9 Shearsmith og Pemberton eru sniðugir.
9 Shearsmith og Pemberton eru sniðugir. — Ljósmynd/BBC
Undanfarið hef ég horft á safnþáttaröðina Inside No. 9 af miklum móð. Þáttaröðin er úr smiðju BBC og er hugarfóstur snillinganna Steves Pembertons og Reeces Shearsmiths

Gunnar Egill Daníelsson

Undanfarið hef ég horft á safnþáttaröðina Inside No. 9 af miklum móð. Þáttaröðin er úr smiðju BBC og er hugarfóstur snillinganna Steves Pembertons og Reeces Shearsmiths.

Í hverjum þætti er sögð sjálfstæð saga þar sem handritshöfundarnir Pemberton og Shearsmith fara báðir með hlutverk, oftast aðal, og bregða sér nokkuð bókstaflega í allra kvikinda líki. Það eina sem sögurnar eiga sameiginlegt er að þær eiga sér stað í einhverjum híbýlum eða stað sem tengist númerinu níu.

Í Inside No. 9 er gríni og hryllingi gjarna blandað saman en í raun ægir nokkurn veginn öllum tegundum skemmtiefnis saman.

Skemmst er frá því að segja að afskaplega vel tekst til. Pemberton og Shearsmith hafa einstakt lag á að segja spennandi, skemmtilegar og sniðugar sögur á hálftíma í senn.

Ég hef notið hvers einasta þáttar en finnst ég sérstaklega verða að nefna The 12 Days of Christine, sem ekki er loku fyrir skotið að sé hreinlega besti einstaki þáttur sem ég hef nokkurn tímann séð.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson