát Elsu.

Eitt af því sem við alltaf gerðum þegar við komum til Akureyrar var að heimsækja Elsu og Bjarna. Kynni okkar af Elsu hófust þegar hún og vinur okkar til margra ára, Bjarni Kristjánsson, hófu búskap. Frá fyrstu stundu var eins og við hefðum þekkt hana lengi. Hún var hreinskiptin og óhrædd við að segja skoðanir sínar, sem okkur þótti eftirsóknarverður eiginleiki. Eftirminnilegar eru heimsóknir til þeirra Bjarna á Knarrarberg þar sem Elsa leiddi okkur um sístækkandi aldinreit, hún hafði sannarlega græna fingur og þau hjónin voru samstiga í ræktunarstarfi sínu. Síðar nutum við jarðarberja úr gróðurhúsinu í Beykilundi.

Elsa var ávallt áhugasöm um hagi allra í okkar fjölskyldu, barna og barnabarna. Þegar komið var til Akureyrar var öllum boðið í heimsókn til Bjarna og Elsu.

Eitt barnabarn okkar komst svo að orði: „Fiskisúpa er það besta sem ég fæ og fiskisúpan hennar Elsu er sú allra besta.“

Síðasta skiptið sem við hittum Elsu var á heimili okkar í Reykjavík og var þá af henni dregið, hún var þó sem fyrr áhugasöm um menn og málefni og áttum við yndislega samverustund.

Okkur þykir miður að geta ekki verið viðstödd jarðarför hennar þar sem við erum í útlöndum.

Við sendum Birki, Bjarna og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning góðrar konu.

Friðrik og Þórdís.