Drjúgur Pablo Cesar Bertone var í aðalhlutverki hjá Valsmönnum í afar naumum sigri þeirra gegn ÍR á Hlíðarenda. Hann skoraði 34 stig.
Drjúgur Pablo Cesar Bertone var í aðalhlutverki hjá Valsmönnum í afar naumum sigri þeirra gegn ÍR á Hlíðarenda. Hann skoraði 34 stig. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einvígi Vals og Njarðvíkur um deildarmeistaratitil karla í körfuknattleik heldur áfram en liðin höfðust þó ólíkt að þegar þau sigruðu botnliðin ÍR og KR í 20. umferðinni í gærkvöld. Njarðvíkingar unnu tiltölulega öruggan sigur á föllnum KR-ingum í…

Körfuboltinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Einvígi Vals og Njarðvíkur um deildarmeistaratitil karla í körfuknattleik heldur áfram en liðin höfðust þó ólíkt að þegar þau sigruðu botnliðin ÍR og KR í 20. umferðinni í gærkvöld.

Njarðvíkingar unnu tiltölulega öruggan sigur á föllnum KR-ingum í Vesturbænum, 120:101, en voru þó undir í hálfleik, 53:49.

Valsmenn lentu hins vegar í gríðarlegu basli með ÍR-inga á Hlíðarenda en tókst að knýja fram nauman sigur, 102:97, eftir tvær framlengingar þar sem Breiðhyltingar börðust svo sannarlega fyrir lífi sínu í deildinni.

Valur og Njarðvík eru með 32 stig hvort þegar tvær umferðir eru eftir. Viðureign þeirra í Ljónagryfj­unni næsta föstudagskvöld, 24. mars, ræður væntanlega úrslitum um það hvort þeirra stendur uppi með titilinn og heimaleikjaréttinn í allri úrslitakeppninni. Valur vinnur á innbyrðis viðureignum ef þau enda jöfn að stigum í lokin, og verður því meistari með sigri í Njarðvík. Í lokaumferðinni á Valur heimaleik gegn Tindastóli en Njarðvíkingar fara í stutt ferðalag til Keflavíkur.

ÍR-ingar eiga enn von

ÍR-ingar eru ekki fallnir þó þeir hafi tapað leiknum gegn Val, vegna þess að Höttur tapaði á sama tíma fyrir Keflavík á Egilsstöðum, 84:89. Fjögur stig skilja liðin að en ef ÍR vinnur Keflavík í 21. umferðinni og Höttur tapar fyrir Breiðabliki mætast liðin í hreinum úrslitaleik um sæti í deildinni á Egilsstöðum í lokaumferðinni. Verði það raunin, þarf ÍR að vinna þann leik með ellefu stiga mun til að fara upp fyrir Hött á innbyrðis viðureignum.

Pablo Cesar Bertone var langbestur Valsmanna gegn ÍR með 34 stig. Kristófer Acox skoraði 22 og tók 11 fráköst og Callum Lawson skoraði 14.

Martin Paaojsa skoraði 22 stig fyrir ÍR, Collin Pryor skoraði 19 og tók 16 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson skoraði 18 og Taylor Johns var með 14 stig og heil 23 fráköst.

Nicolas Richotti og Dedrick Deon Basile skoruðu 28 stig hvor fyrir Njarðvík gegn KR, Mario Matasovic skoraði 20 og Lisandro Rasio 18.

Antonio Woods skoraði 25 stig fyrir KR, Justas Tamulis 20, Þorsteinn Finnbogason 17 og Aapeli Alanen 17.

Halldór Garðar Hermannsson skoraði 19 stig fyrir Keflavík gegn Hetti, Eric Ayala 15, og þá var Dominykas Milka með 12 stig og 12 fráköst.

Bryan Anton Alberts skoraði 21 stig fyrir Hött og Timothy Guers 19.

Haukar eru áfram í baráttu um þriðja sætið eftir sigur á Stjörnunni á Ásvöllum, 99:86.

Haukar eru með 26 stig eins og Keflavík en liðin slást um þriðja og fjórða sætið ásamt Tindastóli sem er með 22 stig en á leik til góða annað kvöld.

Stjarnan er áfram í níunda sætinu með 16 stig og í slag um sæti í úrslitakeppninni, við Grindavík sem er með 18 stig, Þór Þorlákshöfn og Breiðablik sem eru með 16 stig.

Haukar voru yfir í hálfleik, 57:45. Stjarnan náði að jafna metin í síðari hálfleiknum en Haukar sigu fram úr á ný og tryggðu sér sigurinn á lokakaflanum.

Darwin Davis skoraði 29 stig fyrir Hauka, Hilmar Smári Henningsson 19 og Orri Gunnarsson 19.

Adama Darbo skoraði 25 stig fyrir Stjörnuna, Niels Gutenius 121 og Dagur Kár Jónsson 12.

Höf.: Víðir Sigurðsson